Guðjón Tómasson
Guðjón Tómasson
Eftir Guðjón Tómasson: "Kjararáð verður að leggja niður og draga til baka allar ákvarðanir þess."

Séra Jón er að sjálfsögðu embættismaður og nýtur þar af leiðandi ákvarðana kjararáðs en hinn Jón er bara almennur launþegi á íslenskum vinnumarkaði og nýtur því kjara sem ákvarðast af ASÍ og Samtökum atvinnulífsins. Nú, á þessu ári sem er ljúka var ákveðið að leiðrétta þann mismun sem verið hefur milli opinbera kerfisins og þess almenna varðandi greiðslur vinnuveitenda til viðkomandi lífeyrissjóða. Í upphafi var lífeyriskerfið aðeins fyrir opinbera starfsmenn en kringum 1970 voru síðan stofnaðir sjóðir fyrir almenna vinnumarkaðinn þar sem launþegar greiddu 4% og vinnuveitendur 6% og var það þannig fram til 1. júlí sl. Þá tók við nýtt samkomulag, þar sem framlag vinnuveitenda hækkar strax í 8% og síðan í nokkrum áföngum í 11,5% á þremur árum. Mér er til efs að þessar breytingar geti nema að litlu leyti náð tilgangi sínum. Ástæðan er einföld: Kjararáðið er skipað fimm aðalmönnum og fimm varamönnum, þar sem Alþingi skipar þrjá aðalmenn og þrjá varamenn. Hæstiréttur skipar síðan einn aðalmann og einn varamann. Að lokum skipar ráðherra efnahagsmála einn aðalmann og einn varamann. Já, þannig skipuðu kjararáði er síðan ætlað að ákvarða laun opinberra starfsmanna án nokkurs samráðs við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, sem fara með samningsumboð fyrir meginþorra landsmanna.

Háttalag kjararáðs, að byrja á því að hækka laun alþingismanna um 45%, sýnir best hvað ráðið er á miklum villigötum. Að láta sér detta það í hug að þjóðin geti látið það óátalið að ausið sé úr takmörkuðum sameiginlegum sjóðum til embættismanna og alþingismanna á sama tíma og laun almennra launþega hækka rétt innan við 10%. Og það sem er allra verst er það að það kemur í veg fyrir allar hækkanir til þeirra sem mest þurfa á því að halda, öryrkja og eldri borgara. Nei, þessari valdníðslu kjararáðs verður að linna. Hreinlegast væri að fella úr gildi öll lagaákvæði er varða kjararáðið. Ekki batnaði vitleysan þegar biskup Íslands fór fram á að það tæki laun biskups til endurákvörðunar. Endurákvörðunin hljóðaði upp á afturvirka 18% hækkun frá fyrsta janúar 2017 og fær því með janúarlaununum sínum smábónus upp á 3,3 milljónir. Þessi vinnubrögð kjararáðs eru langt frá því sem gæti talist siðlegt, þótt ég efist ekki um að ráðið vinni eftir þeim reglum sem því eru settar. Mér finnst það liggja ljóst fyrir að leggja verði kjararáð niður og draga til baka allar ákvarðanir þess á árinu sem er að renna sitt skeið. Síðan mætti hugsa sér að allar ákvarðanir til launabreytinga hjá opinberum starfsmönnum þyrftu að hljóta samþykki ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Þannig mætti komast hjá því að setja öll launamál í landinu í hreint uppnám, eins og kjararáð hefur þegar gert með þessum ákvörðunum sínum sem standast enga siðfræðilega skoðun.

Að lokum vil ég segja ykkur smá sögu um það, hvernig ég kynntist siðfræði fyrst. Fyrir 63 árum var ég á Landspítalanum í aðgerð á vinstri mjöðm og þar sem ég mátti ekki stíga í fótinn næstu mánuði var mér ekki hleypt út af spítalanum fyrr en ég var fær um að ganga upp og niður stiga á þessum hækjum, sem voru upp í handarkrika. Já og það var ekki fyrr en þremur vikum eftir aðgerð. Á þeim tíma var heimavist hjúkrunarnema á rishæð Landspítalans og á þessum æfingatímum kynntist ég mörgum hjúkrunarnemum sem aðstoðuðu við æfingarnar, allt undir styrkri stjórn Snorra Hallgrímssonar og fröken Jóhanna sá um. Þá fékk ég meðal annars lánaða bók sem var á norsku og fjallaði um siðfræði og varð bókstaflega heillaður af henni. Mér fannst hún einfaldlega opna fyrir mér samhengi hlutanna og þýðingu þeirra á allt umhverfi sitt. Já, og þess vegna finnst mér það vera til háborinnar skammar að sjá framferði biskups Íslands eins og að framan er getið. Kjararáð verður að leggja niður og draga til baka allar ákvarðanir þess. Um annað er ekki að ræða ef einhver sátt á að vera í þjóðfélaginu. Nei, enga sérstaka séra Jóna meir.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Guðjón Tómasson