Óánægðir Arsenal féll úr leik í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu karla.
Óánægðir Arsenal féll úr leik í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu karla. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enski bikarinn Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Íslensku leikmennirnir riðu ekki feitum hesti frá 64 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla um helgina.

Enski bikarinn

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Íslensku leikmennirnir riðu ekki feitum hesti frá 64 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla um helgina.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans hjá Burnley töpuðu 4:1 fyrir Manchester City eftir að hafa komist yfir í leiknum.

Hörður Björgvin Magnússon og samherjar hans hjá Bristol City féllu úr leik eftir 3:0-tap gegn Watford. Birkir Bjarnason var í fyrsta skipti í byrjunarliði Aston Villa frá því um miðjan september þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Peterborough United með þremur mörkum gegn einu.

Aron Einar Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Cardiff City vegna meiðsla þegar liðið gerði markalaust jafntefli á móti Mansfield Town. Jón Daði Böðvarsson var svo fjarri góðu gamni hjá Reading vegna veikinda þegar Reading og Stevenage skildu jöfn í markalausum leik. Axel Óskar Andrésson var ekki í leikmannahópi Reading í leiknum.

Fleetwood Town tókst að halda út gegn Leicester City og knýja fram markalaust jafntefli. Grétar Rafn Steinsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood Town. Cardiff City, Reading og Fleetwood Town þurfa að mæta mótherjum sínum á nýjan leik til þess að útkljá hvort liðin fari áfram í 32 liða úrslit keppninnar.

Arsenal sem er ríkjandi bikarmeistari mun ekki verja titil sinn, en liðið laut í lægra haldi gegn Nottingham Forrest. Lokatölur í þeim leik urðu 4:2 Nottinham Forrest í vil. Nágrannar Arsenal, Tottenham Hotspur, komust hins vegar örugglega áfram eftir 3:0-sigur liðsins gegn AFC Wimbledon.

West Ham tókst ekki að bera sigur úr býtum þegar liðið mætti Shrewsbury Town, en ekkert mark var skorað í leik liðanna og liðin þurfa því að leiða saman hesta sína aftur. Chelsea þarf sömuleiðis að mæta Norwich City að nýju eftir markalaust jafntefli liðanna. Það sama á við um Wolves og Swansea City sem náðu ekki að skora í leik liðanna. Stoke City tapaði óvænt, 2.1, fyrir Coventry City, en tapið varð banabiti Mark Hughes sem var látinn taka pokann sinn sem knattspyrnustjóri Stoke City eftir leikinn.

Öll úrslit helgarinnar í ensku bikarkeppninni má sjá í úrslitadálki á blaðsíðu fjögur í íþróttablaði Morgunblaðsins.