Fannborg Gæti orðið lyftistöng.
Fannborg Gæti orðið lyftistöng.
Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær að leggja til við bæjarstjórn að gengið yrði til samninga við Stólpa ehf. vegna sölu á fasteignunum að Fannborg 2,4, og 6 sem hýst hafa skrifstofur bæjarins.

Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær að leggja til við bæjarstjórn að gengið yrði til samninga við Stólpa ehf. vegna sölu á fasteignunum að Fannborg 2,4, og 6 sem hýst hafa skrifstofur bæjarins. „Húseignir bæjarins að Fannborg 2, 4 og 6 voru auglýstar til sölu í ágústlok og var gefinn frestur til að skila tilboðum til 12. október. Fjögur tilboð bárust. Tilboð Stólpa ehf. hljóðar upp á einn milljarð og 50 milljónir,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ.

„Tvö tilboð voru best, frá tveimur sterkum aðilum vönum þróunarverkefnum og við berum fullt traust til þeirra beggja. Eftir að bæði tilboðin voru núvirt þá kom tilboð Stólpa best út,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. „Nýja hús bæjarskrifstofanna er að Digranesvegi 1, en það kostar 580 milljónir og verið er að horfa til þess að byggja við það hús á lóðinni við hliðina,“ segir Ármann, hæstánægður þar sem útlit er fyrir að talsverð hagkvæmni náist út úr samningunum. „Bæjarskrifstofurnar eru því að flytja í nýtt húsnæði með mun minni kostnaði heldur en útlit var fyrir, fyrir nokkrum misserum síðan. Ný tækifæri munu síðan skapast fyrir Hamraborgarsvæðið í tengslum við áætlanir kaupendanna að Fannborgarhúsnæðinu.“ ernayr@mbl.is