[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Barcelona keypti um helgina Brasilíumanninn Philippe Coutinho frá Liverpool fyrir 142 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 20 milljarða króna.

*Barcelona keypti um helgina Brasilíumanninn Philippe Coutinho frá Liverpool fyrir 142 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 20 milljarða króna. Coutinho varð þar með næstdýrasti leikmaður sögunnar en landi hans, Neymar, er sá dýrasti eftir að hafa farið frá Barcelona til PSG síðasta sumar fyrir jafnvirði 200 milljóna punda. Coutinho, sem er 25 ára gamall, kom til Liverpool frá Inter árið 2013 fyrir 8,5 milljónir punda, og skoraði 41 mark í 153 deildarleikjum fyrir enska félagið. Alsírbúinn Riyad Mahrez hjá Leicester og Frakkinn Thomas Lemar hjá Monaco eru meðal þeirra helstu sem ensku slúðurblöðin hafa orðað við Liverpool um helgina, sem hugsanlegir „arftakar“ Coutinhos á Anfield.

*Knattspyrnumaðurinn AronJóhannsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Grindavík. Hann kemur til félagsins frá Haukum þar sem hann hefur leikið allan sinn feril. Aron hefur aðeins misst af þremur deildarleikjum með Haukum á síðustu fjórum árum og lék hann 21 leik í 1. deildinni síðasta sumar. Hann á að baki 134 leiki með Haukum og í þeim hefur hann skorað 20 mörk.

* Snorri Einarsson varð í 11. sæti í 15 kílómetra skíðagöngu með frjálsri aðferð, á móti í Piteå í Svíþjóð um helgina. Mótið var hluti af Skandinavíubikarnum, sem er næststerkasta mótaröð í heimi innan Alþjóðaskíðasambandins, FIS. Snorri bætti stöðu sína á heimslista talsvert með árangrinum en hann fékk 40,17 FIS-stig fyrir gönguna á laugardag. Í gær varð hann svo í 14. sæti í 30 kílómetra göngu með hefðbundinni aðferð, en Snorri fékk 45,11 FIS-stig fyrir það.

*Enska úrvalsdeildarfélagið Stoke vonast til þess að geta kynnt nýjan knattspyrnustjóra í þessari viku, fyrir leikinn við Manchester United á mánudag, eftir að Mark Hughes var rekinn um helgina. Michael O'Neill , þjálfari landsliðs Norður-Írlands, og Gary Rowett , stjóri Derby, eru á meðal þeirra sem orðaðir hafa verið við stöðuna sem nú er laus hjá Stoke. Þá nefndi Daily Mirror til sögunnar Graham Potter , sem gert hefur kraftaverk sem þjálfari Östersund í Svíþjóð, en formaður sænska félagsins sagði ekkert til í því að hann væri að fara aftur til Englands. Stoke er í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni, með 20 stig eftir 22 leiki.

* Helena Sverrisdóttir , landsliðskona í körfubolta, lét til sín taka í tveimur leikjum með slóvakíska liðinu Good Angels Kosice í Austur-Evrópudeildinni um helgina. Helena skoraði 7 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar í 71:64-sigri á Al-Riyadi frá Líbanon í toppslag á laugardag, og hún skoraði 8 stig, tók 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í öruggum sigri á Horizont frá Hvíta-Rússlandi í gær, 101:66. Góðu englarnir eru með fullt hús stiga eftir sjö leiki í A-riðli deildarinnar.