Rúna Bína fæddist í Reykjavík 10. desember 1938. Hún lést á líknardeild Landspítalans 29. nóvember 2017.

Foreldrar hennar voru hjónin Unnur Pálsdóttir, f. 23. maí 1913, d. 1. janúar 2011, og Sigtryggur Klemenzson, f. 20. ágúst 1911, d. 18 febrúar 1971, ráðuneytisstjóri og síðast seðlabankastjóri. Hún var elst sex systra. Hinar eru: Anna Ingibjörg, gift Jóni Ingvarssyni. Unnur, gift Hilmari T. Björnssyni. Jakobína, gift Hirti Hjartar. Jóhanna, gift Guðjóni Steingrímssyni. Sigríður, gift Bjarna Þjóðleifssyni.

Eiginmaður Rúnu Bínu var Brynjúlfur Thorvaldsson, fyrrverandi flugstjóri, f. 3. júní 1925, d. 9. júlí 2016.

Rúna Bína ólst upp í Reykjavík. Gekk þar í barnaskóla og síðan Kvennaskólann. Á sumrin var hún í sveit hjá frændfólki í Borgarfirði. Hún fór í húsmæðraskóla í Danmörku og dvaldi eitt ár í London við enskunám. Eftir það vann hún skrifstofustörf, m.a. á Innflutningsskrifstofunni, áður en hún varð flugfreyja og síðar yfirflugfreyja hjá Flugfélagi Íslands, síðar Flugleiðum. Síðustu starfsárin vann hún sem móttökuritari á Landspítalanum.

Útför Rúnu Bínu fer fram frá Háteigskirkju í dag, 8. desember 2017, og hefst athöfnin kl. 15.

Það er komið að kveðjustund. Rúna Bína, elsta systir mín, lést á líknardeildinni á afmælisdegi næstelstu systur okkar. Þar hafði hún notið góðrar umönnunar síðustu vikurnar eins og nokkrum sinnum áður. Eflaust hafði hún vonast eftir að komast heim einu sinni enn en sjúkdómurinn hafði tekið völdin.

Rúna Bína var fyrsta barn foreldra okkar og fyrsta barnabarn afa og ömmu í báðar ættir. Hún var skírð í höfuðið á báðum ömmunum, Guðrúnu og Jakobínu. Ef til vill gerðu foreldrar okkar ekki ráð fyrir að eignast fleiri dætur en þar skjátlaðist þeim því fimm dætur fylgdu í kjölfarið á 15 árum.

Þegar Rúna Bína fæddist bjuggu foreldrar okkar á Reynimel og Anna Ingibjörg bættist við áður en fjölskyldan flutti á Leifsgötu 18, sem smám saman varð eins konar stórfjölskylduhús. Foreldrar pabba fluttu frá Húsavík og bjuggu hjá fjölskyldunni í nokkur ár og á efri hæðina flutti Sigga föðursystir okkar með Halldóri manni sínum. Hver stelpan á fætur annarri bættist í hópinn og þegar allar sex voru fæddar var amma látin og afi lést skömmu seinna. Eftir því sem stelpurnar stækkuðu og eltust þurftu þær meira pláss og dreifðust víða um húsið í sátt og samlyndi við Siggu og Halldór. Á sumrin voru þær sendar í sveit og fór Rúna Bína til ættingja í Nesi í Reykholtsdal og að Oddsstöðum í Lundareykjadal. Það var ávallt gestkvæmt á Leifsgötunni, margt skrafað um menn og málefni og oft hafði hún fréttir að færa úr ferðum sínum sem flugfreyja.

Þegar ég fer að muna eftir mér fyrir alvöru var Rúna Bína farin að vinna fyrir sér og man ég eftir að hafa trítlað yfir Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíg til að heimsækja hana í vinnuna á Innflutningsskrifstofunni. Og ekki fór maður tómhentur heim því alltaf fékk maður aur í lófann fyrir nammi. Þetta endurgalt ég seinna með sendiferðum út í búð eftir einhverju sem hana vanhagaði um. Þegar hún gerðist flugfreyja var hún óþreytandi að kaupa föt á okkur yngri systurnar í ferðum sínum og matvæli sem okkur þóttu framandi. Ég var stolt og hreykin af þessari rausnarlegu og bóngóðu stóru systur. Þegar ég flutti til Svíþjóðar fannst henni sig ekki muna um að koma með rjúpur, hangikjöt og jólapakka til fjölskyldunnar í vinnuferðum sínum. Á þessum árum var hún lífsglöð og félagslynd ung kona en lífið átti oft eftir að vera henni þungur róður. Síðasta hluta lífsskeiðs hennar kom í ljós hve mörgum þótti undurvænt um hana og fékk hún margar góðar heimsóknir í Hvassaleitið og síðan á sjúkrabeðinn.

Hvíl í friði, elsku systir.

Jóhanna Sigtryggsdóttir.

Þegar við kveðjum Rúnu Bínu móðursystur mína leita á mig margar minningar um góða konu. Þegar ég var lítil starfaði hún sem flugfreyja og mér er það minnisstætt hversu flott mér fannst hún alltaf vera. Stundum þegar ég var í heimsókn hjá ömmu og afa á Leifsgötunni fékk ég að fara niður til hennar, en þar átti hún alltaf útlenskt gotterí. Mér fannst mikill töfraljómi yfir henni enda var hún stórglæsileg. Oft leyfði hún mér að skreyta mig með perlufestunum sínum og máta flugfreyjuhattinn, sem mér þótti afskaplega spennandi.

Rúna Bína eignaðist ekki börn en fylgdist alltaf vel með okkur systrabörnum sínum og var áhugasöm um það sem við vorum að gera. Þegar ég kom í heimsóknir til Íslands lék henni forvitni á að vita um líf mitt í útlöndum. Eftir að hún hætti í fluginu beit hún það í sig að vilja ekki koma framar til Bandaríkjanna og það var sama hvað ég spurði hana oft hvort hún vildi ekki heimsækja mig, hún gaf sig aldrei. Hún hafði oft sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og gat verið þrjósk þegar sá gállinn var á henni.

Á erfiðum tímum naut Rúna Bína stuðnings fjölskyldu og góðra vina. Hún var elst sex systra, sem mikið og sterkt samband er á milli, og það kom svo sannarlega í ljós í veikindum hennar hversu vel þær og fjölskyldur þeirra studdu við hana. Það er skarð fyrir skildi í systrahópnum en minningin um Rúnu Bínu lifir með okkur.

Áslaug Jónsdóttir.

Í dag verður lögð til hinstu hvíldar Rúna Bína móðursystir mín, en hún lést 29. nóvember eftir baráttu við illvígan sjúkdóm.

Fyrstu minningar mínar af Rúnu Bínu eru af Leifsgötunni á heimili ömmu og afa þar sem hún bjó í íbúð í kjallaranum. Á þeim árum starfaði hún sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands og þótti ungum frænkum hennar mjög spennandi að sjá hana í flugfreyjubúningnum á leið í eða úr vinnu. Það stafaði ákveðinn ævintýraljómi af hávöxnu glæsilegu frænku okkar sem flaug á vit ævintýranna til framandi landa.

Á jólunum bauð Rúna Bína ávallt frænkum sínum með sér á jólaball hjá Flugfélaginu og eru þær minningar hluti af æskuminningum jólanna, enda vorum við leystar út með stútfullum sokk af alls kyns sælgæti.

Rúna Bína kynntist eiginmanni sínum Brynjólfi Thorvaldssyni, eða Binna, í gegnum störf sín hjá Flugfélaginu, en hann var einn af flugmönnum félagsins. Þeirra fyrsta sameiginlega heimili var í Bogahlíðinni og man ég hversu spennandi mér þótti að koma til þeirra. Þau áttu marga fallega hluti og man ég sérstaklega eftir söðli. Slíkan hlut hafði ég aldrei áður séð og skildi ekki hvernig nokkur gæti setið á hestbaki í slíkri græju.

Seinna þegar ég kynntist flugheiminum í gegnum störf eiginmanns míns varð ég alltaf glöð og stolt þegar ég hitti fólk í áhöfnum Flugleiða, nú Icelandair, sem þekkti Rúnu Bínu frænku mína, enda fór gott orð af störfum hennar sem flugfreyja. Þá var líka gaman að koma á Flugsafn Íslands á Akureyri og rekast þar á mynd af Rúnu Bínu, glæsilegri að vanda.

Rúna Bína greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum en náði að halda því í skefjum um árabil. Það dró hins vegar úr heilsu hennar síðasta árið og eftir að Binni lést í júlí 2016 og Svala vinkona hennar í nóvember sama ár var eins og lífskraftur Rúnu hefði dvínað.

Rúna Bína var vinamörg og átti margar góðar vinkonur sem hún hafði kynnst ýmist í Kvennaskólanum, hjá Flugfélaginu eða í gegnum störf sín á Landspítalanum. Það sýndi sig vel á síðustu misserunum þegar heilsu hennar hrakaði hversu góðar og traustar vinkonur hún átti sem heimsóttu hana reglulega og sinntu henni vel.

Nú þegar komið er að leiðarlokum er ég þakklát fyrir dýrmætar minningar um Rúnu Bínu. Blessuð sé minning hennar.

Unnur Ingibjörg.

Mig langar að minnast mágkonu minnar Rúnu Bínu nokkrum orðum. Það var fyrir rúmum fimmtíu árum að ég fór að venja komur mínar á Leifsgötu 18, en þar bjó í foreldrahúsum konuefni mitt, Anna, ásamt fimm systrum sínum. Þeirra elst var Rúna Bína og var hún þá flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands. Hún var einstaklega geðug og glæsileg stúlka og bar af sér góðan þokka, alltaf ljúf og glaðvær. Ég held að flugfreyjustarfið hafi átt vel við hana og framkoma hennar og hlýtt viðmót við farþega var með þeim hætti að eftir var tekið. Margar góðar minningar koma upp í hugann frá þessum árum. Ég minnist þess sérstaklega hversu greiðvikin og gjafmild Rúna Bína var, og á ferðum sínum til útlanda taldi hún aldrei eftir sér að gera hinum og þessum greiða og kaupa eitthvað sem e.t.v. fékkst ekki hér á landi eða var ódýrara í útlandinu.

Í fluginu kynntist hún eiginmanni sínum, Brynjúlfi Thorvaldssyni, en hann féll frá sumarið 2016.

Skyndilega dró ský fyrir sólu í lífi Rúnu Bínu fyrir nokkrum misserum þegar hún greindist með illkynja sjúkdóm. Í veikindum sínum sýndi hún mikið æðruleysi en svo fór að á síðastliðnu sumri hætti hún í lyfjameðferð og ágerðist þá sjúkdómurinn sem dró hana til dauða. Síðustu vikurnar lá hún á líknardeild Landspítalans og naut einstaklega góðrar aðhlynningar þar.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir að hafa kynnst Rúnu Bínu og að hafa notið vináttu hennar.

Blessuð sé minning Rúnu Bínu Sigtryggsdóttur.

Jón Ingvarsson.

Ég kynntist Rúnu Bínu fyrir tæplega fimmtíu árum þegar ég kom inn í fjölskylduna á Leifsgötu 18 og hún varð síðar mágkona mín. Þá var þessi glæsilega kona um þrítugt, elst sex systra og mikil hjálparhella foreldra sinna á þeim tíma. Rúna Bína var flugfreyja í um tuttugu og fimm ár. Hún var um tíma yfirflugfreyja Flugfélags Íslands þegar þotuöldin hófst hér á Íslandi. Ég var fljótt var við að hún þekkti óvenju margt fólk. Þeir sem ferðuðust með Rúnu Bínu nutu þjónustulundar hennar og skemmtilegra samvista þó að aðeins hafi verið um stutta flugferð að ræða. Hún lagði mikinn metnað í starf sitt og var leiðtogi í flugfreyjustarfinu. Á æskuheimili hennar var samferðarfólk oft til umræðu og þá kom sér oft vel að geta spurt Rúnu Bínu og tengt það fjölskyldum eða vinum. Rúna Bína var mjög mannglögg og minnug og var fljót að tengja saman persónur og tengsl.

Við Jagga nutum þess að ferðast með henni bæði innanlands sem erlendis. Sérstaklega var gaman að ferðast með henni á Íslandi, þar sem hún þekkti bæði bæi og ábúendur nánast hvar sem var á landinu. Hún þekkti líka vel til í flestum stórborgum Evrópu og gat alltaf miðlað af þekkingu sinni og reynslu.

Seinni hluta starfsferils síns vann Rúna Bína sem ritari á Landspítalanum. Aftur þar nutu bæði sjúklingar og samstarfsmenn hennar góða viðmóts og mannlegrar þekkingar.

Rúna Bína glímdi við krabbameinssjúkdóm síðustu ár ævi sinnar. Hún naut umönnunar systra sinna og fjölmargra vina síðustu vikunnar á líknardeild Landspítalans.

Ég votta aðstandendum Rúnu Bínu samúð mína.

Hjörtur Hjartar.

Sláttumaðurinn slyngi hefur skárað stórum í raðir þeirra flugfreyja sem hófu störf hjá Flugfélagi Íslands um miðja síðustu öld. Í dag kveðjum við hinstu kveðju Rúnu Bínu Sigtryggsdóttur. Hún hóf störf sem flugfreyja 1. júní 1960 hjá Flugfélagi Íslands. Á þessum árum var flugfloti félagsins afar fjölbreyttur, allt frá Katalínuflugbátum til Viscount-flugvéla sem þá voru nýkomnar í flugflota félagsins. Rúna Bína starfaði í rúma tvo áratugi hjá Flugfélagi Íslands og síðar Flugleiðum. Hún var afar farsæl í starfi og naut mikils trausts, enda voru henni falin ábyrgðarstörf mjög snemma á ferlinum sem hún leysti vel af hendi. Það voru aðrar aðstæður í upphafi millilandaflugs á Íslandi áður en Þotuöldin gekk í garð, flugtíminn lengri, t.d. níu til 10 klukkustundir til Kaupmannahafnar og ekki flogið í mikilli hæð. Þetta gerði flugfreyjustarfið mjög krefjandi. Eiginmaður Rúnu Bínu var Brynjúlfur Thorvaldsson flugstjóri, en hann lést á síðasta ári, blessuð sé minning hans. Síðustu árin voru Rúnu Bínu erfið, hún greindist með illvígan sjúkdóm sem engu eirir. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við allt það fólk sem við erfiðar aðstæður ruddi brautina til þess mikla ævintýris sem flugið varð og gerði okkur að stoltri og sjálfstæðri þjóð. Rúna Bína tók virkan þátt í þessu ævintýri.

Við Aðalheiður vottum ástvinum hennar okkar dýpstu samúð. Við drúpum höfði í minningu Rúnu Bínu Sigtryggsdóttur, veri hún að eilífu Guði falin.

Aðalsteinn Dalmann

Októsson.

Það var gaman að vera flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands upp úr 1960. Gljáandi flugvélar, flugmennirnir ótrúlega myndarlegir í einkennisbúningunum, sprellfjörugir strákar í afgreiðslunni og á hlaðinu og starfið skemmtilegt. Það var gaman að fljúga innanlands, bjóða brjóstsykur, halda í höndina á hræddum farþegum og taka við ælupokum. Það var m.a. flogið til Kópaskers, Þórshafnar, Fagurhólsmýrar og Hafnar, staða sem maður hafði ekki komið til en var áhugavert að kynnast, bæði staðháttum og fólkinu sem bjó þar. Og svo var utanlandsflugið, það var náttúrulega algjört ævintýri að komast til útlanda. Grænlandsflugið og Færeyjaflugið var í sérflokki, ógleymanlegt að taka þátt í því.

Á þessum árum og í þessu umhverfi kynntist ég Rúnu Bínu Sigtryggsdóttur. Há og grönn með hrafnsvart hár og aðlaðandi framkomu. Hún var flugfreyja af guðs náð, ætíð óaðfinnanleg, skórnir alltaf burstaðir og blússan vel straujuð, hvít slæðan bundin yfir flugfreyjuhattinn, allt eins og átti að vera. En það var manneskjan sjálf sem skipti máli. Rúna Bína kom þannig fram að fólki leið vel í návist hennar, hvort sem það voru háir eða lágir. Hún hafði áhuga á fólki og kunni að hlusta. Hún var einnig forkur dugleg og úrræðagóð. Við Rúna flugum oft saman og urðum trúnaðarvinkonur. Vinátta okkar spannar hátt í sex áratugi. Lífið leiddi okkur samt á ólíkar brautir, Rúna Bína gerði flugfreyjustarfið að ævistarfi og var í miklum metum sem slík, en ég hætti í fluginu. Á tímabili fækkaði samverustundum en við fylgdumst alltaf með hvor annarri og þegar við hittumst var allt eins og í gamla daga. Rúna Bína var alltaf jafn traust og örlát á tíma sinn.

Á kennaraskólaárum mínum kom ég oft á æskuheimili Rúnu Bínu á Leifsgötunni. Svo átti að heita að ég aðstoðaði eina systur Rúnu við námið. En þarna var sérlega gott að koma og menningarheimili Unnar og Sigtryggs og dætranna sex er mér minnisstætt, vegna hlýrrar gestrisni og uppbyggilegra samræðna.

Rúna Bína varð ástfangin af Brynjúlfi Thorvaldssyni og hann af henni, þau voru fyrst lengi í sambúð og síðan í hjónabandi. Brynjúlfur var hestamaður og ferðagarpur um gamlar slóðir og sagði vel frá ævintýrum sínum. Við Tómas áttum ótal ánægjustundir á höfðinglegu heimili þeirra sem við þökkum.

Elsku Rúna, kæra vinkona, bestu þakkir fyrir langa samveru og vináttu.

Elsa Sigríður Jónsdóttir.