Þorlákshöfn Íbúum í sveitarfélaginu Ölfusi hefur fjölgað um 106 á árinu.
Þorlákshöfn Íbúum í sveitarfélaginu Ölfusi hefur fjölgað um 106 á árinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Sveitarfélög í örum vexti geta ekki leitað til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eftir fjárstyrkjum meðan á uppbyggingu vegna fólksfjölgunar stendur, sveitarfélög sem glíma við fólksfækkun fá aftur á móti framlög úr sjóðnum.

„Það eru ákveðnir vaxtarverkir sem fylgja örri íbúafjölgun en auðvitað er það fagnaðarefni fyrir hvert sveitarfélag að íbúum fjölgi og að fólk vilji búa þar. Svo nær þetta ákveðnu jafnvægi en meðan á svona hraðri uppbyggingu stendur geta sveitarfélög hreinlega þurft að fá heimild til að auka skuldir sínar umfram almennar fjármálareglur sem eru ekki hugsaðar gagnvart sveitarfélögum sem eru í svona miklum vexti. Til lengri tíma litið hægir á vextinum og jafnvægi kemst á. Þá aukast verulega tekjur sveitarfélaga sem njóta svona mikillar fólksfjölgunar. Nýir skattgreiðendur og þeir sem fyrir voru borga þá niður þær skuldir sem þarf að taka til að byggja upp þjónustu gagnvart þeim,“ segir Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra sveitarfélaga.

„Á sama tíma er vandi þeirra sveitarfélaga sem eru að missa fólk kannski meiri því þá eru færri og færri til að standa undir skuldbindingum sveitarfélagsins. Það eru svona sjónarmið sem vegast á þegar menn eru að deila út jöfnunarframlögum.“

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, gagnrýndi það í Morgunblaðinu í gær að sveitarfélög í örum vexti gætu ekki sótt um jöfnunarframlög líkt og þekkist í Noregi. Í Árborg hefur íbúum fjölgað um 6,2% á einu ári sem hefur kallað á mikla uppbyggingu. Ásta gagnrýndi einnig að ekki væri stuðningur við sveitarfélög með marga byggðarkjarna en þrír slíkir eru í Árborg; Selfoss, Stokkseyri og Eyrarbakki. „Það liggur fyrir skýrsla um endurskoðun á regluverki jöfnunarsjóðs sem er núna til umfjöllunar. Í tengslum við hana eru ræddar hugsanlegar breytingar á reglum jöfnunarsjóðs en það hafa engar ákvarðanir verið teknar. Að margra mati er full ástæða til að meta fjölkjarna sveitarfélög meira í framlögum jöfnunarsjóðs en nú er gert. Það næst ekki fram sama hagræðið í rekstri þeirra eins og í sveitarfélögum þar sem er kannski bara einn kjarni,“ segir Karl.

Engar lausar lóðir í Hveragerði

Það er ekki aðeins í Árborg sem íbúum hefur fjölgað skarpt á stuttum tíma því í nágrannasveitarfélögunum Hveragerði og Ölfusi hefur einnig orðið mikil fjölgun. Á þessu ári hefur íbúum í Hveragerði fjölgað um 3% og eru þeir núna 2554. Þeim hefur fjölgað að meðaltali um 60 á ári síðustu fjögur ár. Byggingaráform hafa verið samþykkt fyrir 102 íbúðir í sveitarfélaginu að undanförnu og er reiknað með að 77 til viðbótar verði samþykkt fyrir árslok, á svokölluðum Edensreit. Engar lausar lóðir eru undir íbúðarhús í Hveragerði núna en til stendur að fara í deiluskipulag á tveimur svæðum með um 500 íbúðum samtals.

Búist er við mikilli fjölgun í Hveragerði á næstu árum vegna fyrirhugaðrar fjölgunar á íbúðarhúsnæði. Nýverið var nýr leikskóli tekinn í notkun með sex deildum þar sem börn eru tekin inn frá tólf mánaða aldri. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár á að byggja við grunnskólann en þar er farið að þrengja að nemendum.

Fjölskyldufólk í Þorlákshöfn

Í Ölfusi hefur íbúum fjölgað um 5,3% eða um 106 á þessu ári og eru þeir nú 2111 talsins. Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri segir íbúafjölgunina hafa verið drjúga síðustu tvö ár, mest hafi hún verið í Þorlákshöfn en einnig töluverð í dreifbýlinu. „Íbúðarhúsnæði var til staðar en nú er farið að hægja aðeins á fjölguninni því það er farið að þrengjast um á húsnæðismarkaðnum. Það er verið að byggja hér og gera upp hús þannig að það er innistæða fyrir meiri fjölgun á næstunni,“ segir Gunnsteinn.

Búið er að úthluta upp undir 100 íbúðaeiningum í Þorlákshöfn og er unnið að deiliskipulagi fyrir á þriðja hundrað íbúðir í viðbót.

Grunn- og leikskólar hafa annað fjölguninni. „Við erum að byggja við leikskólann og tökum tvær nýjar deildir í notkun næsta vor. Grunnskólinn er það vel við vöxt að við getum enn bætt við töluverðum fjölda nemenda, þeir eru nú 230 en hafa mest verið um 300.“

Ungt fjölskyldufólk er í meirihluta þeirra sem flytjast í sveitarfélagið að sögn Gunnsteins. „Þetta er fólk allstaðar að af landinu sem er annað hvort að koma nær höfuðborgarsvæðinu eða að flytja þaðan í ódýrara húsnæði og að sækja í góða þjónustu.“