Sungið af lífi og sál Hinsegin kórinn hefur komið saman tvisvar til þrisvar í viku síðan í nóvember til að undirbúa tónleikana.
Sungið af lífi og sál Hinsegin kórinn hefur komið saman tvisvar til þrisvar í viku síðan í nóvember til að undirbúa tónleikana. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Hinsegin kórinn hefur verið með stífar æfingar á síðustu dögum fyrir árlega jólatónleika kórsins í Lindakirkju á morgun, laugardag, kl. 16.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Hinsegin kórinn hefur verið með stífar æfingar á síðustu dögum fyrir árlega jólatónleika kórsins í Lindakirkju á morgun, laugardag, kl. 16.

Kórinn hefur komið saman á jólatónleikum frá árinu 2012 og er þekktur fyrir líflega framkomu og fjölbreytta tónlist. Erla Rún Guðmundsdóttir, félagi í kórnum, segir að kórinn hafi verið stofnaður á sínum tíma sem vettvangur þar sem fólk gat komið saman óháð kynhneigð og kynvitund. „Þetta var hópur hinsegin fólks sem ákvað að búa til vettvang þar sem fólk gat komið saman óháð kynhneigð og kynvitund og bara sungið saman óháð öllu öðru.“

Í gegnum árin hefur kórinn uppfært texta ýmissa þekktra jólalaga og sett þá í nútímalegri búning með skemmtilegum hætti. Syngur kórinn meðal annars „ég sá pabba kyssa jólasvein“ en Erla segir að þetta sé nú ekki algilt um öll lögin og í gamni gert. „Þetta er bara svona í þeim textum sem fjalla um einhver fjölskyldumynstur, þá höfum við reynt að breyta aðeins til og koma þessu hinsegin inn í en það er alls ekki algilt.“

Erla segir að þetta snúist ekki einungis um kynhneigð heldur hefur kórinn einnig leikið sér með úreltar staðalímyndir kynjanna sem birtast gjarnan í eldri jólalögum. Þegar kórinn syngur „It's Beginning to Look a Lot Like Christmas“ fá strákarnir stelpugjafirnar og stelpurnar strákagjafirnar svo dæmi séu tekin. „Það er mjög gaman að leika sér með þetta,“ segir Erla.

Sungið og dansað í kirkjunni

Æfingar fyrir tónleikana á morgun hafa verið stífar og sérstaklega síðustu daga að sögn Erlu enda þarf að æfa aðra hluti en bara raddböndin. Hefur kórinn komið saman tvisvar til þrisvar í viku síðan um miðjan nóvember fyrir þessa tónleika. „Það er rosalega mikil törn fyrir þessa tónleika því við erum að læra allt utanbókar ásamt því að læra smá dansatriði fyrir nokkur lögin. Þannig að það verður líf og fjör á tónleikunum.“

Fjáröflun fyrir evrópskt mót

Þegar tónleikunum lýkur bjóða kórfélagar hinsegin kórsins öllum í jólapartí á skemmtistaðnum Kíkí. Við fögnum alltaf eftir tónleika og við ætlum að stækka það partí í ár. Við verðum með hinsegin jólapartí á Kíkí um kvöldið, þar sem við verðum með fjáröflun og allir eru velkomnir en það fer í ferðasjóð fyrir hinsegin kóramót í München í vor.“ Um er að ræða evrópskt kórmót fyrir bæði kórfélaga og kórstjóra.

Á tónleikunum kemur fram heil hljómsveit með kórnum og er Helga Margrét Marzellíusardóttir kórstjóri. Undirleikari er Halldór Smárason. Hljómsveit jólatónleikanna samanstendur af Ásmundi Jóhannssyni á trommum, Ágústi Þór Benediktssyni á bassa og Steinþóri Guðjónssyni á gítar. Miðasala á tónleikana fer fram á tix.is en einnig verður hægt að nálgast miða við innganginn.