Stigahæst Cherise Michelle Daniel var atkvæðamikil fyrir Hauka í sigrinum á Stjörnunni í gær en hún skoraði alls 28 stig í leiknum, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hér sækir hún að körfu Stjörnunnar í leiknum.
Stigahæst Cherise Michelle Daniel var atkvæðamikil fyrir Hauka í sigrinum á Stjörnunni í gær en hún skoraði alls 28 stig í leiknum, tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hér sækir hún að körfu Stjörnunnar í leiknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Keppni í Dominos-deild kvenna í körfubolta hófst á nýjan leik eftir jólafrí á laugardaginn, en heil umferð var leikin um helgina. Umferðinni lauk með leik Hauka og Stjörnunnar í gærkvöldi.

Á Ásvöllum

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Keppni í Dominos-deild kvenna í körfubolta hófst á nýjan leik eftir jólafrí á laugardaginn, en heil umferð var leikin um helgina. Umferðinni lauk með leik Hauka og Stjörnunnar í gærkvöldi. Haukar mættu til leiks gegn Stjörnunni án síns stigahæsta leikmanns í deildinni í vetur, Helenu Sverrisdóttur, en hún var lánuð til slóvakíska liðsins Good Angels Kosice skömmu fyrir jól og mun hún leika þar fram í byrjun febrúar. Haukar létu það ekki á sig fá að leika án Helenu og niðurstaðan varð 82:76-sigur Hauka.

Stjarnan var með frumkvæðið í leiknum fram í miðbik fjórða leikhluta, en Danielle Victoria Rodriguez lék á als oddi í fyrri hálfleik og skoraði 24 stig í fyrri hálfleiknum. Þegar líða tók á leiknn dró af Danielle og bitnaði það svo um munar á sóknarleik Stjörnunnar sem hikstaði mikið undir lok leiksins.

Þegar um það bil sex mínútur voru eftir af leiknum var Stjarnan 15 stigum yfir og fátt sem benti til annars en að gestirnir úr Garðabænum færu með sigur af hólmi. Einkum og sér í lagi þegar litið er til þess að Hauka hafa alla jafna leitað til Helenu þegar liðið er í slíkum vandræðum sem liðið hafði ratað í framan af leiknum.

Vörn Hauka þéttist hins vegar svo um munaði síðustu sex mínútur leiksins og leikmenn Stjörnunnar tóku slæmar ákvarðanir á lykilaugnablikum í leiknum. Bæði í sóknarleiknum og þegar leikmenn liðsins fengu dæmdar á sig óíþróttamannslegar villur sem urðu til þess að Haukar fengu auðveld stig á töfluna. Haukar komust yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og lönduðu að lokum sex stiga sigri.

Valskonur héldu sínu striki

Valur heldur áfram fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar eftir öruggan 85:52-sigur liðsins gegn Breiðabliki á laugardaginn. Valur skipti um bandarískan leikmann í liði sínu milli jóla og nýárs. Aalyah Whiteside sem gekk til liðs við liðið skömmu fyrir áramótin var stigahæst í leiknum með 19 stig. Ivory Crawford var hins vegar atkvæðamest í liði Breiðabliks með 18 stig.

Keflavík heldur í við Val í toppbaráttu deildarinnar og náði fjögurra stiga forystu á Breiðablik í baráttu liðanna um sæti í úrslitakeppni deildarinnar með sannfærandi 80:53-sigri sínum gegn Snæfelli.

Snæfell án stiga í tíu mínútur

Brittanny Dinkins skoraði mest fyrir Keflavík eða 27 stig, en Kristen Denise McCarthy dró vagninn í sóknarleik heimakvenna úr Stykkishólmi með 23 stig. Athygli vakti að Snæfelli tókst ekki að skora stig í fjórða og síðasta leikhluta leiksins. Kefavík skoraði aftur á móti 20 stig í leikhlutanum. Keflavík og Haukar eru jöfn að stigum með 20 stig í öðru til þriðja sæti deildarinnar. Snæfell er aftur á móti í næstneðsta sæti deildarinnar með 10 stig.

Skallagrímur er í seilingarfjarlægð frá sæti í úrslitakeppninni, en liðið hafði betur, 76:61, gegn lánlausu liði Njarðvíkur. Carmen Tyson-Thomas fór fyrir sóknarleik Skallagríms, en hún skoraði 25 stig. Shalonda R. Winton átti stórleik fyrir Njarðvík, en hún skoraði 34 stig fyrir liðið.

Skallagrímur er í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig eftir þennan sigur, en Borgnesingar eru tveimur stigum á eftir Stjörnunni og Breiðabliki sem hafa hvort um sig 16 stig og sitja eins og sakir standa í fjórða til fimmta sæti deildarinnar sem er neðsta sætið sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Njarðvík er hins vegar áfram stigalaus á botni deildarinnar.