Milo Yiannopoulos
Milo Yiannopoulos
Sú ákvörðun forsvarsmanna bókaútgáfunnar Simon & Schuster að rifta snemma á síðasta ári útgáfusamningi við Milo Yiannopoulos um bókina Dangerous vegna ummæla hans um barnaníð hefur nú leitt til málaferla í Bandaríkjunum.

Sú ákvörðun forsvarsmanna bókaútgáfunnar Simon & Schuster að rifta snemma á síðasta ári útgáfusamningi við Milo Yiannopoulos um bókina Dangerous vegna ummæla hans um barnaníð hefur nú leitt til málaferla í Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt The Guardian höfðaði Yiannopoulos málið gegn forlaginu í júlí vegna vanefnda á samningi. Málsvörn útgáfunnar byggist á því að ritstjóri bókarinnar, Mitchell Ivers, hafi snemma í vinnuferlinu haft miklar efasemdir um bókina. Máli sínu til stuðnings hefur útgáfan lagt fram uppkast af bókinni með fjölmörgum athugasemdum ritstjóra. Meðal þess sem Ivers skrifar í athugasemdum sínum er að Yiannopoulos þurfi sterkari rök gegn femínistum en að „þær séu ljótar og kynlausar og eigi ketti“. Ritstjórinn hvetur Yiannopoulos ítrekað til að sleppa tilgangslausum og yfirborðskenndum bröndurum sem byggjast á kynþáttaníði og segir beittustu röksemdir hans drukkna í sjálfsdýrkun.

Jafnframt kallar Ivers eftir því að höfundur vísi í heimildir til að sanna ýmsar fullyrðingar sínar. Þegar Yiannopoulos leggur til að öllum lesbíum verði hent út úr háskólum og sendar „aftur þangað sem þær eiga heima – í klámmyndum“ skrifar Ivers: „Oj, bara. Strika út.“