Bergljót Pálsdóttir fæddist í Miðgarði, Vestmannaeyjum, 19. janúar 1933. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 28. nóvember 2017.

Foreldrar hennar voru Matthildur Ísleifsdóttir frá Kirkjubæ, f. 7.5. 1900, d. 29.8. 1945, og Páll Oddgeirsson, f. 5. 6. 1888, d. 24.6. 1971. Systkini Bergljótar eru Richard, f. 1920, d. 1994, Ísleifur, f. 1922, d. 1996, Oddgeir, f. 1923, og Anna Regína, f. 1928.

Bergljót giftist árið 1953 Tryggva Georgssyni frá Akureyri, f. 17.2. 1932, d. 2.11. 2010, foreldrar hans voru Bergþóra Guðmundsdóttir, f. 17.9. 1907, d. 27.7. 1981, og Georg Karlsson, f. 26.5. 1909, d. 24.11. 1981. Börn Bergljótar og Tryggva eru: 1) Páll, f. 29.7. 1953, kvæntur Herdísi Zophanísdóttur. Þeirra börn eru: Orri Gautur, Dís, Tryggvi Zophanías og Björn Páll. 2) Georg Ólafur, f. 19.11. 1955, kvæntur Unni Pétursdóttur. Þeirra börn eru: Snævarr Örn, Bergljót Mist og Oddgeir Páll. 3) Anna Margrét, f. 30.7. 1970, gift Valdemar Valdemarssyni. Þeirra börn eru: Haukur Ingi, Helga Kristín og Matthildur Una. Langömmubörn eru fimm, Júníus, Silja, Dísa, Kata og Maja.

Bergljót missti móður sína ung að aldri og fluttist því með systur sinni 1950, þá 17 ára, til Reykjavíkur og í framhaldi með henni árið eftir til Akureyrar hvar Bergljót kynntist mannsefni sínu, Tryggva Georgssyni. Mestan hluta starfsævinnar helgaði hún verslunarrekstri og var vel metin á þeim vettvangi. Bústýra var hún afbragðsgóð og helgaði fjölskyldunni alla sína tilveru og var góður vinur barna sinna sem og þeirra vina.

Útför Bergljótar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 8. desember 2017, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Móðursystir okkar, Bergljót Pálsdóttir, alltaf kölluð Beggó, er látin. Hún var yngst fimm barna Páls Oddgeirssonar og Matthildar Ísleifsdóttur frá Miðgarði. Hún er sú þriðja sem er horfin á braut, eftir eru Oddgeir og Anna Regína móðir okkar. Bræður hennar, Richard og Ísleifur, létust fyrir allmörgum árum.

Þær systur sem eru frá Vestmannaeyjum kynntust báðar mönnum frá Akureyri og þar voru þeirra fyrsta heimili sem giftar konur, elstu börn þeirra beggja voru fædd þar. Eiginmaður Beggóar var Tryggvi Georgsson, múrarameistari, mikið ljúfmenni.

Hann missti heilsuna á miðjum aldri og lést fyrir nokkrum árum. Leið foreldra okkar systkina lá til Reykjavíkur, en Beggó bjó á Akureyri ásamt manni sínum, Tryggva, til dauðadags og þar ólu þau upp börnin sín þrjú.

Þrátt fyrir að foreldrar okkar flyttu til Reykjavíkur var samband þeirra systra alltaf náið. Á hverju sumri voru þær systur saman, annaðhvort í Reykjavík eða á Akureyri, með börnin sín.

Því var mikill samgangur á milli heimilanna. Þær gerðu ýmislegt saman eins og að heimsækja heimahagana í Vestmannaeyjum.

Við systkinin áttum alltaf athvarf hjá þeim Beggó og Tryggva. Þegar við urðum eldri og vorum búin að koma okkur upp fjölskyldum bættust börnin okkar við hópinn í opnu húsi þeirra hjóna í Hamragerðinu. Þar var okkur öllum tekið opnum örmum. Börnin okkar minnast þeirra hjóna með hlýhug og þakklæti.

Eftir því sem árin liðu þá var mest samband þeirra systra í síma og áttu þær mörg ánægjuleg símtöl við að rifja upp gamla tíma, fylgjast með hvað væri að gerast hvor hjá annarri og ekki má gleyma sameiginlegum áhuga þeirra á kóngafjölskyldunum í kringum okkur. Síðasta samtal þeirra systra var þegar Beggó hringdi í mömmu daginn áður en hún lést snemma morguns og sagði „Anna Gína, veistu að prins Harry er búinn að trúlofa sig?“

Að leiðarlokum þökkum við systkinin og fjölskyldur okkar samvistina og vottum börnum hennar, mökum þeirra og afkomendum samúðar.

Matthildur, Páll, Björn, Ingi Þór og Hermann, börn Önnu Regínu og Hermanns Þorbjarnarsonar.

Sextán ára stelpa var send með skipi og eina ferðatösku til fundar við framtíðina.

Það var haustið 1969.

Í fjögurra vetra fjarveru frá foreldrum var ómetanlegt að eignast athvarf á heimili vinar og foreldraumhyggju sem ég fann í þeim hjónum Bergljótu og Tryggva.

Ég slæddist inn í hóp jafnaldra minna sem voru búsett á Akureyri og saman eyddum við næstu fjórum vetrum í M.A.

Einn þeirra var sonur Beggó vinkonu minnar, Páll Tryggvason.

Einnig kom annar örlagavaldur til sögunnar, Sigurður Demetz Fransson, sem sennilega hefur átt sinn stóra þátt í því ævintýri að kynnast vinum sem enn halda hópinn.

Kórfélagar flæktust víða á þessum tíma og þannig byrjaði sá vinskapur sem enn heldur svo fast.

Foreldrar félaganna voru elskulegir aðkomustelpunni og alls staðar var mér tekið einsog fastagesti til fjölda ára.

Við vöndum m.a. komur okkar í Hamragerðið og það virtist ekki skipta þau hjón neinu máli hversu ódæl við vorum, svöng eða þurfandi fyrir spjall og litlu máli skipti hvað tímanum leið því ávallt tók útbreiddur faðmur þeirra á móti okkur.

Beggó mín var mér sem móðir þegar á þurfti að halda.

Fjarlægðirnar voru meiri í þá daga og ekki hlaupið að því að skjótast heim ef eitthvað bjátaði á og símtal kostaði sitt.

Það voru ófáar stundirnar sem við gátuð malað og á stundum jaðraði við „trúnó“ þegar við náðum flugi í samræðunum.

Henni var ekkert heilagt og var einhvern veginn alltaf til staðar án þess að vera nokkurn tímann ágeng eða forvitin. Hún var mér vinkona sem ég gat treyst og að auki var ávallt hlý og móðurleg umhyggja hennar til staðar.

En skammt undan var húmorinn sem hún hafði fyrir lífinu og því sem við gátum masað um.

Svo sveif yfir og allt um kring ilmur af mat og bakkelsi og mikilli væntumþykju..

Síðastliðin 22 ár hefur sá vinahópur sem þarna varð til hist hvert haust.

Einn slíkur vinafagnaður af mörgum var á Akureyri hjá syni og tengdadóttur þeirra Beggó og Tryggva.

Það er mér ógleymanlegt þegar þau hjónin mættu prúðbúin til að gleðjast með okkur.

Mér hefur sjaldan eða aldrei þótt eins vænt um nokkuð einsog þetta augnablik.

Þar var ekkert gefið eftir. Eldmóðurinn sem einkenndi þau var enn til staðar og væntumþykjan líka.

Þakka þér, heiðurskona, fyrir ómetanlega hjartahlýju og vináttu.

Fjölskyldunni allri sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Filippía Þóra

Guðbrandsdóttir.

Bergljót Pálsdóttir föðursystir mín var gimsteinn í mannlífinu eins og sást langar leiðir. Hún ólst upp við ástríki foreldra sinna Matthildar Ísleifsdóttur og Páls Oddgeirssonar í Miðgarði í Vestmannaeyjum í húsi merkiskonunnar móðurömmu sinnar Sigurlaugar Guðmundsdóttur.

Að Beggó stóðu sterkir stofnar. Móðuramma hennar Sigurlaug Guðmundsdóttir var dótturdóttir síra Páls Pálssonar prófasts í Hörgsdal. Hann var annar tveggja fulltrúa Vestur-Skaftfellinga á Þjóðfundinum 1851, hinn var Jón Guðmundsson ritstjóri, hægri hönd Jóns Sigurðssonar forseta. Afi hennar, Ísleifur Guðnason bóndi á Kirkjubæ, bar nafn sem gengið hefur í ættir fram svo langt sem kirkjubækur ná og síðast bar faðir minn. Páll Oddgeirsson var útgerðarmaður og kaupmaður í Vestmannaeyjum. Hans verður minnst í Eyjum fyrir forgöngu um að reisa minnisvarða framan við Landakirkju um drukknaða sjómenn og þá sem hrapað hafa í björgum.

Síra Oddgeir afi Beggóar og þeirra systkina var hinn síðasti gömlu Eyjaprestanna, var prestur í Landakirkju í aldarþriðjung þannig að engin þótti samkoma í Vestmannaeyjum nema hann héldi ræðu. Hans kona var Anna Guðmundsdóttir prófasts í Arnarbæli Einarssonar.

Séra Guðmundur var bróðir Ingibjargar konu Jóns forseta og bræðrungur við Jón. Faðir séra Oddgeirs var Þórður Guðmundsson, sýslumaður, dómari við Landsyfirréttinn, konungkjörinn alþingismaður og kammerráð að nafnbót, nafnkunnur öndvegismaður. Móðir séra Oddgeirs var Jóhanna Andrea Knudsen, ein hinna glæsilegu systra í Landakoti sem voru dætur Lárusar Mikaels Knudsens, ættföður Knudsensættar, en eldri systir hennar Kristjana Dóróthea var að sögn Páls Valssonar bókmenntafræðings ástin í lífi Jónasar Hallgrímssonar.

Hlutskipti Beggóar var að búa norður í landi á Akureyri, en fagurt heimili hennar bar öll merki þess að húsfreyjan væri Eyjakona.

Hún var gæfusöm í einkalífi, átti fyrirmyndareiginmann í Tryggva Georgssyni múrarameistara og fagurt heimili í Hamragerði á Akureyri. Börn þeirra, Páll barnageðlæknir, Georg flugumferðarstjóri og Anna Margrét skurðstofuhjúkrunarfræðingur bera með sér bestu einkenni ættstofnanna sem að þeim standa. Beggó ræktaði samband sitt við börn, tengdabörn og barnabörn og naut samvista við þau og var þeim góð móðir, tengdamóðir og amma.

Beggó hafði hjarta úr gulli. Hún var mér alltaf góð og við áttum dýrmætt trúnaðarsamband. Ég á henni mikið að þakka, við ræddum oftlega málefni fjölskyldunnar og Oddgeirsættarinnar, sem við köllum svo afkomendur síra Oddgeirs.

Hún á vísast góða heimkomu til ástvina sinna, eiginmanns, foreldra og bræðranna tveggja sem gengin eru á undan henni.

Ég kveð Beggó föðursystur mína með þökkum fyrir velvild hennar og góðsemi og færi fyrir hönd okkar bræðra, Jóhanns og Arnar, fjölskyldu hennar og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Bergljótar Pálsdóttur.

Ólafur Ísleifsson.

Ég þekkti hana strax úr hópnum á Akureyrarflugvelli. Við hjónaleysin vorum að lenda á Akureyri í þeim tilgangi að kynna mig fyrir tilvonandi tengdafjölskyldu og ég áttaði mig skyndilega á því að ég vissi ekkert hvernig tilvonandi tengdamamma liti út. En það fór ekkert á milli mála. Þessi djúpstæðu augu voru nákvæmlega eins og á manninum sem stóð mér við hlið.

Þétt faðmlag, ég var boðin hjartanlega velkomin. Þessi hlýi faðmur var einstakur og þeir voru margir sem nutu hans.

Amma Beggó, eins og hún var ávallt kölluð hin síðari ár, hafði einstakan faðm, einstaklega stórt hjarta og alveg sérstaklega góða öxl sem margir hölluðu sér að, hvort sem þeir tilheyrðu fjölskyldunni eða ekki.

Amma Beggó átti nægan kærleika fyrir alla. Hún upplifði sáran móðurmissi við tólf ára aldur sem ég vil meina að hafi markað allt hennar líf og gert það að verkum að hún vildi tryggja að enginn myndi upplifa sig sem einan og án kærleiks.

Það var ungri stúlku upplifun að koma inn á heimilið til Beggóar og Tryggva. Heimili úti á landi þar sem enn tíðkaðist að eiginmaðurinn kæmi heim í hádegismat, mikill og afar góður matur og endalaust verið að baka svo hægt væri að gefa með kaffinu almennilegt meðlæti.

Ég velti því stundum fyrir mér, hvernig er hægt að verja svona miklum tíma í eldhúsi? Uppábúin rúm við hverja heimsókn, straujuð sængurver og handklæði og síðar kærkomin barnapössun í boði þegar mætt var til Akureyrar.

Barnabörnin dýrkuðu hana, enda fengu þau ýmislegt sem alla jafna var ekki í boði á eigin heimilum, þau fengu að kúra í afa og ömmu bóli og horfa á sjónvarp og endalaust gott að borða.

Þegar ég kynntist Beggó var sigið á seinni hluta starfsævi hennar utan heimilis, en hún starfaði við verslunarstörf áratugum saman.

Það segir ýmislegt um hæfni hennar og atgervi að á einungis einu ári vann hún sig frá almennum störfum upp í að taka við stöðu verslunarstjóra í nýrri verslun Hagkaupa á Akureyri og rak hún verslunina með sóma í fjöldamörg ár. Síðar starfaði hún við bókhald verslunarinnar allt til starfsloka árið 1999.

Hin síðari ár ágerðist heilsubrestur og kvaddi hún þegar dagurinn er að renna inn í sitt dimmasta skeið.

Hún verður lögð til hvílu við hlið Tryggva síns, sem hún ætíð saknaði.

Unnur Pétursdóttir.