Viðgerðir Framkvæmdir standa fyrir dyrum í Háaleitisskóla í Álftamýri.
Viðgerðir Framkvæmdir standa fyrir dyrum í Háaleitisskóla í Álftamýri.
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar við Háaleitisskóla í Álftamýri á næstu mánuðum en ráðist verður í steypuviðgerðir á húsinu, endurbætur og viðgerðir á glugga- og hurðakerfi hússins og viðgerðir á þökum auk þess sem húsið verður málað.

Tími kominn á viðhald

Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla, segir húsnæðið komið til ára sinna en taka á útveggi í stjórnunarrýmum skólans í gegn, kaffistofu starfsfólks og útveggi á tveimur göngum skólans.

„Það er löngu kominn tími á viðhald Háaleitisskóla í Álftamýri,“ segir Hanna Guðbjörg en um 350 nemendur eru í Háaleitisskóla, í fyrsta upp í tíunda bekk, og um 50 starfsmenn. „Þetta er 50 ára gamalt hús sem hefur ekki fengið neitt viðhald.“

Spurð hvort framkvæmdirnar komi til með að raska skólastarfinu, segist Hann Guðbjörg ekki eiga von á miklu raski.

„Við ætlum að hafa sem minnst rask, það er ekki verið að fara mikið í skólastofurnar. Við förum bara bjartsýn inn í þetta verkefni og fólk er tilbúið að ganga inn í þetta þó að það kosti smá rask og kalli á tilfærslur á einhverju kennslurými þegar þar að kemur,“ segir hún.

Hanna Guðbjörg segir að framkvæmdirnar geti náð eitthvað inn á sumarið, en í útboðslýsingu verksins eru verklok áætluð um miðjan ágúst á þessu ári.