Elísa Björg Wíum fæddist 12. febrúar 1931 í Vestmannaeyjum. Hún lést 23. desember 2017.

Hún var dóttir hjónanna Guðfinnu J.Wíum og Gísla G. Wíum. Systkini Elísu eru: Dóra Sif Wíum, f. 20. mars 1934, og Kristinn Wíum, samfeðra, f. 17. júní 1926, d. 13. janúar 1994.

Eiginmaður Elísu var Gunnar Jónsson, f. 23. nóvember 1932, d. 10. september 2005. Börn þeirra eru: 1) Guðfinna Nanna, maki Jóhann Ingi Gunnarsson. Börn þeirra eru: Gunnar Ingi, Steindór Björn og Indíana Nanna. 2) Guðmundur Ragnar, maki Margrét Káradóttir. Börn þeirra eru Agatha Sif og Elísa Björg.

Útför Elísu Bjargar verður gerð frá Garðakirkju í dag, 8.janúar 2018, klukkan 13.

Umhyggja, óútskýranleg hlýja og óeigingirni eru orð sem eiga vel við um ömmu Lísu. Amma gerði alltaf allt fyrir alla og vá hvað hún gerði mikið fyrir mig.

Samband á milli ömmu og barnabarns er svo sérstakt og svo yndislega fyndið. Ég mátti alltaf gera allt sem mig langaði til hjá ömmu. Þegar ég var lítil og mér sagt að ég væri að fara í pössun til ömmu og afa þýddi það ekkert nema kósíkvöld, fullt af pitsu og gæðastundir með ömmu en hún sá ekkert athugavert við það að klóra mér, litla dekurdýrinu, á bakinu margar klukkustundir í senn.

Að gista hjá ömmu og afa „í holunni“ er eitthvað sem ég sakna enn í dag. Að vera lítil stelpa í Aratúninu: að baka vöfflur, teikna, búa til virki úr slæðunum hennar ömmu, skoða allt skartið hennar og horfa á Cartoon Network með Elísu frænku er tímabil í mínu lífi sem ég mun alltaf sakna og þykja sérstaklega vænt um.

Amma var alltaf til staðar. Hún var alltaf tilbúin til að hlusta og hún vildi ekkert meira en að allir væru glaðir. Hún hjálpaði mér í gegnum erfið tímabil bara með því að vera amma, með því að vera best.

Við elskuðum öll ömmu og hún elskaði okkur skilyrðislaust. Það er erfitt að missa einhvern sem maður elskar svona mikið en nú er amma að hvíla sig.

Hvíl í friði, elsku besta amma, og takk fyrir allt.

Indíana Nanna

Jóhannsdóttir.

Elsku amma mín.

Nú sit ég hér og hugsa hvernig ég get komið því í orð hvaða þýðingu þú hafðir fyrir mig og hvernig þú áttir þátt í að móta mig sem manneskju. Ég geri mér grein fyrir því að eflaust eru ekki allir þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga sterkar fyrirmyndir og hvað þá sterka stuðningsmenn í sínu horni en fyrir mig varst þú nákvæmlega það. Hvert sinn sem ég var hjá þér og afa Gunnari, bæði á Reykjarvíkurveginum og svo seinna meir í Aratúninu, var maður baðaður í ást, umhyggju og jákvæðni. Þú hugsaðir svo vel um börnin þín, barnabörn og barnabarnabörn enda var mikið sótt heim til þín og afa.

Fyrir barn sem og fullorðna er það ómetanlegt að finna fyrir þeirri hlýju og stuðningi sem þú gafst frá þér og mun ég aldrei gleyma því. Ég mun reyna eftir fremsta megni að veita mínu fólki sömu umgjörð í lífinu.

Þú ert klárlega ein af þöglu hetjum Íslendinga með þínu óeigingjarna starfi hjá Vímulausri æsku til margra ára, þar sem þú varst foreldrum barna innan handar hvenær sem var sólarhrings. Fyrir starf þitt varstu heiðruð með fálkaorðunni, sem var vel verðskuldað þó að í mínum huga hefði stórriddarakross verið betur við hæfi. Ég get stoltur sagt að amma mín hafi verið frumkvöðull og mikil fyrirmynd hvað varðar eitt af mikilvægustu málefnum á Íslandi. Það er alveg á hreinu að heimurinn væri örlítið betri ef fleiri væru líkari þér, amma mín.

Við þessa kveðjustund hugsa ég um allar þessar góðu minningar og átta mig betur á því að þú skapaðir einungis jákvæðar minningar. Það segir mikið um þá manneskju sem þú hafðir að geyma og hvaða áhrif þú hafðir í þessu lífi. Það eru engin orð sem geta gert þakklæti mínu fyrir það rétt skil, því ætla ég að setja mér það markmið að fylgja þínu fordæmi og skapa sem flestar jákvæðar minningar með fjölskyldu og vinum.

Hvíldu í friði, elsku amma mín, og ég bið að heilsa afa.

Gunnar Ingi Jóhannsson.

Þegar maður les minningargreinar þá eru þær einhvern veginn allar á sama veg; fólk keppist við að láta falleg orð falla um hinn látna. En það getur ekki passað, það geta ekki allir verið svona frábærir, einhverjir voru örugglega leiðinlegir lygalaupar. Það getur ekki verið að allir séu eins dásamlegir og fólk vill vera láta í minningargreinum. Hins vegar var amma mín það. Amma mín var nefnilega yndisleg kona, ekki bara eins og ömmur eiga það til að vera. Hún var fallegasta manneskja sem ég hef kynnst og minn helsti stuðningsmaður. Mesta gæfa lífs míns var að alast upp undir handleiðslu þessarar merkilegu konu, hinum megin við vegginn í húsinu. Konu sem grét af gleði yfir afrekum mínum en klappaði engu að síður fyrir lærdómsríku mistökunum. Að eiga einhvern að sem er alltaf í þínu liði, sama hverju þú finnur uppá er virkilega dýrmætt og ræktaði í mér þann hæfieika að efla aðra í kringum mig. Hún var svo miklu meira en amman sem átti alltaf ís í frystinum; hún kenndi mér að standa í lappirnar og berjast fyrir hugsjónum mínum. Hún var stóra, litla amman mín en jafnframt hornsteinn minn, sem svo margra. Enginn elskar eins og amma mín elskaði, það fann allt hennar fólk. Elsku amma, þú átt alla mína virðingu og ást.

Elísa B. Guðmundsdóttir.

Kær vinkona og samstarfsmaður til margra ára er látin. Elísa eða Lísa eins og hún var oftast kölluð, var um langt árabil einn ötulasti málsvari vímuvarna á meðal barna og unglinga á Íslandi. Lísu kynntist ég á fyrstu árum Vímulausrar æsku, sem stofnuð var 1986, þar sem hún varð fyrsti framkvæmdastjóri þessara merku Foreldrasamtaka og gegndi því starfi samfellt í 23 ár eða þar til starfsævinni lauk árið 2009. Framlag Lísu til forvarna verður seint þakkað til fulls, atorka hennar, óbilandi tiltrú og framganga í vímuvarnamálum gerði samtökin að því forystuafli forvarna sem Vímulaus æska varð á starfstíma Lísu. Þar stóð Lísa í fremstu víglínu og að baki hennar það góða fólk sem hún laðaði til starfsins, ósérhlífin og vakandi yfir úrræðum til handa fjölskyldum sem leituðu stuðnings í stríði þeirra við vímuefnaneyslu barna sinna. Fyrir utan að sinna þeim sem óskuðu eftir aðstoð urðu ófáar ferðir Lísu og samtöl við ráðafólk þjóðarinnar og annað fagfólk sem Lísa taldi geta stutt við aukið forvarnastarf og lagt lið því markmiði Vímulausrar æsku að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu barna.

Lísa kveinkaði sér aldrei þrátt fyrir mikið álag. Styrkur hennar í daglegu amstri skilaði sér ávallt til fulls og meðfædd útgeislun og óbilandi metnaður fylgdu henni hvar sem hún fór. Það er mikill heiður að hafa kynnst þessari baráttukonu þegar mest á reyndi í málaflokki vímuvarna. Samstarf okkar Lísu hélst óslitið alla tíð og fyrir það er ég þakklátur en ekki síður fyrir sanna vináttu, trúnað og traust sem aldrei skyggði á.

Minningin um góðan vin og sanna baráttukonu lifir. Sendum fjölskyldu Lísu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðni Björnsson og

fjölskylda.