Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Malín Brand sæti 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir fjárkúgun og tilraun til fjárkúgunar.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Malín Brand sæti 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir fjárkúgun og tilraun til fjárkúgunar.

Malín var ákærð á síðasta ári ásamt systur sinni, Hlín Einarsdóttur, fyrir að kúga 700 þúsund krónur út úr karlmanni sem þær hótuðu að kæra fyrir nauðgun. Þær voru einnig ákærðar fyrir tilraun til fjárkúgunar gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra. Héraðsdómur dæmdi systurnar báðar til fangelsisvistar og til að greiða manninum, sem þær kúguðu fé út úr, 1,3 milljónir króna í skaðabætur.

Hlín áfrýjaði ekki dómi héraðsdóms til Hæstaréttar en það gerði Malín. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í gær og sagði í dómi sínum, að ákærða ætti sér engar málsbætur en vísaði jafnframt til þess að hún hefði ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi.

Malín var að auki dæmd til að greiða 200 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og rúma 1,1 milljón í áfrýjunarkostnað.