Ólíkindatól Ólafía Þórunn.
Ólíkindatól Ólafía Þórunn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ég sakna sjónvarpsviðtala við Ólaf Stefánsson handboltamann. Ummæli hans, ekki síst strax eftir kappleiki, voru iðulega eins og fimm þúsund bita púsluspil sem eftir á að setja saman.

Ég sakna sjónvarpsviðtala við Ólaf Stefánsson handboltamann. Ummæli hans, ekki síst strax eftir kappleiki, voru iðulega eins og fimm þúsund bita púsluspil sem eftir á að setja saman. Hann vitnaði á víxl í löngu látna heimspekinga og kvikmyndir sem enginn hefur séð og hafa jafnvel aldrei verið gerðar. Sjónvarpsefni á heimsmælikvarða.

Eftir að Ólafur lagði harpixið á hilluna hefur enginn íslenskur íþróttamaður náð þessum hæðum í sjónvarpsviðtölum og erfitt að sjá fyrir sér að það komi til með að breytast.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur og nýbakaður íþróttamaður ársins (eða íþróttamanneskja ársins, eins og Rás 2 myndi kalla það), hefur reyndar átt góða og lofandi spretti frá því hún skaust fram á sjónarsviðið. Ólafía er augljóslega einlæg og óhrædd við að tjá sig um hin ólíklegustu málefni. Hver átti til dæmis von á því að hún færi í óspurðum fréttum að tala um brjóstanudd í beinni útsendingu hjá Gísla Marteini? Og það í miðri #metoo-byltingu! Aumingja Gísli var snöggur að skipta um umræðuefni enda hefur hitinn ugglaust verið við suðumark í stjórnrými útsendingarinnar. „Eigum við að henda í Afsakið hlé?“

Orri Páll Ormarsson