— Ljósmynd/Ívar Valgarðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýning á verkum sex íslenskra myndlistarmanna verður opnuð í dag kl. 18 í Städtische Galerie í menningarhúsinu Flachsgasse í bænum Speyer í suðvestanverðu Þýskalandi. Listamennirnir sex eru Sólveig Aðalsteinsdóttir, Ingólfur Arnarson, Kristinn G.

Sýning á verkum sex íslenskra myndlistarmanna verður opnuð í dag kl. 18 í Städtische Galerie í menningarhúsinu Flachsgasse í bænum Speyer í suðvestanverðu Þýskalandi. Listamennirnir sex eru Sólveig Aðalsteinsdóttir, Ingólfur Arnarson, Kristinn G. Harðarson, Ráðhildur Ingadóttir, Tumi Magnússon og Ívar Valgarðsson. Listamennirnir hafa verið vinir til fjölda ára og er aðeins fimm ára aldursmunur á þeim elsta og yngsta; sá elsti fæddur 1954 og sá yngsti 1959. Ívar var staddur í Speyer þegar blaðamaður náði tali af honum í gær og sagði hann þessa sex listamenn hafa sýnt saman nokkrum sinnum áður. „Síðast sýndum við saman í Aberdeen í Skotlandi,“ segir Ívar og að Tumi hafi verið aðalsprautan hvað varðar skipulag á sýningarhaldi hópsins.

Spurður út í titil sýningarinnar, Nasasjón , segir Ívar að Tumi hafi átt hugmyndina að honum. „Þetta er bara eitthvert nafn sem Tuma datt í hug, bara til að hafa eitthvert nafn,“ segir Ívar. Gestir muni fá nasasjón af íslenskri myndlist. „Svo hefur hann verið að vinna í því að finna nýja staði fyrir okkur að sýna á,“ bætir Ívar við.

Hann segir listamennina sex þekkjast frá fornu fari. „Við erum búin að þekkjast alveg frá því við vorum um tvítugt, vorum saman í skóla og sum voru saman í bekk, höfum sýnt saman og erum kunningjahópur,“ segir Ívar.

–Er eitthvað sem tengir ykkur saman í listinni?

„Nei, ekkert endilega, bara ákveðin samkennd og tilfinning,“ svarar Ívar og er í framhaldi spurður að því hvort hópurinn hafi ákveðið fyrir fram hvað ætti að sýna í Speyer. „Nei, það kemur bara hver og einn með sitt og svo er bara að máta þetta saman. Við fengum að vita hvað hver fengi um það bil mikið rými, þetta eru þrír stórir salir og við skiptum hverjum sal í tvennt.“

Sýningin stendur til 14. janúar.