Menntaskólanemi Langaði að prófa eitthvað nýtt, segir Jón Hallmar.
Menntaskólanemi Langaði að prófa eitthvað nýtt, segir Jón Hallmar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Skólaskáld eru fleiri en maður kannski heldur. Sjálfum finnst mér gaman að skrifa sögur og yrkja ljóð, hvort sem þau eru módernísk og rómantísk.

Skólaskáld eru fleiri en maður kannski heldur. Sjálfum finnst mér gaman að skrifa sögur og yrkja ljóð, hvort sem þau eru módernísk og rómantísk. Já, sjálfsagt má samkvæmt því segja að ég sé gömul sál,“ segir Jón Hallmar Stefánsson sem er tvítugur í dag. Hann er nemandi við Menntaskólann á Akureyri hvaðan hann brautskráist í sumar. „Ég er alveg óráðinn um hvað ég tek mér fyrir hendur eftir stúdentspróf og tek mér sennilega frí frá skóla næsta vetur. En auðvitað held ég áfram; sálfræði er eitt af því sem kemur til greina og svo blaðamennska. Sérstaklega heillar mig að verða fréttaritari sem fer um erlendis og segir tíðindi af vettvangi mikilla atburða.“

Foreldrar Jóns Hallmars eru Stefán Þór Hallgrímsson lögreglumaður á Húsavík og Heiðrún Emelía Jónsdóttir lögmaður í Garðabæ.

„Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og fór því í menntaskóla fyrir norðan. Í vetur leigi ég íbúð með félaga mínum og að reka lítið heimili og standa á eigin fótum er heilmikill lærdómur. Ég er til dæmis orðinn ljómandi góður í því að elda kjúkling,“ segir Jón Hallmar sem núna er í jólafríi fyrir sunnan. Er þó á norðurleið en kennsla í MA eftir jólafrí hefst 16. janúar. Í fríinu hefur afmælisbarnið unnið í málningavöruverslun í Reykjavík, en eins og íslenskra ungmenna er háttur hefur hann prófað margt og meðal annars unnið á golfvelli og á bílaleigu. sbs@mbl.is