Er réttarríkið eitthvað sem skiptir máli í daglegu lífi eða er þetta bara fyrir einhverja fræðinga úr háskólunum til að fjalla um sín á milli?

Er réttarríkið eitthvað sem skiptir máli í daglegu lífi eða er þetta bara fyrir einhverja fræðinga úr háskólunum til að fjalla um sín á milli?

Hugmynd okkar um réttarríkið hefur verið álitin sá leiðarvísir sem ríkisvaldið hefur til beitingar reglna gagnvart borgurunum. Það að ríkisvaldið hafi ákveðnar leikreglur er talið auka öryggi borgaranna, réttlæti meðal þeirra og efla lýðræðið í heild. Ríkisvaldið er jú það vald sem borgarar í lýðræðisþjóðfélögum hafa kosið yfir sig en það skal ekki hafa ótakmarkað vald heldur hafa verið skapaðar ákveðnar leikreglur fyrir ríkisvaldið sem myndar svo hugmynd okkar um réttarríkið. Hugmyndin um réttarríkið verður þannig ekki skilgreind í eitt skipti fyrir öll heldur hefur mannfólkið í tímans rás þróað með sér sameiginlega sýn á það hvað réttarríkið þarf að innihalda til að geta kallast sterkt.

Sagt hefur verið að grunneinkenni réttarríkisins séu þrennskonar.

1. Að lög stjórni valdbeitingu.

2. Að allir þegnar séu jafnir fyrir lögum.

3. Að borgararnir sjálfir hafi í eðli sínu ákveðin grundvallarmannréttindi sem ekki verði af þeim tekin.

Nýsjálenski réttarheimspekingurinn Jeremy Waldron hefur sett fram lýsingar sínar á fyrsta þættinum, er varðar lögin sem valdbeitingartæki. Þar segir hann grundvallaratriði að opinber stjórnsýsla fari fram fyrir opnum tjöldum og sé gegnsæ, að lög séu almenn og ekki afturvirk, að þau séu fyrirsjáanleg og að beiting þessara laga fari fram á grundvelli réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum dómstólum. Þannig er það talið eitt af grundvallaratriðum er varða réttaröryggi borgaranna og þar með öflugt réttarríki að það fari ekki eftir geðþótta valdhafa hvernig lögum skuli beitt.

Það hefur örlað á því í umræðum undanfarna daga að óháðir dómstólar séu léttvægt viðfangsefni. Í viðtali við fulltrúa fjölmiðla hér á landi fyrir helgi var fjallað um skipan dómara af mikilli léttúð og henni líkt við hverja aðra stjórnvaldsaðgerð. Sama má heyra í máli stöku stjórnmálamanns sem hefur fjallað um efnið. Hugmyndin um að allir séu jafnir fyrir lögum er einfaldlega órjúfanlega tengd hugmyndinni um sjálfstæða dómstóla. Ekkert getur tekið frá okkur nauðsyn þess að það sé algjörlega hafið yfir allan vafa við skipun dómara að eingöngu málefnanleg sjónarmið ráði för og að skipunin beri hvergi merki persónulegrar og eða pólitískrar skoðunar þess ráðamanns sem með skipunarvaldið fer hverju sinni. Því miður virðist okkur hér á landi ganga erfiðlega að halda þeirri nauðsyn á lofti heldur höfum við of oft á undanförnum áratugum lent í erfiðum málum er varða skipan dómara við dómstóla landsins. Þetta veikir traust allra á stjórnvöldum í heild og þar bera ráðamenn einir alfarið ábyrgð. helgavala@althingi.is

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.