Valhöll Leiðtogaprófkjör sjálfstæðismanna er framundan.
Valhöll Leiðtogaprófkjör sjálfstæðismanna er framundan. — Morgunblaðið/RAX
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Nú þegar tveir dagar eru í að framboðsfrestur vegna þátttöku í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík rennur út hafa aðeins tveir frambjóðendur tilkynnt framboð, borgarfulltrúarnir Áslaug María Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon.

Leiðtogaprófkjörið fer fram 27. janúar nk. en kjörnefnd gerir tillögu að skipan annarra sæta á listanum.

Búist var við tilkynningu frá Jóni Karli Ólafssyni, framkvæmdastjóra hjá Isavia og formanni íþróttafélagsins Fjölnis, sem hefur verið orðaður við framboð, um hvort hann hyggist fara fram í borginni, en í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi sagðist hann enn vera að íhuga málið, og má því vænta þess að hann gefi það út í dag hvort hann gefi kost á sér eða ekki.

Eyþór Arnalds fjárfestir hefur ekki heldur gefið út hvort hann ætli í framboð eða ekki, en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar og tilraunir mbl.is um helgina til að ná í hann báru heldur ekki árangur.

Björn Jón Bragason sagnfræðingur kveðst vera að íhuga sína stöðu. „Þó það sé klisjulegt að segja það, þá hafa nokkrir komið að máli við mig,“ segir Björn Jón í samtali við Morgunblaðið. Hann vildi þó ekkert segja um hvort af framboði hans yrði.

Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að enginn frambjóðandi væri búinn að skila formlega inn framboði og átti ekki von á að framboð bærist fyrr en á síðasta degi framboðsfrestsins.

Unnur Brá fer ekki fram

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því á laugardag að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér í Reykjavík. „Ég er afar þakklát ykkur sem hafið skorað á mig og lýst yfir stuðningi. En staðreyndin er sú að ég er með hugann við landsmálin og því ekki rétt af mér að snúa aftur í sveitarstjórnarmálin,“ skrifaði Unnur Brá á Facebook-síðu sína á laugardag.