Brenna Þúsundir söfnuðust saman á þrettándabrennu í Mosfellsbæ og fylgdust með glæsilegri flugeldasýningu.
Brenna Þúsundir söfnuðust saman á þrettándabrennu í Mosfellsbæ og fylgdust með glæsilegri flugeldasýningu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á laugardag var þrettándi og síðasti dagur jólahátíðarinnar. Víða um land voru haldnar þrettándabrennur af því tilefni, til dæmis í Mosfellsbæ þar sem ljósmyndari Morgunblaðsins var staddur.

Á laugardag var þrettándi og síðasti dagur jólahátíðarinnar. Víða um land voru haldnar þrettándabrennur af því tilefni, til dæmis í Mosfellsbæ þar sem ljósmyndari Morgunblaðsins var staddur. Þar er jafnan mikið lagt í skemmtiatriði, brennu og flugeldasýningu á þrettándanum og jólin kvödd með hátíðlegum hætti. Engin undantekning var á því nú og Mosfellingar og gestir þeirra gengu í blysför frá miðbænum og að brennunni við Leirvoginn. Þar komu Stormsveitin og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar fram, auk þess sem álfadrottning og álfakóngur mættu á svæðið ásamt hjúunum Grýlu og Leppalúða og afkomendum þeirra, sem nú hafa haldið aftur til fjalla.

Íkveikjur víða um borg

Þrátt fyrir að flestir hafi verið í góðu skapi í Mosfellsbæ á laugardagskvöld átti það ekki við um alla á höfuðborgarsvæðinu, en slökkviliðið hafði í nógu að snúast vegna íkveikja í blaðagámum og ruslatunnum. Alls voru þrettán útköll vegna slíkra mála á laugardagskvöld. Meðal annars var kveikt í ruslatunnu á tjaldsvæðinu í Laugardal og þar hefði eldurinn mögulega getað borist í útisalerni sem var skammt frá. Vegfarandi afstýrði því hins vegar og dró logandi tunnuna frá salerninu áður en illa fór.

Íkveikjur sem þessar eru algengar á þrettándanum, að sögn slökkviliðsins. athi@mbl.is