Hálft ár í stjórnarmyndunarþref þætti vandræðalegt hér

Landinn hafði af því áhyggjur að seint og illa myndi ganga að mynda stjórn eftir að önnur stjórnin í röð sat ekki út kjörtímabilið. Sú seinni fór svo fljótt að segja má að hún hafi sprungið á fyrstu metrunum. Við Íslendingar erum óvanir pólitískum hryðjuverkum sem betur fer og þess vegna tókst svona illa til. Björt framtíð spennti á sig stjórnarsprengjubeltið og sprengdi það á næturfundi með sjálfri sér. Ekkert var út á sprengjugerðina sjálfa að setja því aðeins var um rúmlega 1% eftir af Bjartri framtíð þegar komið var að kjósendum. En vegna allra þessara sviptinga og flokkagers á þingi í kjölfarið óttuðust margir, ekki síst þeir sem óttast allt sem upp kemur, að seint og illa tækist að mynda ríkisstjórn.

Kosið var seint í október og ný stjórn var komin í upphafi aðventu.

Horfa má til samanburðar til Þýskalands. Það er um sumt burðugra land en Ísland og hefur á einni öld náð að starta tveimur heimsstyrjöldum á meðan eyjarskeggjar hér hafa aðeins slegið í tvö eða þrjú landhelgisstríð. Vissulega er stærðarmunur á þessum þjóðum nokkur, en það má vera innlegg í umræðuna að íslenskir unnu sín landhelgisstríð á meðan Þjóðverjar töpuðu báðum heimsstyrjöldunum. Þjóðverjar kusu í lok september, heilum mánuði á undan Íslendingum. Og þeir eru enn ekki búnir að mynda stjórn í Berlín. Eitthvað hefðum við sagt um okkur. En á mbl.is um helgina var sagt frá því að nú væru hafnar könnunarviðræður um stjórnarsamstarf. Fráfarandi stjórn er samsteypustjórn flokkanna tveggja sem nú ætla að hefja könnun á samstarfsmöguleikum.

Ætla mætti að flokkar sem hafa setið saman í stjórn í fjögur ár ættu að kannast sæmilega hver við annan. En vandinn er sá að þýskir jafnaðarmenn höfðu áður lýst því yfir að endurnýjað samstarf við Kristilega demókrata kæmi ekki til greina í ljósi slæmrar útkomu Jafnaðarmannaflokksins í kosningunum. Í fréttinni sagði: Angela Merkel, kanslari landsins og leiðtogi Kristilegra demókrata, sagðist í dag bjartsýn á að henni tækist að mynda samsteypustjórn með Jafnaðarmannaflokknum.

„Ég held að þetta sé mögu-legt. Við munum vinna mjög hratt og af einurð,“ sagði kanslarinn.

Mörg mál þarf að leysa. Þar á meðal hvað gera eigi í málum yfir einnar milljónar hælisleitenda í landinu sem komið hafa þangað síðan 2015. Í fréttinni sagði að gengju væntingar frú Merkel eftir gæti sama stjórnin verið komin á (sama) koppinn aftur í mars eða apríl. Hálfu ári eftir kosningar!