Júlíus Hafstein
Júlíus Hafstein
Júlíus Hafstein, fyrrverandi sendiherra og áður borgarfulltrúi í Reykjavík, gefur kost á sér á lista sjálfstæðismanna í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Júlíus Hafstein, fyrrverandi sendiherra og áður borgarfulltrúi í Reykjavík, gefur kost á sér á lista sjálfstæðismanna í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Uppstillingarnefnd flokksins er að undirbúa tillögu að lista sem lögð verður fyrir fund fulltrúaráðsins síðar í mánuðinum.

„Ég sendi mitt nafn inn, eins og tuttugu aðrir, eftir að kjörnefndin óskaði eftir að menn létu vita af sér. Því fylgdu engin skilyrði og ég get engu svarað um það hver niðurstaða kjörnefndar verður,“ segir Júlíus.

Hann starfaði í borgarmálum í Reykjavík í sextán ár, þar af í átta ár sem borgarfulltrúi. Eftir að hann flutti í Kópavog hefur hann starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar.

Áhugaverður hópur

Sjálfstæðisflokkurinn er nú með fimm bæjarfulltrúa í Kópavogi. Þeir gefa allir kost á sér áfram, þar á meðal Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sem var oddviti listans í síðustu kosningum. Alls gáfu 22 kost á sér þegar uppstillingarnefndin auglýsti eftir framboðum en það er jafnt þeim sætafjölda sem þarf að fylla.

Ragnheiður S. Dagsdóttir, formaður uppstillingarnefndar, segir að þetta sé áhugaverður hópur. Öllum frambjóðendum hafi gefist kostur á að hitta nefndina og nú sé verið að setja saman tillögu að framboðslista. helgi@mbl.is