Í góðu yfirlæti Svavar segir kópana tvo njóta sín í Búðardal. Þeir fá mat tvisvar til fjórum sinnum á dag.
Í góðu yfirlæti Svavar segir kópana tvo njóta sín í Búðardal. Þeir fá mat tvisvar til fjórum sinnum á dag. — Ljósmynd/Steinunn Matthíasdóttir
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Svavar Garðarsson úr Búðardal í Dalabyggð var nýlega valinn Vestlendingur ársins 2017 af héraðsfréttablaðinu Skessuhorni. Hlaut Svavar langflestar tilnefningar í kosningu íbúa á Vesturlandi.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Svavar Garðarsson úr Búðardal í Dalabyggð var nýlega valinn Vestlendingur ársins 2017 af héraðsfréttablaðinu Skessuhorni. Hlaut Svavar langflestar tilnefningar í kosningu íbúa á Vesturlandi. Skessuhorn hefur nú staðið fyrir valinu á Vestlendingi ársins í tuttugu skipti eða alveg síðan blaðið kom fyrst út. Í umsögnum þeirra sem greiddu Svavari atkvæði sitt er tekið fram að hann hafi lagt fram hundruð klukkustunda í sjálfboðastarfi við að fegra og bæta umhverfið á heimaslóðum og svo beitti Svavar sér fyrir því að selkópar úr Húsdýragarðinum yrðu fluttir í laug í Búðardal. Að sögn Svavars hófust samskipti hans við Húsdýragarðinn síðasta sumar, en garðurinn varð að láta kópana af hendi vegna plássleysis.

„Ég var bara búinn að senda þeim bréf snemma í sumar og óska eftir þeim. Þeir þurftu að losa sig við kópana eins og þeir hafa gert á hverju ári vegna plássleysis og vildi ég taka við þeim og fóstra þá hér,“ segir Svavar í samtali við Morgunblaðið.

Óskar eftir undanþágu

Kópunum hefði verið lógað hefði Svavar ekki tekið við þeim en hann hefur unnið að því að fá undanþágu frá ráðherra til þess að sleppa þeim lausum en lög um velferð dýra bannar slíkt. „Þau [Húsdýragarðurinn] voru búin að reyna að fara þessa leið en fengu lítil svör. Það hafa venjulega fæðst tveir kópar á hverju sumri í Húsdýragarðinum,“ segir Svavar sem vonar að nýr ráðherra taki málið til greina. „Ég er búinn að skrifa að minnsta kosti tvisvar til ráðuneytisins en síðan þá hafa orðið ráðherraskipti og þetta er sjálfsagt í einhverju ferli, en ég ætla nú að taka þetta upp aftur og skrifa bréf til Kristjáns Þórs Júlíussonar, því hann hefur ekki komið að þessu áður.“ Kóparnir fá mat tvisvar til fjórum sinnum á dag og segir Svavar að þeir njóti sín vel í Búðardal. „Þeir eru endalaust á sundi eða skutla sér upp á bakkann. Um leið og þeir fara upp á bakkann myndast svell og þeir leika sér gjarnan að því að renna sér á því.“

Hann segir einnig að margir sem leggja leið sína vestur komi við og skoði kópana. Hann vonast til þess að geta sleppt þeim lausum sem fyrst og segir það furðulegt ef eigi að lóga þeim þegar selastofninn hefur hrunið síðustu ár.