[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapaði í gær öðru sinni fyrir Þjóðverjum í vináttulandsleik í Þýskalandi á þremur dögum.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapaði í gær öðru sinni fyrir Þjóðverjum í vináttulandsleik í Þýskalandi á þremur dögum. Þýskaland vann sannfærandi sigur 30:21 í Ulm og hefur íslenska liðið þá leikið þá vináttuleiki sem á dagskrá eru í undirbúningi sínum fyrir EM í Króatíu. Fyrsti leikur liðsins þar verður næsta föstudag gegn Svíum.

Sé mið tekið af leiknum í gær verður afar mikilvægt að íslenska liðið ljúki sóknum sínum með skynsamlegum hætti á EM í Króatíu. Nú má auðvitað segja að þannig sé því ávallt farið í handboltanum en hér er átt við að liðið virðist vera of lengi að skila sér til baka í vörnina. Um það voru í það minnsta dæmi í gær þegar liðið tapaði boltanum og slíkt er óásættanlegt í landsleikjum.

Á síðasta velgengnisskeiði landsliðsins skoraði Ísland hátt hlutfall marka úr hraðaupphlaupum eða hröðum sóknum. Íslenska liðið gæti fengið að kenna á eigin bragði ef leikmenn verða ekki fljótari að stilla upp í vörnina. Hluti vandans er vitaskuld sá að nokkrir leikmanna liðsins eru ekki framúrskarandi varnarmenn. Sú staða gæti komið upp að Ísland sé í sókn með Kára á línunni, sem ekki spilar vörn með landsliðinu, og þrjá fremur lágvaxna og létta menn, þá Arnór Gunnars, Ómar og Janus. Ef liðið tapar boltanum og þarf að verjast hraðri sókn þá er þessi uppstilling einfaldlega fremur veik. Á hinn bóginn geta menn eins og Bjarki Gunnars og Ýmir tekið vel á því í vörninni en spila lítið eða ekkert í sókninni. Er þetta meðal annars ástæðan fyrir því að eldri leikmenn eins og Arnór Atla og Ásgeir Örn eru ennþá mikilvægir fyrir landsliðið því þeir geta spilað bæði vörn og sókn.

Bakmeiðsli hjá Aroni

Hér er rétt að taka fram að Arons Pálmarssonar naut ekki við í gær vegna bakmeiðsla. Á þessum tímapunkti er of snemmt að segja til um hvort eða hversu mikil áhrif þau munu hafa á EM. En með Aron í liðinu eru auðvitað auðveldara að ljúka sóknunum með góðum skotum. Með Aron á miðjunni og Ólaf Guðmunds vinstra megin er einnig auðveldara að stilla hratt upp í sterka vörn.

Ég hef á tilfinningunni að Ólafur verði sterkur á EM. Hann spilar stórt hlutverk með Kristianstad í Meistaradeildinni og hefur þar mætt stórliðum í vetur eins og Barcelona.

Ágúst Elí sýndi í gær takta í markinu sem lofa góðu og við þá hugsun má gæla að hann gæti orðið leynivopn á EM miðað við frammistöðuna í Þýskalandi. Björgvin mun þó væntanlega spila meira og þá er minni pressa á Ágústi.

Úrslitin gegn Þýskalandi eru ekki uppörvandi en þó er jákvætt að Ísland skuli mæta toppliði í aðdraganda EM þar sem þrír erfiðir leikir bíða í riðlinum.