[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um 309 kynferðisbrot árið 2017. Það eru tæplega 12% fleiri tilkynningar en bárust árið á undan og 7% fleiri en að meðaltali síðustu fimm ár.

Fréttaskýring

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um 309 kynferðisbrot árið 2017. Það eru tæplega 12% fleiri tilkynningar en bárust árið á undan og 7% fleiri en að meðaltali síðustu fimm ár. Um helmingur tilkynntra kynferðisbrota árið 2017 voru nauðganir og fjölgaði tilkynntum nauðgunum um 16 prósent milli ára.

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, segir að umræðan um kynferðisbrot hafi valdið því að fleiri tilkynni kynferðisbrot, bæði eldri og ný brot. „Þessi fjölgun af tilkynntum brotum er ekki síst eldri mál. Mál sem hafa ekki átt sér stað nýlega og eru jafnvel einhverra ára gömul brot,“ segir Árni og bætir við að opnun Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, spili einnig inn í fjölgunina. „Við höfum fengið eldri mál og þau hafa tengst Bjarkarhlíðinni, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, bæði kynferðisofbeldis og annars ofbeldis, og við höfum merkt aukningu í kjölfar opnunar á Bjarkarhlíð og þó það sé ekki beinlínis hægt að nefna tölur, þá hefur #metoo-umræðan án efa ýtt undir að fólk hefur tilkynnt eitthvað sem það hefur beðið með að tilkynna“.

Spurður um hvort þessi mikla fjölgun mála hafi mikil áhrif á álag og rannsókn kynferðisbrotamála segir hann öll kynferðisbrotamál vera erfið og krefjast mikillar vinnu. „Þetta eru flókin mál til rannsóknar. Það er mikilvægt að fá tilkynningar sem fyrst svo við getum hafist handa við gagnaöflun. Bæði til að geta rannsakað vettvang ef um er ræða nýleg brot til að geta hugsanlega náð lífssýnum og einnig til að geta talað við meintan geranda og tekið nauðsynleg sýni. Allt þetta styrkir rannsóknina og því meiri gögn sem við höfum sem styðja frásögnina þeim mun betri verður rannsóknin.“

Fjölgun í flestum flokkum

Árið 2017 var tilkynnt um 144 nauðganir sem er fjölgun úr 124 nauðgunum árið 2016. Tilkynningar um kynferðisbrot gegn börnum fækkaði hins vegar úr 62 málum í 51 mál. Málum sem flokkast undir klám/barnaklám fjölgaði hins vegar til muna og fóru úr 4 málum árið 2016 í 14 mál árið 2017. Vændismálum fjölgaði einnig úr 3 tilkynntum málum í 9 tilkynnt mál árið 2017. Önnur kynferðisbrot, m.a. blygðunarsemisbrot og kynferðisleg áreitni, voru 90 á árinu sem leið en 84 slík mál komu upp árið 2016.

Unnið úr öllum málum

„Það sem ber að hafa í huga er tvíþætt, annars vegar tilkynnt brot í hverjum mánuði fyrir sig og brot sem gerðust í mánuðinum. Það geta verið 14 mál sem áttu sér stað í mánuðinum en það getur verið tilkynnt um 25 þannig að það er heildarfjöldi tilkynntra brota á árinu sem er sjálfu sér talan sem snýr að okkur því það þarf að vinna að öllum málunum hvort sem þau gerðust í gær eða í fyrra. Það þarf að rannsaka mál sem gerðust fyrir einhverjum árum, það fer mikil vinna í það þó vinnan sé öðruvísi,“ segir Árni.

Að meðaltali, fyrir árin 2016 og 2017, var rúmlega eitt af hverjum þremur kynferðisbrotamálum sem komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði brot sem hafði átt sér stað fyrir þann tíma. Upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar setur einnig þann fyrirvara að alls ekki öll brot séu tilkynnt til lögreglunnar og skráning eftir brotaflokkum getur tekið breytingum eftir að rannsókn máls hefst.