Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
Eftir Einar K. Guðfinnsson: "Hápunktar afmælisársins eru tveir: Annars vegar hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018 og hins vegar hátíðahöld 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi."

Alþingi ákvað samhljóða þann 13. október 2016 að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, árið 2018. Í samþykkt þingsins var kveðið á um hvernig þessa skyldi minnst. Segja má að hápunktar afmælisársins séu tveir. Annars vegar hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag fyrir einni öld var samningum um fullveldi Íslands lokið. Er það í samræmi við þá góðu og sjálfsögðu hefð að efnt sé til hátíðarfundar á Þingvöllum við sérstök tímamót í sögu þjóðarinnar. Hins vegar var ákveðið að fela ríkisstjórninni að efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Enn fremur voru teknar aðrar stefnumótandi ákvarðanir með samþykkt Alþingis. Má þar nefna: Samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit. Ríkisstjórninni er falið að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns. Þá var ríkisstjórninni falið að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni. Og loks var Þingvallanefnd falið að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar. Alþingi kaus síðan nefnd allra þingflokka sem fékk viðurhlutamikið verkefni. Íslendingasögurnar verða gefnar út, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918, stofnað verður til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar og skólar hvattir til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.

Að öllum þessum verkefnum er nú unnið í samræmi við samþykkt þingsins og hafði skrifstofa afmælisnefndarinnar forgöngu um það verk.. Jafnframt leitaði nefndin til þjóðarinnar um skipulagningu viðburða á afmælisárinu. Niðurstaðan var sú að um eitt hundrað viðburðir af margvíslegum toga og um allt land munu í ár líta dagsins ljós af þessu tilefni. Nánar má fræðast um verkefni afmælisársins á heimasíðu afmælisnefndarinnar, www.fullveldi1918.is

Það var sérstaklega ánægjulegt að verða vitni að því hversu margir sýndu því áhuga að taka þátt í því að móta þannig dagskrá afmælisársins. Mikill metnaður einkennir þessi verkefni og þau eru af ótrúlega fjölþættum toga. Árið 2018 verður því sannkallað afmælisár, enda tilefnið ærið.

Höfundur er formaður nefndar sem undirbýr hátíðarhöld fullveldisafmælisins. ekg@ekg.is