Bændafundur Rósa J. Guðmundsdóttir og Ari Páll Ögmundsson í Stóru-Sandvík mættu á bændafundinn og kjötkynninguna sem var eftir fund.
Bændafundur Rósa J. Guðmundsdóttir og Ari Páll Ögmundsson í Stóru-Sandvík mættu á bændafundinn og kjötkynninguna sem var eftir fund. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Það þarf að brúa bilið á milli bænda og afurðastöðvanna sem þeir reyndar eiga. Mér heyrist að það sé komin einhver þreyta í samstarfið og það er ekki aðeins öðrum aðilanum að kenna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það þarf að brúa bilið á milli bænda og afurðastöðvanna sem þeir reyndar eiga. Mér heyrist að það sé komin einhver þreyta í samstarfið og það er ekki aðeins öðrum aðilanum að kenna. Bændur þurfa að líta í eigin barm og tengjast markaðsstarfinu betur og vita hvað þar er að gerast,“ segir Ásmundur Friðriksson alþingismaður um fund um markaðsmál lambakjöts sem hann tók þátt í að halda á Hellu sl. laugardag.

Talið var að um 300 manns hefðu verið á fundinum, mest bændur af Suðurlandi en einnig úr öðrum landshlutum. Þá voru þarna forystumenn bænda, Sláturfélags Suðurlands og fleiri gestir. Ásmundur kveðst ánægður með fundinn. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, og Jón Örn Stefánsson í Kjötkompaníinu í Hafnarfirði voru aðalframsögumenn. Ásmundur segir að þeir hafi komið með ný sjónarhorn inn í umræðuna um framleiðslu og sölu lambakjöts og sagt frá því hvað þeir væru að gera í sínum fyrirtækjum. Taldi Ásmundur að orð þeirra hefðu vakið vonir í brjósti fundarmanna.

Þórarinn Ævarsson sagði í framsögu sinni að IKEA hefði selt 84 þúsund skammta af lambakjöti á veitingastað sínum á síðasta ári. Fyrirtækið legði aukna áherslu á lambakjöt og stefndi að því að selja 150 þúsund skammta á þessu ári og reiknaði Þórarinn með að þeir yrðu 250 þúsund á árinu 2020. Hann telur að IKEA hafi sýnt fram á það að vel sé hægt að selja lambakjöt og hagnast á því, bæði til útlendinga og Íslendinga.

Þórarinn lýsti þeirri skoðun sinni að selja ætti lambakjöt sem alþýðumat á alþýðuverði. Kjötið væri nú of fjarlægt hinum almenna neytanda. Hann hvatti bændur til að krefjast þess að fyrirtæki þeirra, eins og SS, ynni með þeim og einnig fyrirtæki sem lifa á því að þjónusta bændur og nefndi N1 í því sambandi. „Ef ég fengi öllu að ráða myndi ég læsa Steinþór Skúlason frá SS, Ágúst Torfa Hauksson frá Norðlenska, Þórólf Gíslason frá KS og Eggert Kristófersson frá N1 saman inni í litlu herbergi og ekki hleypa þeim út fyrr en þeir væru komnir með raunhæf plön um að selja 4 milljónir skammta af lambaréttum hið minnsta á ári,“ sagði Þórarinn og vísaði til möguleika á aukinni sölu lambakjöts til ferðafólks. Þar með væri öll offramleiðslan farin.

Aftarlega á merinni

„Ég held að við séum aftarlega á merinni í markaðsmálum lambakjöts,“ segir Ásmundur Friðriksson um niðurstöðu fundarins. Hann tekur þá samlíkingu úr sjávarútveginum að enginn bátur fari á sjó án þess að vita hvað markaðurinn biður um. Sama þurfi bændur að gera.

Hann vísar til orða frummælenda og segir að bændur ættu að einbeita sér að innlenda markaðnum. „Mér sýnist skilningur á stöðu bænda fara minnkandi. Þess vegna þurfa þeir að koma með lausnina. Erfitt er að framleiða vöru til útflutnings ef það bitnar á afurðastöðinni sem svo getur ekki borgað bændum sanngjarnt verð fyrir vöruna,“ segir Ásmundur.