Einar Marinó Magnússon járnsmíðameistari fæddist 4. febrúar 1924 í Nýlendu í Hvalsneshverfi í Miðneshreppi. Hann lést 21. desember 2017.

Hann var fjórða barn hjónanna Magnúsar Bjarna Hákonarsonar útvegsbónda í Nýlendu, f. 1890, d. 1964, og eiginkonu hans, Guðrúnar Hansínu Steingrímsdóttur, f. 1891, d. 1987.

Systkini hans eru Steinunn Guðný Magnúsdóttir, f. 1917, d. 1997, Ólafur Hákon Magnússon, f. 1919, d. 2010, Björg Magnea Magnúsdóttir, f. 1921, d. 1980, Gunnar Reynir Magnússon, f. 1925, d. 2012, Hólmfríður Bára Magnúsdóttir, f. 1929, d. 2014, og Tómasína Sólveig Magnúsdóttir, f. 1932.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Helga Marín Pálína Aðalsteinsdóttir og kjörsonur þeirra er Gísli Valur Gíslason. Börn hans eru Kristján Valur Gíslason, Tinna Kristín Gísladóttir, Jónas Daði Dagbjartarson, Þórunn Bryndal og Elisabeth Marin Gísladóttir. Einnig hefur systursonur Helgu, Georg Georgiou, ávallt verið þeim Einari og Helgu afar náinn. Dóttir hans er Guðný Helga Georgiou.

Einar Marinó hóf nám í járnsmíði hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík árið 1942. Hann lauk námi þar 1946 og sveinsprófið tók hann vorið 1947. Einar hóf störf hjá Vélsmiðju Sigurðar Sveinbjörnssonar í Reykjavík árið 1947. Hann var fastráðinn hjá Hitaveitu Reykjavíkur (síðar Orkuveitu Reykjavíkur) árið 1962 og vann þar til starfsloka árið 1994. Fyrsta verkefni Einars fyrir Hitaveitu Reykjavíkur var árið 1948. Hann vann því samfleytt að verkefnum tengdum hitaveitu í 46 ár.

Jafnframt störfum sínum hjá Hitaveitunni vann Einar að listsköpun, einkum málmskúlptúrum og járnhandverki. Fyrsta sýning Einars á verkum sínum var á samsýningu listamanna í Listasafni ASÍ árið 1980. Árið 1996 hélt hann einkasýningu í Stöðlakoti í Reykjavík. Í tilefni af áttatíu ára afmæli hans árið 2004 var haldin viðamikil útisýning, „Orkan og lífið“, í Sólveigarlundi við Hvalsneskirkju, skammt frá æskuheimili hans. Síðar sama ár var sýningin sett upp í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur.

Útför Einars Marinós fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 8. janúar 2017, klukkan 15.

Járnmaðurinn er uppfinningamaður og frumkvöðull.

Hann er mikilvæg en nafnlaus stærð í uppbyggingu samfélags, hvort sem tengist listsköpun eða þægindum daglegs lífs.

Hann er réttsýnn með meiru, hógvær og nægjusamur.

Járnmaðurinn er tryggur og ávallt tilbúinn að veita þeim aðstoð sem biðja og óskar einskis í staðinn.

Járnmaðurinn er með harða kápu en opið og viðkvæmt hjarta.

Hann hlúir að náunganum og elur af ást og umhyggju hvort sem blóðskyldir eru eða ekki.

Hann er ávallt þakklátur fyrir það sem hann hefur.

Þú ert mín helsta fyrirmynd!

Þú ert dáður af þeim sem þig þekkja og við sem umgengumst þig eigum þér svo margt að þakka.

Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og mína og tilbúinn að leiðbeina.

Þú átt hvað mestan þátt í hvernig líf mitt hefur þróast.

Járnmaðurinn ert þú afi, þú ert ofurhetjan!

Þú varst mér meira sem annar faðir en afi.

Ég elska þig og mun sakna þín sárt.

Hvíldu í friði.

Kristján Valur Gíslason.

Elsku afi, hvar á maður að byrja þegar svona mikill meistari fellur frá. Ég sit og hlusta á lagið „Umvafin englum“ og hugsa um hversu heppin ég var að fá að alast upp með annan fótinn hjá ykkur hjónum. Umvafin englum. Fyrstu árin mín bjó ég í kjallaranum á Laugateignum beint fyrir neðan ykkur. Ég hef verið tengd ykkur alveg frá blautu barnsbeini. Ég á óteljandi yndislegar bernskuminningar þar þökk sé þér og ömmu. Þið voruð alltaf þarna til staðar fyrir mann. Ljúfu morgnarnir þar sem allir sátu saman og þið hlustuðuð á fréttirnar. Hlaðborð af áleggi var sett á borð með brauðinu, morgunstund var fastur liður hjá ykkur. Óteljandi utanlandsferðirnar þar sem við fengum að fljóta með ykkur. Enn í dag er ég finn ilm af appelsínu minnir það mig á þig, því þú varst nánast undantekningalaust með ferskar appelsínur með þér á ströndinni. Það var alltaf svo mikil værð í kringum ykkur. Það var alltaf gott að vera í nærveru ykkar. Þú varst svo mikill klettur öll mín uppvaxtarár. Hjálpaðir með allt ef ég bað þig og það var aldrei kvöð eða pína, þú varst einfaldlega ánægður með að geta hjálpað. Og út af þér get ég gefið þennan kærleik áfram til strákanna minna.

Þeir sem þig þekktu vissu að þú varst gæddur óteljandi kostum. Þú varst einn sá vandaðasti maður sem ég hef nokkurn tímann þekkt. Þú varst alltaf þakklátur fyrir allt, þú hafðir mikla réttlætiskennd, varst með stórt hjarta og ósköp nægjusamur. Það voru engin takmörk fyrir nægjusemi í þínu tilfelli.

Þú vildir aldrei tala illa um neinn eða niður til einhvers. Þú varst svo hrein sál og samviskusamur og verulega réttsýnn að eðlisfari, þú vildir gera allt 100%. Þú sást allt í svörtu eða hvítu og reyndir að aga okkur þannig til.

Þú varst vinnusamur maður alla tíð og virkur járnsmiður. Listaverk þín eru víða og ég held áfram að vera stolt af því í komandi framtíð að geta sagt að þetta gerði afi minn.

Svo eignaðist ég strákana mína tvo. Þessi eldri fékk seinna nafnið þitt, Marinó. Ég kalla hann stundum Nóa til að minna á þig. Þú sýndir þeim ómælda hlýju og hrósaðir þeim við öll tækifæri. Þú varst svo stoltur af afkomendum þínum öllum. Allt sem þau gerðu var einstakt í þínum huga. Og ég elskaði að fylgjast með þér fullur stolts, því svoleiðis horfðir þú á mig, elsku afi minn. Ást ykkar og hlýja hefur mikið með það að gera að ég hef náð að hrista af mér mótlæti. Mig vantaði alltaf að rjúka allt á hnefanum svo þið vissuð hversu mikið þið gáfuð mér. Síðasta árið þitt á þessari jörðu stóð hnefinn ekki til boða, en ég veit að þú varst stoltur af mér í haust þegar það fór að birta til. Ég ætla að ríghalda í það því þú skiptir mig öllu máli, afi minn.

Að kveðja þig er mikið erfiðara en mig grunaði. Ég fann það þegar þú varst raunverulega farinn hvað það var gott að hafa þig þarna. Þú kenndir okkur að það að lifa lífi sínu af heilindum og að leggja sitt af mörkum skiptir sköpum fyrir heiminn. Takk fyrir að vera fyrirmyndin mín, afi minn. Engin orð fá því lýst hversu þakklát ég er að við litla fjölskyldan fengum að eiga þig.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Tinna Kristín Gísladóttir.

Elsku afi minn, þú varst svo sannarlega hetja.

„Afi minn er hetjan mín. Af hverju?

Hann er 89 ára í dag (04.02.13), hann hefur aldrei reykt né drukkið, aldrei fengið umferðalagasekt, ekki einu sinni stöðumæla sekt. Fyrsta skiptið sem hann lenti í árekstri var hann 88 ára, og þá var keyrt á hann. Hann var svo miður sín að hann ákvað að hætta keyra. Afi hefur alltaf verið í góðu formi og passað vel upp á heilsuna sína. Á hverjum degi fer hann og syndir í 30 mínútur, og fer oftast að labba í 1-2 klukkutíma líka. Þótt að hann hafi verið að missa heyrnina undanfarin ár þá er hann alltaf brosandi og segjandi skemmtilega brandara.

Hann hefur alltaf verið mjög góður að smíða listaverk og bjó til handriðið inni í Laugarneskirkju. Hann var einn besti járnsmiður landsins í mörg mörg ár. Afi hefur alltaf verið mjög barngóður og passaði mig oft þegar ég var lítil. Spiluðum oft olsen olsen og borðuðum kex saman. Hann hefur alltaf verið mjög ungur í anda og mjög duglegur. Svo hefur hann líka alltaf verið mjög góður vinur allra. Afi hefur alltaf viljað trúa á það jákvæða og góða í fólki. Vill að allir séu jafn hamingjusamir og hann er. Hann hefur alltaf verið algjör „Rómeó“ enda er hann búinn að vera giftur sömu konunni í 50 ár og þau eru ennþá jafn ástfangin núna og þegar þau voru ung.

Þess vegna er hann Einar afi hetjan mín.

Guðný Helga Georgiou. 15 ára. 02.04.13“

Ég á alltaf eftir að sakna þín. Þín

Guðný Helga.

1967. Græn gljáfægð Volgan rennir upp að hliðinu á Keflavíkurflugvelli. Úr skýlinu gengur vígalegur hermaður með hjálm merktan MP stórum stöfum. Nói föðurbróðir minn – afar dagfarsprúður að upplagi – segir stundarhátt: „Ég hef ekkert við þig að tala.“ Hann rennir upp bílrúðunni og gefur í eins og hann sé í kvartmílukeppni. Ég gleymi aldrei undrunarsvipnum á Helgu við hliðina á honum og ég, sjö ára gamall, fór að hágrenja. Stuttu síðar var Volgan (súrrealísk bíltegund inni á varnarliðssvæðinu) umkringd herbílum með sírenum. Dágóð stund leið þar til íslenskur lögreglumaður kom á vettvang. Bílrúðan skrúfuð niður. „Ég er að sækja hann Reyni bróður minn úr flugi og á ekkert að þurfa að tala við einhverja útlendinga til þess.“ Hinn yfirvegaði lögreglumaður reyndist gamall skólabróðir pabba og Nóa úr grunnskóla Miðneshrepps. Hann talaði hermennina til og málið var leyst á diplómatískan hátt. Heimsbylting kommúnistanna var ekki að fara af stað þarna.

Þetta var eitt af þeim ævintýrum sem ég lenti í þegar ég var sendur í vist til Helgu og Nóa á Laugateiginn sem ungur drengur. Það voru minnisstæðar stundir. Veiðar í Þingvallavatni, bíltúrar um Reykjavíkurhöfn og ekki síst vettvangsskoðanir á vinnustöðvum Hitaveitu Reykjavíkur. Nói var að undirbúa næstu vinnuviku. Eitt sinn var Nói að lýsa því hvernig vinna hans væri fólgin í að koma jarðhitanum inn í híbýlin til að við gætum bætt lífsgæðin. „Já, Hákon minn, þetta er svo gott fyrir fátæka fólkið.“ Þetta er lýsandi fyrir ævistarf Nóa. Hann var ekki að moka sand í eyðimörkinni – hann var að smíða pýramída sem skyldi standa til langrar framtíðar. Síðar á ævinni hafði ég frumkvæði að því að koma á laggirnar því samfélagi sem er íslenski jarðhitaklasinn. Því betur sem ég setti mig inn í þau mál sá ég alltaf ljósar hvers konar þrekvirki Nói og kollegar hans unnu á síðustu öld. Framlag þessara frumherja jarðvarmanýtingar á Íslandi til lífskjarabyltingarinnar á Íslandi á síðustu öld má ekki gleymast.

Eins og hinn samhenti systkinahópur úr Nýlendunni hafði hann til að bera mikla mannkosti. Dugnaður, frændsemi, réttlætiskennd og rík kímnigáfa sem aldrei var langt undan. Nói var líka afar listfengur og fáir honum fremri í smíði á járn. Það er til dæmis ólíklegt að Ásmundur Sveinsson hafi fengið hvern sem er til að stækka sín stórbrotnu verk úr járni. Ég eignaðist á sínum tíma fallegt listaverk eftir Nóa sem hann nefndi „Lífsins vatn“. Það er viðeigandi titill sem skipar heiðursess í stofunni. Hann smíðaði líka gullfalleg verk til tvíburasona minna beggja sem munu fylgja þeim alla ævi. Annar bræðranna ber reyndar millinafnið „Nói“ og er það ekki hrein tilviljun. Genginn er afar merkilegur samferðamaður og frændi sem ég sakna. Mamma, börnin mín og við í fjölskyldunni allri minnumst hans af mikilli virðingu og væntumþykju. Við sendum Helgu, Gísla og ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Einars Marinós Magnússonar.

Hákon Gunnarsson.

Nói, eins og hann var alltaf kallaður, var fjórði elstur sjö systkina þar sem móðir mín var elst. Hún ólst hins vegar upp í Reykjavík hjá föðursystur sinni Guðrúnu og manni hennar Magnúsi Þórarinssyni. Ég kynntist Nóa, eða öllu heldur hann mér, þegar ég var fyrst sendur í sveit í Nýlendu nítján mánaða gamall, en þar gekk mér í móðurstað fyrstu sumrin Björg móðursystir mín, systir Nóa. Hann reyndist mér frá fyrstu tíð hlýr og góður og tókust þá með okkur kærleikar sem entust alla tíð.

Þegar Nói var á unglingsaldri fékk hann ásamt Gunnari Reyni yngri bróður sínum að búa um tíma í kjallaranum á Bakkastig 1, fjölskylduhúsinu okkar, sem fósturafi minn Magnús Þórarinsson byggði árið 1919. Þar var hann aufúsugestur og ætíð samur við sig og indæll við okkur systkinin. Hann var m.a. óþreytandi við að teikna myndir af bátum og bílum fyrir mig, sem mér fannst sérstaklega áhugavert þá og reyndar enn.

Nói lærði síðar járnsmíði, sem varð aðalstarf hans, ekki síst hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Hann var afar fær í sínu fagi, gat smíðað nánast hvað sem var. Var eins og sagt er dverghagur á járn. Smíðaði líka fjölmargt fyrir fjölskylduna, vini hennar og sambýlisfólk og var alltaf reiðubúinn til hjálpar. Þar má m.a. nefna handrið, hlið, vinnuborð, nótur og óteljandi fleiri hluti.

Mér eru einkum minnisstæðar stundir okkar saman á litla verkstæðinu hans við Laugateiginn þar sem hann smíðaði oft eitthvað fyrir mig og mína. Hann hafði alltaf jafnmikla ánægju af að gera eitthvað fyrir mig og með mér við smíðarnar.

Ánægjustundir okkar voru ófáar, m.a. þegar ég var handlangari við uppsetningu handriða sem ég hafði hannað í samráði hann.

Nói var lengi aðstoðarmaður Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, sem kunni afar vel að meta Nóa vegna listrænna hæfileika hans og fagmennsku. Nói reyndi einnig fyrir sér á þeim vettvangi myndlistar og gerði fjölmörg verk sem munu halda nafni hans á lofti.

Ævistarf Nóa, járnsmíðin, án heyrnarhlífa sem ekki tíðkuðust á árum áður, varð til þess að hann varð verulega heyrnarskertur síðustu árin. Hann lét það þó ekki á sig fá og þrátt fyrir veikindi síðustu mánaða lét hann sig ekki vanta í síðasta stórafmæli mínu. Það þótti mér vænt um.

Blessuð sé minning hans.

Magnús Skúlason.

Einar Marinó Magnússon hét hann fullu nafni en í Nýlendufjölskyldunni var hann alltaf kallaður Nói. Mamma okkar, sem kölluð var Bugga, var „Stóra“ systir hans þó að hún hafi aðeins verið tveimur árum eldri. Þau voru afar samheldin og bjuggu saman eftir að þau bæði fluttu að sunnan til Reykjavíkur um tvítugt.

Í tengslum við járnsmíðanámið sitt var Nói mjög mikið úti á landi við vinnu. Varðveist hafa allnokkur bréf frá honum til mömmu sem sýna að samband þeirra var sterkt og náið og þegar pabbi kom til sögunnar urðu þeir tveir góðir félagar. Samband þeirra þriggja styrktist enn frekar þegar þeir mágar ákváðu að byggja sér saman hús á Laugateig 12 í Reykjavík. Það var óttalegt basl og var sérstaklega erfitt að útvega nauðsynlegt fjármagn og þar þvældust fyrir einarðar stjórnmálaskoðanir Nóa, sem var með hjarta sem sló til vinstri í samstöðu við verkamenn heimsins. Þeir mágar voru samt einkar útsjónarsamir og unnu saman við húsbygginguna. Það var flutt inn á haustmánuðum 1950, mamma og pabbi á efri hæðina með börnin sem þá voru orðin fjögur og áttu eftir að vera sjö og Nói á neðri hæðina, sem hann leigði meira og minna út fyrsta áratuginn. Leigjendurnir voru hjónin Böðvar og Steinunn með börnin Eggert, Guðjón og Sigrúnu. Í húsinu var mikið krakkager sem bara fór fjölgandi.

Flest kvöld var Nói í mat hjá okkur á efri hæðinni eins og yngsta systirin, Veiga, sem bjó einnig hjá mömmu og pabba. Svo kom að því að leigjendur Nóa fluttu út og Nói hætti barasta að koma í kvöldmat. Helga var nefnilega flutt inn til hans og nokkru síðar kom Gísli Valur til þeirra og síðar hann Georg. Þá var heldur farið að fækka á efri hæðinni.

Nói átti lítinn bát með utanborðsmótor. Margar ferðir voru farnar á Þingvöll til að veiða silung og þá alltaf gist í tjöldum. Þegar einhver í bátnum festi spúninn í botni var alltaf kallað „Ísland“. Þá sló Nói af og bakkaði til að losa spúninn. Nýveidd murta með kartöflum frá pabba og miklu smjöri er kóngafæða.

Nói átti síðar eftir að vinna mikið með vinnuflokki sínum á Nesjavöllum við Þingvallavatn, sem undanfari verktaka vegna borana og byggingu Nesjavallavirkjunar.

Nói var alltaf að búa eitthvað til. Alls konar gjafir til fjölskyldunnar urðu til á smíðaverkstæðinu. Ekki bara smáhlutir heldur líka hliðgrindur, handrið og myndverk. Verk hans prýða nú safnaðarheimilið við Laugarneskirkju og safnaðarheimilið í Sandgerði.

Samvinna Nóa og Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara við sköpun varð til þess að smátt og smátt urðu til ekki bara nytjahlutir á verkstæði Nóa heldur líka skúlptúrar – allir smíðaðir úr járni. Í tilefni af áttræðisafmæli Nóa árið 2004 aðstoðuðum við systkinin hann við að setja upp stóra útisýningu á verkum hans suður með sjó. Þessi sýning var svo sett upp inni í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur síðar. Mjög mörg verka Nóa eru tileinkuð orku jarðvarmans og beislun þeirrar orku til hagsbóta fyrir manneskjurnar.

Við minnumst Nóa frænda okkar sem hann var, hæglátur, traustur og afar vinnusamur maður með mikla sköpunargleði.

Magnús Hákon og

Sólveig Ólafsbörn.