[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markametið Kristján Jónsson kris@mbl.is Bandaríski geimfarinn, Neil Armstrong, lét þau ummæli falla árið 1969 að hann væri að taka stutt skref sem þó væri risastökk fyrir mannkynið.

Markametið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bandaríski geimfarinn, Neil Armstrong, lét þau ummæli falla árið 1969 að hann væri að taka stutt skref sem þó væri risastökk fyrir mannkynið. Þegar Guðjón Valur Sigurðsson skaut boltanum í gegnum klofið á þýska markverðinum, Andreas Wolff, úr vítakasti á 47. mínútu í Ulm í gær, þá hafði það lítið að segja í landsleik Þjóðverja og Íslendinga sem Þjóðverjar unnu 30:21. Hins vegar var markið sögulegt fyrir handboltaíþróttina því Guðjón sló þar með markamet Ungverjans Peters Kovács. Guðjón hefur nú skorað 1.798 mörk fyrir Ísland í A-landsleikjum og er orðinn markahæsti landsliðsmaður í handknattleik frá upphafi samkvæmt samantekt Ívars Benediktssonar sem birt var í Morgunblaðinu hinn 1. mars á síðasta ári.

Guðjón, sem er fyrirliði landsliðsins, lék í gær sinn 343. A-landsleik en fyrsta landsleikinn lék hann í desember 1999, þá tvítugur að aldri. Við þessi tímamót hafði Morgunblaðið samband við Þorbjörn Jensson, fyrrverandi landsliðsmann og fyrrverandi landsliðsþjálfara, en hann gaf Guðjóni tækifæri með A-landsliðinu á sínum tíma. „Þetta er alveg frábært og sýnir hversu frábær íþróttamaður Guðjón Valur er. Gaman að því fyrir mig að hafa valið hann fyrstur í A-landsliðið. Ég hafði séð hann með Gróttu í yngri flokkunum og ég fylgdist með honum þegar hann var kominn ungur inn í meistaraflokk hjá Gróttu. Maður þarf alltaf að spyrja sig hversu snemma maður byrjar að velja menn í A-landsliðið en ég vissi að Guðjón væri framtíðarmaður.“

„Stökk hæst og hljóp hraðast“

Þorbjörn rifjar upp fyrstu landsliðsæfinguna sem hann boðaði Guðjón á hjá A-landsliðinu: „Fyrsta æfingin sem hann mætti á var suður í Hafnarfirði. Ég man að þar var einhver blaðamaður sem spurði mig hvaða leikmaður þetta væri. Sem var kannski ekki óeðlilegt því Guðjón var ungur og ekki mjög þekktur á þeim tíma. Mig minnir að ég hafi fyrst tekið Guðjón með á stórmót á EM í Króatíu árið 2000. Það var hans fyrsta ferð og þar var hann nýliði en var miklu meira með strax árið eftir á HM í Frakklandi. Þar reyndi fyrst á hann og þá var fyrirséð í hvað stefndi varðandi Guðjón og landsliðið. Hann var alveg svaðalegur íþróttamaður, hljóp hraðast, stökk hæst og hafði ótrúlegt úthald,“ sagði Þorbjörn og honum eins og öðrum þykir merkilegt hversu lengi Guðjón hefur haldið snerpu og hraða sem leikmaður.

„Hann var strax efni í leiðtoga frá byrjun og var metnaðarfullur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Þess vegna átti ég von á að hann yrði lengi í boltanum en sá kannski ekki fyrir mér að hann myndi halda svona lengi áfram. Ef maður skoðar Guðjón og hans feril þá hefur hann verið í svo góðu formi að hann meiðist nánast aldrei. Hann æfir svo vel og er svo vel þjálfaður að hann meiðist nánast aldrei. Manni finnst hann varla hafa breyst sem leikmaður á síðustu tíu árum. Alltaf er sama reisnin yfir honum.“

Þorbjörn glímdi við Kovács

Ungverjinn Peter Kovács var framúrskarandi leikmaður á sínum tíma. Gerði hann 1.797 mörk í 323 leikjum en hans landsliðsferill stóð frá 1973 til 1995. Lauk honum á HM á Íslandi 1995. Þorbjörn mætti Kovács á handboltavellinum, til dæmis þegar Ungverjar fóru í úrslit á HM í Sviss 1986. Í þriðja sæti listans er Ólafur Stefánsson sem Þorbjörn þjálfaði bæði hjá Val og landsliðinu. Er Þorbjörn því með tengingar við þrjá efstu menn listans.

„Kovács var svakalega erfiður spilari. Skoraði og skoraði. Ég glímdi fyrst við hann á upphafsárum mínum í Val vegna þess að þá lentum við á móti ungversku liði í Evrópukeppni sem Kovács var í,“ sagði Þorbjörn Jensson í samtali við Morgunblaðið.