Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Borgarlína sem er heiti á nýju kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu kostar hvert heimili á svæðinu 1-2 milljónir kr.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Borgarlína sem er heiti á nýju kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu kostar hvert heimili á svæðinu 1-2 milljónir kr., að því er Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, hefur reiknað út. Ef tap verður á rekstri borgarlínunnar gæti þáttur hvers heimilis í því numið tugum þúsunda til viðbótar stofnkostnaðinum á hverju ári, um ókomin ár.

Niðurstaða Frosta er að fólk gæti þurft að fórna margra mánaða vinnu í borgarlínuna. Gagnrýnin kemur fram í grein á vef hans, frostis.is.

Lengur í vinnuna

Frosti segir að borgarlínan muni ekki spara fólki tíma heldur muni hún sólunda tíma allra íbúa á svæðinu, hvort sem þeir nota hana eða ekki. Þeir sem ferðast með borgarlínu verði að meðaltali 15-20 mínútum lengur að komast leiðar sinnar en þeir sem ferðast í rafbíl. Það þýði 67 klukkustunda tap á einu ári, hjá fólki sem fer í vinnu einu sinni á dag. Þeir sem meta tíma sinn mikils muni því forðast að nota borgarlínu nema yfirvöld grípi til aðgerða til að minnka þennan tímamun, til dæmis með því að fækka akreinum fyrir almenna umferð og fækka bílastæðum.

Frosti telur að borgarlína verði alls ekki hagkvæm samgöngubót. Hún sé ekki vistvænni en almennir rafbílar og muni ekki auka lífsgæði íbúa á svæðinu. Hún muni hins vegar gera þá alla töluvert fátækari, bæði af tíma og peningum.