Hneyksli Úr I, Tonya, Margot Robbie í hlutverki Tonyu Harding.
Hneyksli Úr I, Tonya, Margot Robbie í hlutverki Tonyu Harding.
I, Tonya Kvikmynd sem fjallar um sannsögulegan atburð, þegar ráðist var á bandarísku listskautadrottninguna Nancy Kerrigan árið 1994 og tilraun gerð til að fótbrjóta hana.
I, Tonya

Kvikmynd sem fjallar um sannsögulegan atburð, þegar ráðist var á bandarísku listskautadrottninguna Nancy Kerrigan árið 1994 og tilraun gerð til að fótbrjóta hana. Myndinni er lýst sem svartri kómedíu og segir af rannsókn lögreglu á árásinni sem leiddi í ljós að Shane Stant var ráðinn til verksins af lífverði og fyrrverandi eiginmanni helsta keppinautar Kerrigan, Tonyu Harding, sem titill kvikmyndarinnar vísar til. Átti árásin að tryggja að Kerrigan gæti ekki keppt um ólympíusæti í liði Bandaríkjanna fyrir Vetrarólympíuleikana í Lillehammer í Noregi fyrrnefnt ár. Harding neitaði allri sök og sagðist ekki hafa vitað af því að til stæði að ráðast á Kerrigan. Kerrigan jafnaði sig og í kjölfarið fylgdu kostulegar uppákomur.

Leikstjóri er Craig Gillespie og með aðalhlutverk fara Margot Robbie, Sebastian Stan og Allison Janney. Metacritic: 73/100

Bangsi og dóttir nornarinnar

Teiknimynd um sterkasta björn í heimi, byggð á sögum sænska rithöfundarins og teiknarans Rune Andréasson. Bangsi berst gegn ranglæti og dag einn finnur Krissi Kló gull í stíflu bjórsins. Til þess að brjóta upp stífluna fær Krissi Lovu, dóttur nornarinnar, til að galdra Bangsa í burtu og getur hann þá komist óhindraður að gullinu. Þá áætlun verður að koma í veg fyrir. Leikstjórar eru Christian Ryltenius og Maria Blom.

Jól og svartur sunnudagur

Í Bíó Paradís verður jólastemning um helgina, jólapartísýning á Gremlins og Home Alone 1 og 2 og Love Actually . Á sunnudaginn sýnir klúbburinn Svartir sunnudagar svo Blue Velvet eftir David Lynch.