[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Eignarhaldsfélagið Klakki, eigandi 100% eignarhlutar í eignaleigufyrirtækinu Lykli, áður Lýsing, hefur undanfarna mánuði skoðað mögulega sölu félagsins.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Eignarhaldsfélagið Klakki, eigandi 100% eignarhlutar í eignaleigufyrirtækinu Lykli, áður Lýsing, hefur undanfarna mánuði skoðað mögulega sölu félagsins.

„Við höfum orðið þess áskynja að það er talsverður áhugi á félaginu, bæði innlendur og erlendur, og við vildum aðeins skoða áhuga erlendra aðila áður en lengra væri haldið,“ segir Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að Klakki hafi síðan í sumar verið að skoða þessa möguleika félagsins hvað sölu varðar. „Við höfum verið að skoða möguleika okkar með tilliti til þessarar hlutafjáreignar okkar í Lykli. Sú vinna hefur gengið vel og við erum farin að sjá skýrar hvernig þetta mun allt klárast.“

Hluthafafundur á mánudag

Klakki samdi í maímánuði síðastliðnum við fjármálafyrirtækið Beringer Finance um ráðgjöf við kostagreiningu til að meta mögulega valkosti vegna eignarhlutar Klakka í Lykli. Sú kostagreining verður kynnt á hluthafafundi Klakka á mánudaginn kemur.

Eins og fyrr segir er umtalsverður áhugi á Lykli, að sögn Magnúsar. „Enn sem komið er eru þetta bara yfirlýsingar um áhuga. Söluferli er ekki komið af stað og engar viðræður eru í gangi um kaup á félaginu.“

Magnús segist aðspurður telja að nú gæti verið góður tími til að selja. „Félagið er í mjög góðu standi. Það er búið að eyða allri lagalegri óvissu, sem var stærsta verkefnið síðustu ár, ásamt því að byggð hefur verið upp ný lánabók. Félagið býr yfir mjög hæfu starfsfólki og reksturinn gengur vel.“

Beringer Finance mun annast söluferlið þegar og ef því verður hleypt formlega af stað. Spurður um verðlagningu, segir Magnús að Klakki sé stoltur af eigninni og telji hana mikils virði. Yfirlýst markmið sé að hámarka virði eignarhlutarins.

Í eigu vogunarsjóðs

Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu er Klakki að 75% hluta í eigu vogunarsjóðsins Burlington Loan Management sem er írskt skúffufyrirtæki bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner í New York. Félagið er eitt af 480 fyrirtækjum sem eru skráð hjá aflandsþjónustu Deutsche International Finance á Írlandi, samkvæmt grein The Irish Times á síðasta ári. Burlington Loan Management hefur verið umsvifamikill fjárfestir á Íslandi frá hruni.

Á heimasíðu Klakka kemur fram að Klakki sé að stærstum hluta í eigu íslenskra og erlendra fjármálastofnana og lífeyrissjóða, og hluthafar séu 170 talsins.

Tveir hluthafar eigi meira en 10% í félaginu, Burlington Loan Management DAC og dótturfélag þess BLM fjárfestingar ehf.

Eignaleiga
» Burlington Loan Management hefur verið í fréttum hér á landi vegna umsvifa sinna í fjármálafyrirtækjum eftir hrun
» Handbært fé Lykils er 5,4 milljarðar króna.
» Hagnaður Lykils á fyrri helmingi ársins nam 1,5 milljörðum króna og var jákvæð tekjuskattsfærsla 991 milljón króna.
» Eignir Lykils nema 29 milljörðum króna og eigið fé tæpum 13 milljörðum.