Blaðamannafundur Angela Merkel tilkynnir upphaf viðræðna.
Blaðamannafundur Angela Merkel tilkynnir upphaf viðræðna. — Ljósmynd/Tobias Schwarz AFP
Takist að mynda nýja ríkisstjórn Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna í Þýskalandi gæti sú stjórn tekið við völdum í mars eða apríl.

Takist að mynda nýja ríkisstjórn Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna í Þýskalandi gæti sú stjórn tekið við völdum í mars eða apríl. Þetta kemur fram í frétt AFP en viðræður eru hafnar á milli flokkanna tveggja um stjórnarsamstarf að frumkvæði Angelu Merkel en jafnaðarmenn höfðu áður lofað að vera í stjórnarandstöðu.

Um er að ræða könnunarviðræður en ef niðurstaðan verður að flokkarnir eigi málefnalega samleið verða hafnar formlegar viðræður. Kosið var í lok september í Þýskalandi en enn hefur ekki tekist að mynda samsteypustjórn. Þingkosningarnar skiluðu ekki niðurstöðu sem benti til þess að kjósendur vildu stjórn til hægri eða vinstri. Fráfarandi stjórn er samsteypustjórn flokkanna tveggja en í gegnum tíðina hafa þeir ekki starfað saman heldur myndað stjórnir sitt á hvað í samstarfi við minni flokka.

Vilja forðast nýjar kosningar

Ákveðið var að hefja viðræður til þess að forða því að boða þyrfti til nýrra kosninga en flokkarnir tveir eru tveir stærstu flokkarnir á þýska sambandsþinginu. Angela Merkel, kanslari landsins og leiðtogi Kristilegra demókrata, sagðist í dag bjartsýn á stjórnarmyndun meðJafnaðarmannaflokknum.

„Ég held að þetta sé mögulegt. Við munum vinna mjög hratt og af einurð,“ sagði kanslarinn. Mörg mál þarf að leysa, þ.ám. hvað gera eigi í málum yfir einnar milljónar hælisleitenda í landinu sem komið hafa þangað síðan árið 2015, en talið er að aukið fylgis flokksins AfD, sem lagt hefur áherslu á harða stefnu í innflytjendamálum, hafi kostað Merkel góða niðurstöðu í þingkosningunum og Jafnaðarmenn fengu enn verri útreið. Þetta kemur fram á mbl.is.