Vangaveltur „Allt eru þetta gríðarlega stórar tilfinningar sem Evripídes ber á borð, og vekja spurningar eins og hvað er réttlæti, og hvernig er réttlætinu fullnægt? Hvað er eignarréttur? Eigum við rétt á að hefna okkar og framfylgja þannig einhvers konar réttlæti?“, segir Harpa um verkið.
Vangaveltur „Allt eru þetta gríðarlega stórar tilfinningar sem Evripídes ber á borð, og vekja spurningar eins og hvað er réttlæti, og hvernig er réttlætinu fullnægt? Hvað er eignarréttur? Eigum við rétt á að hefna okkar og framfylgja þannig einhvers konar réttlæti?“, segir Harpa um verkið. — Ljósmynd / Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Það er merkileg tilviljun að Borgarleikhúsið skuli frumsýna gríska harmleikinn Medeu á sama tíma og samfélagið allt er að vakna til vitundar um hvað áreitni og ofbeldi í garð kvenna er útbreiddur vandi.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það er merkileg tilviljun að Borgarleikhúsið skuli frumsýna gríska harmleikinn Medeu á sama tíma og samfélagið allt er að vakna til vitundar um hvað áreitni og ofbeldi í garð kvenna er útbreiddur vandi. Verkið hefur nefnilega lengi verið í uppáhaldi hjá femínistum enda er Medea einstök söguhetja í leikhúsbókmenntunum; fremur skelfilega glæpi en er með þeim að sýna að hún lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Harpa Arnardóttir leikstýrir sýningunni og segir hún að Medea hafi verið lengi í burðarliðnum: „Mig hefur lengi langað til að rannsaka þetta verk en endanleg ákvörðun um uppsetningu þess var tekin í byrjun árs 2017. Ég fann nokkuð sterkt fyrir þessari sýningu strax í upphafi enda liggja djúpir og ögrandi straumar inni í þessu verki.“

Sterk líkamleg nærvera

Hrafnhildur Hagalín þýddi verkið og vann leikgerð ásamt Hörpu. „Það má segja að persónur verksins séu nokkuð sterkar erkitípur: Þar er að finna seiðkonuna, hetjuna, konunginn, ferðalanginn, sjáandann og brúðurina og svo auðvitað börnin. Ég valdi þessari sýningu því frásagnarmáta ævintýrisins. Við erum stödd í tíma þar sem eðli draumsins ræður ríkjum, hálfpartinn eins og í ævintýri eða helgileik, og þannig tekst okkur ágætlega að spanna þessi 2.400 ár sem hafa liðið frá því verkið var samið. Þetta er mikið textaverk og ég legg áherslu á sjónræna útfærslu og sterka líkamlega nærveru í þessari sýningu til að höfða beint til undirmeðvitundarinnar og virkja þá miklu visku sem hún býr yfir.“

Leikstjóri og þýðandi hafa haldið tryggð við klassíska gríska formgerð Medeu . Verkið er í sex þáttum og hver þáttur er svipað uppbyggður: tvær sögupersónur hittast á sviðinu hverju sinni en kórinn tekur til máls í lok hvers þáttar og tjáir sig um það sem fyrir augu ber – er eins og vitni að þeim hörmungum sem dynja á söguhetjunum, en getur engu breytt.

Tvískiptur salur

Filippía Elíasdóttir gerir leikmynd og búninga og upplýsir Harpa að ein af fyrstu ákvörðunum sem teknar voru varðandi leikmyndina var að skipta áhorfendasalnum í tvennt og kynjaskipta honum. „Talan 2 var okkur leiðarljós, meðal annars í ljósi tvíhyggjunnar sem Grikkirnir voru svo hrifnir af,“ segir Harpa. „Við þekkjum andstæðupör eins og appólónískur og dýónísiskur; maður og kona; ást og hatur; góður og vondur; gerandi og þolandi; siðmenning og villimennska; ástríður og skynsemi, en það má setja spurningarmerki við tvíhyggjuna í sjálfu sér. Erum við sátt við þessa aðgreiningu eða viljum við endurskoða hana? Evripídes er klókur höfundur. Hann karlgerir kvenhetjuna og kvengerir karlhetjuna og opnar þar með fyrir okkur dyr að margslungnari veruleika. Við þurfum að sætta andstæð öfl innra með okkur, því þannig hlúum við að mennskunni. Í þessu ferli er ég mikið búin að hugsa um möntru sem hefur verið með mér lengi en hún er svona: „Í ljósi er myrkur, en takið ekki myrkrið sem myrkur. Í myrkri er ljós en takið ekki ljósið sem ljós. Ljós og myrkur eru par eins og fremri og aftari fótur á göngu“. Mér finnst þessi mantra segja allt sem segja þarf í þessum efnum.“

Ógnin vofir yfir

Harpa hefur uppgötvað marga fleti á Medeu sem eiga fullt erindi við nútímamanninnn. Hún nefnir þá yfirvofandi ógn sem er í verkinu, enda verður snemma ljóst að Medea hyggst drepa börnin sín: „Það er að sjálfsögðu einhvers konar gereyðing og kallast á við þær hættur sem við stöndum frammi fyrir í dag varðandi loftslagsmálin og mögulega eyðingu á lífríki jarðar. Medea kemur frá Kolkis – er útlendingur – og þau Jason og börnin koma sem flóttamenn til Kórinþu. Jason er fulltrúi siðmenningarinnar, og laga mannanna, en hún aftur á móti fulltrúi hins villta og óþekkta; hún er seiðkona og þekkir lögmál náttúrunnar og kannski er hún líka fulltrúi eðlisins sem leynist innra með okkur öllum,“ segir Harpa og leiðir hugann að því að mannkynið á sjálfsagt eftir að takast á við enn stærri flóttamannavanda þegar kemur að þjóðflutningum af völdum loftslagsbreytinga. „Verkið talar firnasterkt inn í þann veruleika.“

Kona sem ýtt er til hliðar

Evripídes skrifaði verkið fyrir leikritakeppni sem haldin var árið 431. Sagan segir frá hofgyðjunni Medeu, sem hafði gengið að eiga Argóarfarann Jason sem hún hjálpaði við að krækja í gullna reyfið. Hjónin eru komin til Kórinþu eftir að hafa verið send í útlegð af bróður Jasonar. Medea hefur fórnað öllu fyrir ástina, og er komin til ókunnugs lands til að hefja nýtt líf, en þá fær Jason þá hugmynd að kvænast annarri konu, dóttur Kórinþukonungs og þar með bæta samfélagsstöðu sína. Fyrir á Jason tvö börn með Medeu og lofar hann að sameina fjölskyldurnar og taka Medeu sem hjákonu.

Það dylst ekki áhorfendum að Medea er bæði móðguð, sár og reið, og hún leggur á ráðin um að hefna sín á Jasoni. Þegar upp er staðið hefur Medea bæði drepið nýja kvonfangið hans Jasonar, föður hennar konunginn og börnin sín tvö.

Harpa líkir uppsetningu verksins við öræfatúr. „Leikstjórinn er í hlutverki leiðangursstjóra um þessi öræfi mennskunnar; afbrýðisemi, hefndarþorsta, hatur, útskúfun. Allt eru þetta gríðarlega stórar tilfinningar sem Evripídes ber á borð, og vekja spurningar eins og hvað er réttlæti, og hvernig er réttlætinu fullnægt? Hvað er eignarréttur? Eigum við rétt á að hefna okkar og framfylgja þannig einhvers konar réttlæti? Íslenskan opinberar merkilega hugsun í þessu samhengi. Við eignumst börnin. Við eignumst manninn og konuna, eiginkonuna. Er hægt að slá eign sinni á fólk og jafnvel land? Fáum við þetta ekki miklu frekar lánað til þess að hlúa að og bera umhyggju fyrir?“

Núna þegar uppfærslan er við það að fæðast er Harpa reynslunni ríkari, og farin að sjá Medeu í öðru ljósi en þegar lagt var af stað. „Á lokametrunum í þessum öræfatúr finnst mér ég hafa öðlast skilning á hve mikilvægt það er að geta fyrirgefið til að þroskast í lífinu. Mér finnst það líka skína út úr verkinu hvernig sakleysið er lífspúlsinn, og hjartsláttur jarðarinnar. Sakleysið er púls sem við getum orðið viðskila við en alltaf nálgast aftur ef við viljum. Það er eins og töfrabarnið: heilagt í eðli sínu eins og hin stóra kosmíska fjölskylda. Móðir jörð, faðir himinn, amma tungl og bræður og systur okkar stjörnurnar.“