Bylting Sjálfakandi bílar Uber við prófanir í Pittsburgh. Fyrirtækið hefur sigrað heiminn en verið mjög umdeilt.
Bylting Sjálfakandi bílar Uber við prófanir í Pittsburgh. Fyrirtækið hefur sigrað heiminn en verið mjög umdeilt. — AFP
Travis Kalanick, stofnandi og fyrrverandi forstjóri skutlþjónustunnar Uber, hefur selt tæplega þriðjung hlutabréfa sinna í fyrirtækinu.

Travis Kalanick, stofnandi og fyrrverandi forstjóri skutlþjónustunnar Uber, hefur selt tæplega þriðjung hlutabréfa sinna í fyrirtækinu. Bloomberg hefur eftir heimildarmönnum að Kalanic, sem áður átti um það bil 10% í Uber, muni græða 1,4 milljarða dala á sölunni. Kaupandinn er hópur fjárfesta með SoftBank Group í fararbroddi en með kaupunum er Uber metið á 48 milljarða dala. Kalanick hafði boðist til að selja allt að helming hlutabréfa sinna en fékk þó ekki að selja svo mikið vegna takmarkana í samkomulagi Uber og kaupendahópsins. Kaupendurnir munu eignast hluti í Uber fyrir allt að 10 milljarða dala en hlutina kaupa þeir af sumum elstu starfsmönnum og fjárfestum fyrirtækisins. Meðal þeirra sem nota tækifærið til að selja er vogunarsjóðurinn Benchmark sem, sem var með þeim fyrstu til að fjárfesta í Uber, og hefur lengi verið stærsti hluthafi fyrirtækisins. Benchmarkg mun selja 15% af eign sinni í Uber á 900 milljónir dala.

Þrátt fyrir að hafa selt allstóran eignarhlut munu bæði Benchmark og Kalanic áfram ráða yfir sínu sætinu hvort í stjórn Uber.

Er Kalanick á förum?

Eins og fjölmiðlar greindu frá á síðasta ári þurfti Kalanick að segja af sér sem forstjóri Uber eftir að margskonar hneykslismál skóku fyrirtækið. Sala Kalanicks og mikilvægra fjárfesta á hlutabréfum í Uber þykir til marks um að þeir séu reiðubúnir að losa um tökin á fyrirtækinu en Kalanick hefur, í krafti hlutabréfaeignar sinnar verið langsamlega valdamestur hluthafa.

Samningurinn við SoftBank og fjárfestahópinn felur m.a. í sér að felldur verður niður sérstakur flokkur hlutabréfa með aukinn atkvæðisrétt, sem hafa tryggt Kalanick þau miklu ítök sem hann hefur haft í fyrirtækinu til þessa. New York Times segir þetta þýða að nýi forstjórinn, Dara Khosrowshahi, muni fá betra svigrúm til að móta reksturinn eftir eigin höfði.

Viðmælendur Los Angeles Times og Fortune telja söluna til marks um að Kalanick vilji snúa sér að öðrum verkefnum og að með meira en milljarð dala úr að spila eigi hann hægt um vik að setja nýjan sprota á laggirnar.

Áður hafði Kalanick hreykt sér af því að hafa aldrei selt nein af hlutabréfum sínum í fyrirtækinu sem hann byggði upp. ai@mbl.is