Marías fæddist 17. júní 1930. Hann lést 23. nóvember 2017.

Útför Maríasar fór fram 4. desember 2017.

Kynni okkar af Maríasi hófust er við hófum nám við Samvinnuskólann þegar hann fluttist frá Reykjavík að Bifröst í Borgarfirði haustið 1955 og áttum þar nám saman í tvo vetur.

Við vorum þrjátíu og tvö sem settumst þar á skólabekk, ungt og hresst fólk úr hinum ýmsu byggðarlögum landsins, en aðeins einn af Vestfjörðum og það var hann Marías, aldursforseti hópsins, tuttugu og fimm ára en við hin 5-8 árum yngri.

Það kom fljótt í ljós hvað Marías var vel búinn undir námið, víðlesinn og fróður svo jafnvel kennarar urðu að gæta sín. Hann var mikill námsmaður og hafði lítið fyrir náminu þó það spannaði hin ýmsu svið, s.s. Sögu mannsandans svo eitthvað sé nefnt, ásamt ýmsu er sneri að viðskiptum.

Einn var sá liður í náminu eftir að skóladegi lauk en það var útivist sem tók einn og hálfan tíma. Þá var það til siðs að hausti og vori, eða þegar aðstæður leyfðu, að piltar fóru í knattspyrnu (en þá var kvennaknattspyrna ekki þekkt) og skiptu í lið. En það var vissara að hafa dómara og þar kom enginn annar til greina en Marías og við minnumst þess ekki að ágreiningur hafi sprottið vegna dóma hans.

Annað starf var Maríasi falið og kom það eiginlega af sjálfu sér.

Í Bifröst var komin verslun fyrir nemendur og starfsfólk skólans „Kaupfélag Samvinnuskólans“ þar varð Marías forstjóri.

Verslunin undir hans sterku stjórn skilaði arði sem nýttur var í ferðasjóð.

Ég undirritaður var svo heppinn að hitta Marías tvisvar á heimslóðum hans. Annað skiptið á Suðureyri, en í seinna skiptið er hann var kominn á Hjúkrunarheimilið á Ísafirði. Þetta voru góðar stundir hvor á sinn hátt.

Marías er sá tíundi er fellur frá úr hópnum er kom til náms á Bifröst 1955 og lauk þaðan prófi vorið 1957.

Við minnumst þessa fólks með þakklæti fyrir góð og gefandi kynni.

Við sendum aðstandendum Maríasar Þórðarsonar samúðarkveðjur um leið og þökkum fyrir kynni við góðan og gefandi mann.

Fyrir hönd árgangs 1957 á Bifröst,

Kristinn Guðnason.