Hér er gripið niður í kaflann Íslenskar lækningabækur - Dyflinnarbók í fyrri hluta Pipraðra páfugla: „Matreiðslukverið í Dyflinnarbók er eitt sinnar tegundar á Íslandi í lok miðalda.

Hér er gripið niður í kaflann Íslenskar lækningabækur - Dyflinnarbók í fyrri hluta Pipraðra páfugla: „Matreiðslukverið í Dyflinnarbók er eitt sinnar tegundar á Íslandi í lok miðalda. Því gæti maður ályktað sem svo að það væri eindæma verk og ekki marktækt um matarmenningu þess tíma. En á móti mælir að áhöld og búnaður á biskupsstólunum og vísanir í bókmenntunum benda til þess að íslensk hástétt hafi þegar við lok 15. aldar og í upphafi þeirrar 16. samið sig að háttum erlends aðals og borgara, hástéttarinnar. Farmskrár frá 15. og 16. öld eru vitnisburður um að erlendir kaupmenn hafa flutt inn krydd (sbr. Íslenzkt fornbréfasafn XVI: 151-152). Og síðast en ekki síst er Dyflinnarbók dágóður vitnisburður um stéttgreint mataræði hér á landi, venjur sem virðast hafa tíðkast lengi a.m.k. allt til þess er Þórður Þorláksson tók við embætti biskups á síðari helmingi 17. aldar. [...] sendi hann pantanir sínar til kaupmannsins á Eyrarbakka, þar sem meiri hluti þess sem hann vildi fá var sams konar spíss og haft var í hávegum á velmektardögum Skarðverja á 14. og 15. öld.“

Í síðari hluta bókarinnar eru 23 uppskriftir, þ.ám. af „hæns“ og sósu fyrir herramenn:

Hæns

Hvernig á að undirbúa kjúklinga með mismunandi kryddi

Maður skal skera hæns í smástykki og sjóða það í vatni og mala pipar, kanil, sefran og hveitibrauð, og lifrina soðna, og láta aftur í soðið með ediki og salti mátulega.

Latneska fyrirsögnin, Quomodo temp<er>entur pulli cum diversis speciebus, þýðir: hvernig skal undirbúa kjúklinga með mismunandi kryddi. Hliðarfyrirsögn er: Hæns.

Sósa fyrir herramenn

Hvernig skal laga sósu fyrir húsbændur og hversu lengi hún dugar

Geroforsnagla skal taka og múskat, kardemonium, pipar, kanel, ingifer, sitt jafn vægi af hverju, utan kanel. Skal vera jafn þykkt við allt hitt annað og svo mikið steikt brauð sem allt það er fyrir er sagt, og skera það allt saman, og mala með sterku ediki, og láta í legil. Það er þeirra sals og dugir um eitt misseri.

Latneska fyrirsögnin hljóðar svo: Quomodo temperetur salsum dominorum et *quam diu durabit og þýðir: Hvernig skal laga sósu fyrir húsbændur og hversu lengi hún dugar.

geroforsnagli = naglagras, nagli, nellika, negull; Harpestræng: gørfærs naglhæ.

ingifer = engifer

legill = drykkjarílát, e.k. flaska.

Þessi sósa sem í dönsku uppskriftunum er sögð góð fyrir herramenn líkist gulri sósu (cameline sauce) í frönskum og enskum uppskriftum.