Á miðjum aldri finnur Víkverji vel hve öflugt ýmsar bækur sem hann las á barnsaldri mótuðu viðhorf hans til lífs og tilveru. Kannski hefur ekkert haft meiri áhrif þegar öllu er á botninn hvolft.

Á miðjum aldri finnur Víkverji vel hve öflugt ýmsar bækur sem hann las á barnsaldri mótuðu viðhorf hans til lífs og tilveru. Kannski hefur ekkert haft meiri áhrif þegar öllu er á botninn hvolft. Eitthvað síaðist inn í undirmeðvitundina og í álitamálum líðandi stundar finnur Víkverji stundum, ef gaumgæfilega er hugsað, að afstaða hans til hlutanna á rætur sínar að rekja í barnabækur, Biblíusögurnar og fleira góðgæti. Sitthvað merkilegt sem kennarar í barnaskóla sögðu situr jafnvel eftir og er leiðarljós enn í dag – þótt annað hafi skolast burt og sé gleymt og grafið.

Í foreldrahúsum um hátíðarnar fann Víkverji í kössum og hillum ýmsar bækur bernskunnar sér merktar. Ein þeirra sérstaklega rifjaði upp góðar minningar, sagan Jón Elías eftir þau Jennu Jensdóttur og Hreiðar Stefánsson. Þar segir frá ungum dreng utan af landi sem kemur til nokkurra vikna dvalar hjá ömmu sinni í Reykjavík. Ýmislegt drífur á daga drengsins í borginni svo sem að á förnum vegi hittir hann gamlan blindan mann sem vantar að einhver fylgi honum yfir götu, frá heimili sínu að næsta strætóstoppi. Skemmst er frá því að segja að þetta rennur stráknum til rifja, svo hann tekur upp hjá sjálfum sér að fylgja manninum þennan spöl næstu daga og tekst með þeim einlæg og góð vinátta.

Sagan af Jóni Elíasi er frá árinu 1976 og mjög sennilegt er að liðsinni ungs drengs við gamlan mann væri í dag allt öðrum augum litin. Brýnt er fyrir börnum að gefa sig helst ekki að ókunnugu fólki og svo er mjög sennilegt að blinda manninum hefði verið komið í „sérstök úrræði“ svo þekktur orðaleppur vandamálafræðinga sé notaður. – En þetta á ekki að vera svoleiðis og mikilvægt er að vinda ofan af vitleysunni. Boðskapurinn úr umræddri bók er sá að við höfum öll skyldur við næsta mann, velferð má aldrei að öllu leyti fela opinberum aðilum þó þróun mála í nútímanum sé ískyggilega mikið í þá áttina.