Metsölubók Bókin er umdeild, en selst þó eins og heitar lummur.
Metsölubók Bókin er umdeild, en selst þó eins og heitar lummur. — AFP
Stephen Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, lýsti því yfir í gær að hann sæi eftir því að hafa ekki brugðist fyrr við „ónákvæmum fréttaflutningi“ af þeim ummælum sem höfð eru eftir honum í nýútkominni bók...

Stephen Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, lýsti því yfir í gær að hann sæi eftir því að hafa ekki brugðist fyrr við „ónákvæmum fréttaflutningi“ af þeim ummælum sem höfð eru eftir honum í nýútkominni bók blaðamannsins Michael Wolff, sem ber nafnið Fire and Fury: Inside the Trump White House.

Í bókinni, sem vakið hefur miklar umræður, er haft eftir Bannon að sonur forsetans, Donald Trump yngri, hafi setið fund með rússneskum lögfræðingi í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016 sem líkja hafi mátt við landráð.

Nú hefur Bannon vísað þessu á bug. Segir hann í yfirlýsingu sinni að þessum orðum hafi verið beint að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trumps, en ekki að Trump yngri. Bannon segist jafnframt harma hvað það hafi tekið hann langan tíma að leiðrétta misskilninginn.

„Donald Trump yngri er bæði föðurlandsvinur og góður maður,“ segir í yfirlýsingu Bannons og þar ítrekar hann einnig að hann styðji stefnu Bandaríkjaforseta og sé einn helsti talsmaður „Trump-isma“ á alþjóðavettvangi.

Bannon hefur verið harðlega gagnrýndur af Bandaríkjaforseta fyrir ummælin sem höfð eru eftir honum í bókinni og sagði Trump meðal annars á Twitter-síðu sinni að Bannon hefði „misst vitið“ er honum var sagt upp störfum í Hvíta húsinu síðasta sumar. Þá hefur Bannon misst fjárhagslega bakhjarla út úr fjölmiðlarekstri sínum vegna ummælanna í bókinni.

Donald Trump yngri hefur ítrekað neitað því að hafa haft rangt við er hann sat fund með rússneskum fulltrúa í Trump-turninum árið 2016, eftir að hafa verið lofað upplýsingum um Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, sem gætu sér vel fyrir Trump í kosningabaráttunni.