Merking Borgarlína fær sérstakar akgreinar og þrengir þar með að almennri umferð og græn svæði skerðast, að sögn Frosta Sigurjónssonar.
Merking Borgarlína fær sérstakar akgreinar og þrengir þar með að almennri umferð og græn svæði skerðast, að sögn Frosta Sigurjónssonar. — Morgunblaðið/Kristinn
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Það virðist [...

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það virðist [...] sem borgarlínan sé einstaklega óhagkvæm og áhættusöm framkvæmd og það mætti með minni útgjöldum og margvíslegum hætti ná fram mun meiri árangri í að bæta samgöngur á svæðinu,“ skrifar Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, í grein sem hann skrifar um borgarlínu á vef sinn, frostis.is.

Frosti rekur að stofnkostnaður við nýtt kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sé áætlaður 70 til 150 milljónir kr. Það svari til 1-2 milljóna króna á hvert heimili á svæðinu.

Lítil eftirspurn eftir þjónustu

Frosti telur rangt að borgarlína stórauki flutningsgetu samgöngukerfisins. Bendir hann á að sáralítil eftirspurn sé eftir þeirri tegund flutningsgetu sem borgarlínan bjóði.

„Það er lítið gagn í því að hálftómir borgarlínuvagnar hringli um leiðakerfið. Hins vegar er öruggt að sú tegund flutningsgetu sem nú er mjög eftirsótt mun skerðast verulega þegar akreinar sem nú nýtast fólksbílum verða helgaðar borgarlínu. Borgarlínan mun því auka umferðarteppu á álagstímum en ekki draga úr henni.“

Tapar 67 klukkustundum

Frosti telur að borgarlína muni ekki spara fólki tíma. Hún muni sólunda tíma allra íbúa á svæðinu, hvort sem þeir noti hana eða ekki. Reiknar hann út að þeir sem ferðast með borgarlínu verði að meðaltali 15-20 mínútur lengur að komast leiðar sinnar en þeir sem ferðast með rafbíl. Er þá miðað við þann tíma sem fer í að ganga á biðstöð, bíða eftir vagni, stoppa á biðstöðvum og svo ganga á áfangastað. Sá sem fer til vinnu með borgarlínu tvisvar á dag í 200 daga á ári tapi því 67 klukkustundum.

„Þeir sem meta tíma sinn mikils munu því forðast að nota borgarlínu nema yfirvöld grípi til aðgerða til að minnka þennan mikla tímamun,“ skrifar Frosti. Auðveldasta leiðin sé sú sem danska ráðgjafarfyrirtækið COWI leggi til í skýrslu sinni en það felist í því að tefja þá sem vilja nota fólksbíl. Akreinum fyrir almenna umferð verði fækkað sem og bílastæðum. „Það er ótrúlegt að borgarstjóri og sveitarstjórnir telji slík áform „auka lífsgæði“ íbúa.“

Kjósendur með neyðarhemil

Frosti segir að borgarlínuverkefnið sé þrátt fyrir alla sína vankanta á fullri ferð, fast á sjálfstýringu. Eina vonin sé að einhver sýni frumkvæði og grípi í neyðarhemilinn.

Spurður hver ætti að grípa í hemilinn nefnir Frosti hinn almenna kjósanda. „Þessi áform eru af góðum huga gerð hjá borgarstjóra og bæjarstjórum og þeir hafa væntingar til þess. Þau eru hins vegar ekki sannfærandi þegar málið er skoðað nánar og erfitt að fallast á að þau standist við okkar aðstæður. Málið hlýtur að verða rætt í aðdraganda komandi sveitarstjórnarkosninga,“ segir Frosti.