Allsgáðir Starfsmenn LHG virða fyrir sér áfengismæli.
Allsgáðir Starfsmenn LHG virða fyrir sér áfengismæli. — Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Landhelgisgæsla Íslands fer með löggæslu á hafinu umhverfis landið og því fylgir að stofnuninni ber að fylgjast með því hvort sjófarendur séu allsgáðir við störf sín.

Landhelgisgæsla Íslands fer með löggæslu á hafinu umhverfis landið og því fylgir að stofnuninni ber að fylgjast með því hvort sjófarendur séu allsgáðir við störf sín. Undanfarið hafa fjölmargir starfsmenn Landhelgisgæslunnar setið námskeið í meðferð áfengismæla og fíkniefnaprófa, en slíkir mælar eru nú um borð í skipum Landhelgisgæslunnar og einnig er gert ráð fyrir því að áhafnir loftfara hafi aðgang að þessum búnaði, að því er fram kemur í frétt á vef Landhelgisgæslunnar.

Hinn 3. janúar var eitt slíkt námskeið haldið í höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Þátttakendur í námskeiðinu voru starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem fara með lögregluvald við störf sín, til dæmis áhafnir á varðskipum og þyrlum, séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitin, auk starfsfólks af lögfræði- og aðgerðasviðum.

Á vef Landhelgisgæslunnar segir að af og til þurfi að hafa afskipti af sjófarendum sem ekki eru allsgáðir við störf sín, en íslensk siglingalög eru skýr þegar kemur að neyslu áfengis og vímuefna. Enginn má stjórna skipi af nokkru tagi undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og geta brot gegn því varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.