Snapp Hrafnista í Hafnarfirði.
Snapp Hrafnista í Hafnarfirði.
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnista í Hafnarfirði, er nú farið að nota vinsæla smáforritið Snapchat. „Við byrjuðum í dag, ægilega gaman hjá okkur!

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnista í Hafnarfirði, er nú farið að nota vinsæla smáforritið Snapchat.

„Við byrjuðum í dag, ægilega gaman hjá okkur! Við erum búin að gera snapp og setja inn í „Story“,“ segir Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði, í samtali við Morgunblaðið í vikunni.

Áhugasamir geta sótt um að gerast áskrifendur að snappinu hjá Hrafnistu á Snapchat sem notast við nafnið Hrafnista DAS .

Dugleg að taka upp nýjungar

„Við keyptum sérstakan síma í þetta og látum hann bara ganga á milli deilda og starfsmannahópa, þannig að hver hópur er með snappið í viku. Við erum með regluramma upp á að virða einkalíf og hafa samþykki fólks. En hugmyndin er að sýna og kynna starfið og viðburði og það sem er í gangi hverju sinni. Okkur langar svolítið til að fólk fái innsýn í, hvað er verið að gera á hjúkrunarheimilum. Margir hafa e.t.v. ekki alveg rétta mynd af því. Við erum með heimasíðu og Facebook-síðu, en við viljum vita hvað virkar hverju sinni. Við erum dugleg að taka inn nýjungar,“ segir Árdís Hulda.

Hún segir marga vistmenn vera með snjallsíma og tölvur og að einn og einn vistmaður noti Snapchat. Hún bætir við að tólf hundruð starfsmenn séu hjá Hrafnistu á sex stöðum og til stendur að síminn flakki á milli heimilanna og þau skiptist á að vera með snappið, m.a. til að fá innsýn í starf og hugmyndir hvert hjá öðru.

„Þetta fer vel af stað og viðbrögðin hafa verið góð fram að þessu.“