Gunnlaugur Lárusson fæddist við Kárastíg í Reykjavík 10. apríl 1923. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 24. desember 2017.

Foreldrar Gunnlaugs voru Lárus Hansson, f. 16.12. 1891, d.14.3. 1958, innheimtumaður Reykjavíkurborgar, og Jónína Gunnlaugsdóttir, f. 30.11. 1885, d. 12.1. 1943, húsmóðir.

Systkini Gunnlaugs voru Aðalsteinn, f. 27.2. 1920, d. 14.3. 1974, búfræðingur og sjómaður. Jóhanna, f. 11.8. 1921, d. 5.11. 2014, húsmóðir og fótaaðgerðafræðingur. Róbert, f. 1.11. 1924, d. 7.11. 2006, sjómaður.

Hálfsystir Gunnlaugs samfeðra var Ástríður, f. 22.2. 1909, d. 30.5. 1996, húsmóðir í Bandaríkjunum.

Gunnlaugur kvæntist 14. september 1946 Fjólu Gísladóttur, f. 11.1. 1924, d. 21.3. 2010. Þau höfðu þá eignast tvær dætur, Stefaníu Erlu, f. 1942, og Ólöfu Kristínu, f. 1943. Síðar eignuðust þau Lárus, f. 1949, Jónínu, f. 1954, og Margréti, f. 1959. Gunnlaugur lauk námi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík. Stundaði framhaldsnám í verslunarfræðum í Svíþjóð og Skotlandi. Að námi loknu hóf hann störf hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins og vann þar allan sinn starfsferil sem skrifstofustjóri.

Gunnlaugur gekk snemma til liðs við Knattspyrnufélagið Víking og var hann Víkingur alla sína tíð.

Hann lét félagsmál mikið til sín taka, sat m.a. í aðalstjórn Vikings um árabil og í bygginganefnd félagsheimilisins við Hæðargarð. Var hann gerður að heiðursfélaga Víkings. Einnig starfaði hann fyrir KSÍ og sat m.a. í landsliðsnefnd um margra ára skeið.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 8. janúar 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Margar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa um hann pabba minn sem kvaddi okkur á aðfangadag á slaginu tólf, 94 ára að aldri. Það reyndar lýsir honum mikið því nákvæmnismaður var hann, gekk ekki frá hálfunnu verki hvorki í vinnu né heldur þeim verkum sem honum var treyst fyrir og hann tók að sér.

Strangur var hann í uppvexti okkar systkina. Hafði sterkar skoðanir og sagði sína meiningu sem var ekki alltaf vinsælt. En sanngjarn, hlýr og fyrstur til að rétta fram hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á. Vildi halda utan um alla sína og mátti ekkert aumt sjá eða vita af og skipti þá ekki máli hvort um vini eða ókunnuga var að ræða, hugur og hönd vöru lögð af stað og verkin farin að tala.

Smekkmaður var hann og fínn í tauinu, bar sig einstaklega vel.

Fótbolta- og félagsmaður mikill og sannur Víkingur.

Tónlist hafði hann alla tíð mikla unun af. Fór oft á tónleika hér heima og erlendis þegar færi gafst. Beniamino Gigli, Pavarotti, Domingo og Carreras voru í miklu uppáhaldi ásamt fjölmörgum öðrum listamönnum.

Við fjölskyldan fluttum inn í Skeiðarvog þegar ég var fimm ára en þar byggði pabbi raðhús sem við systkinin ólumst upp í og áttum heima alla okkar bernsku. Mamma var heimavinnandi húsmóðir og sá um að halda öllu gangandi þar með sóma. Pabbi vann sem skrifstofustjóri hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins öll sín starfsár.

Mamma og pabbi bjuggu síðan á Sléttuveginum í Reykjavík í nokkur ár. Þóttu þau mjög glæsileg hjón, en mamma lést árið 2010 og það var pabba mikill missir.

Við pabbi áttum oft góðar stundir, spjölluðum um lífið og tilveruna og á ég eftir að sakna þeirra stunda.

Dálæti hafði hann á ljóðum og var Einar Benediktsson ljóðskáld í miklu uppáhaldi, gat hann t.d. farið með ljóðið „Í Dísarhöll“ utanbókar og með miklum tilþrifum. Þótti það mörgum alveg ótrúlegt.

Bumba er knúð og bogi dreginn,

blásinn er lúður og málmgjöll slegin.

Svo glatt er leikið af gripfimum drengj um

sem gneistar kveikist af fiðlunnar þvengjum.

Og hljómgeislinn titrar, án ljóss og án litar,

ljómar upp andann, sálina hitar

og brotnar í brjóstsins strengjum.

Allt hneigir og rís fyrir stjórnanda stafsins,

sem straumunum vísar til samradda hafsins,

sem hastar á unn þess, sem hljómrótið magnar,

sem hrærir hvern brunn þess til róms eða þagnar.

Hann vaggast í liðum með list og með sniði

og leikur hvern atburð á tónanna sviði,

svo augað með eyranu fagnar. –

(Einar Benediktsson)

En hvíldin er komin eftir langa og viðburðaríka ævi.

Elsku pabbi, hvíl í friði, takk fyrir allt. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar.

Jónína.

Gunnlaugur móðurbróðir minn er látinn á 95. aldursári. Það var viðbúið, hann kvaðst sáttur við lífið og tilbúinn að fara á vit feðra sinna. Þó er skrítið og tómlegt til þess að hugsa að nú séu þau öll farin systkinin, og við systkinabörnin orðin elsta kynslóðin.

Barnæska mín er tengd fjölskyldunni í Skeiðarvogi órjúfanlegum böndum og þær eru óteljandi góðu minningarnar sem ég á þaðan. Ég leit á Skeiðarvoginn sem mitt annað heimili og fannst ég alltaf velkomin þangað. Mikill samgangur var milli heimilanna og þegar pabbi dó gistum við hjá Gunnlaugi og Fjólu dagana á eftir og þau vildu allt fyrir okkur gera. Gunnlaugur kom færandi hendi með okkar fyrsta sjónvarp og þau buðu okkur mömmu í mína fyrstu og ógleymanlegu utanlandsferð með Gullfossi. Sem unglingur var ég heilt sumar í hádegismat hjá Fjólu þegar ég vann í bókabúðinni í Álfheimum og þannig mætti lengi telja, svo greiðvikin og hjálpsöm voru Gunnlaugur og Fjóla með alla hluti.

Eftir að ég sjálf eignaðist fjölskyldu sýndu þau okkur Andrési og dætrum okkar alltaf mikinn áhuga og velvild.

Mamma og Gunnlaugur voru alla tíð náin og kærleiksrík systkini og mamma og Fjóla miklar vinkonur. Mömmu fannst Gunnlaugur heldur stjórnsamur á stundum, þegar hann vildi hafa vit fyrir henni (sem var oft), en hún sagði að í raun væri það ekki annað en hugulsemi og umhyggja fyrir systur sem réði ferðinni, hann vildi bara það besta fyrir hana.

Gunnlaugur var óvenju glæsilegur maður, mikið snyrtimenni, alltaf vel til hafður og smart í tauinu. Á sínum yngri árum var hann afburða íþróttamaður í fótbolta og bar það með sér alla tíð.

Gunnlaugur barðist til mennta og sinnti ábyrgðarmiklu starfi. Hann var nákvæmur og vinnusamur og gerði kröfur um að fólk legði sig fram. Hann var traustur sem klettur, vildi hag allra sem bestan og reyndist mörgum hjálpsamur á raunastund. Ég á Gunnlaugi margt að þakka og hann lét mig alla tíð finna að hann væri ánægður með mig, uppáhaldsfrænku sína eins og hann kallaði mig oft.

Hvíl í friði, elsku frændi minn.

Björg Cortes.

Séntilmaður. Háttvísi. Þessi tvö orð finnst mér lýsa best mínum kæra Gunnlaugi sem ég fékk að kalla tengdapabba í 13 ára sambúð minni með Jónínu dóttur Gunnlaugs. Gunnlaugur kenndi þeim sem nenntu að taka eftir með sinni hæglátu framkomu. Gunnlaugur kenndi mér m.a. að básúna ekki hjálpsemi heldur hafa lágt um þá hjálp sem Gunnlaugur veitti mörgum í kringum sig í gegnum árin.

Ég var svo heppinn að fara nokkrum sinnum í veiðiferðir með Gunnlaugi og þá fékk ég enn eina kennslustundina, því þegar við yngri mennirnir eltumst upp og niður ár við vonarbröndur þá stóð Gunnlaugur rólegur við sinn hyl og landaði á annan tug fiska meðan við eftir okkar span komum með öngulinn í rassinum. Allt vinnur sá sem kann að bíða.

Ein minning frá góðri stund er ljóslifandi í mínum huga er við sátum saman góðglaðir og hann fór blaðlaust, orðrétt að sjálfsögðu, og með leikrænni tjáningu með allan bálk Einars Ben. Í dísarhöll, en þar er lýst hljóðfærum sinfóníusveitar á einstakan hátt af einstökum manni sem unni góðri tónlist og vildi hafa nákvæmlega og rétt eftir haft. Líf þitt var hlaðið fallegum gildum sem þú kenndir þeim sem í kringum þig voru með góðu fordæmi. Þegar við hittumst síðast fyrir u.þ.b. mánuði var af þér dregið og mér fannst þú svara spurningunni úr söngtextanum „skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til“ afgerandi já. Það er með virðingu sem ég kveð þig, kæri Gunnlaugur, í þeirri vissu að þú sért kominn á þinn rétta stað við hlið Fjólu þinnar. Farðu í friði.

Tryggvi Magnússon.

Látinn er í Reykjavík á nítugasta og fimmta aldursári Gunnlaugur Lárusson, heiðursfélagi í Knattspyrnufélaginu Víkingi frá árinu 1990. Gunnlaugur lauk námi frá Samvinnuskólanum og stundaði framhaldsnám í verslunarfræðum í Svíþjóð og Skotlandi. Að námi loknu hóf hann störf hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins og vann þar allan sinn starfsferil sem skrifstofustjóri. Gunnlaugur bar aldurinn vel og var heilsuhraustur alla tíð, ef undan eru skilin síðustu árin. Hann var mikið Reykjavíkurbarn, enda fæddur og uppalinn í Vesturbænum við Ásvallagötuna. Skaphöfnin var alltaf mjög ljúf en hann var mikill keppnismaður og kunni því illa að tapa. Gunnlaugur gekk snemma til liðs við Víking, sem þá var með aðsetur í miðbæ Reykjavíkur. Hann lék knattspyrnu með félaginu og fór í gegnum allt yngriflokkastarf félagsins á þeirra tíma vísu. Þá þótti ekki tiltökumál að leika með þriðja flokki að morgni, með öðrum flokki eftir hádegi og með meistaraflokki að kvöldi. Í meistaraflokki félagsins lék Gunnlaugur í tólf ár, í stöðu framvarðar og jafnan fyrirliði. Hann lék tvo landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1947 og 1948, á móti Svíum og Finnum, og var þriðji Víkingurinn frá upphafi til að komast í landslið Íslands. Á undan honum voru þeir Haukur Óskarsson hárskurðarmeistari og Brandur Brynjólfsson lögfræðingur. Í íþróttaheiminum skiptast á skin og skúrir eins og í lífinu sjálfu. Sigrar og ósigrar ganga yfir í áranna rás. Gunnlaugur Lárusson skildi þessar sveiflur manna best og brást ævinlega við með stóískri ró, enda gjörþekkti hann leikinn og flest leyndarmál hans. Við sem vorum úti á vellinum eftir að Gunnlaugur lagði skóna á hilluna lærðum mikið af honum. Hann átti það til að birtast í klefanum fyrirvaralaust á ögurstundum, alltaf jafn sallarólegur og jákvæður á hverju sem gekk. Hann var alltaf nálægur og fyrir það skal þakkað á útfarardegi hans. Gunnlaugur sýndi félagi sínu alla tíð mikla ræktarsemi. Það gladdi hann því mjög þegar Víkingi tókst að ná fjórða sæti í efstu deild knattspyrnunnar árið 2012 og leika svo í Evrópukeppni félagsliða árið eftir. Orðinn nokkuð lasburða var hann viðstaddur leikinn á glæsilegum heimavelli Víkinga í Fossvogi. Þó að úrslit hefðu ekki orðið sem skyldi gladdist gamli harðjaxlinn innilega yfir framgangi síns félags. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru miklir uppgangstímar í sögu Knattspyrnufélagsins Víkings í barnmörgu nýju hverfi í Reykjavík, Smáíbúða- og Bústaðahverfinu, en sú ákvörðun að flytja höfuðstöðvar félagsins úr miðbæ Reykjavíkur áratug áður var mjög umdeild. Ekki þarf að deila um það í dag hvílíkt heillaspor sú ákvörðun var fyrir félagið, en Gunnlaugur var málinu mjög fylgjandi. Gunnlaugur var mikill gæfumaður í einkalífi sínu. Hann kvæntist ágætri konu, Fjólu Gísladóttur, en hún lést árið 2010. Þeim hjónum varð fimm barna auðið, sem öll lifa föður sinn. Þeim öllum og fjölskyldum þeirra eru sendar samúðarkveðjur við fráfall Gunnlaugs Lárussonar. Við Víkingar kveðjum aldinn höfðingja og þökkum honum leiðsögnina.

Ólafur Þorsteinsson.