Alvarlegir ágallar á örgjörvum koma í ljós og ógna öryggi almennings

Einhverjum hefur eflaust brugðið í brún þegar ljóstrað var upp um það að sérfræðingar í tölvu- og öryggismálum hefðu komist að tveimur alvarlegum göllum í flestum þeim örgjörvum, sem framleiddir hafa verið síðustu tvo áratugi eða svo. Voru gallarnir sagðir þess eðlis að engin leið væri að vita hvort óprúttnir aðilar hefðu komist á snoðir um þá eða jafnvel hvort þeir hefðu hagnýtt sér þá í ólöglegum tilgangi.

Helstu fyrirtækin sem framleiða tölvustýrikerfi, eins og Microsoft, Apple og Google, hafa þegar hafist handa við að búa til lausn fyrir annan gallann, en sá hefur fengið viðurnefnið „Meltdown“. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þar sem vandinn liggur í örgjörvanum muni lausnirnar líklega hægja verulega á þeim tölvum sem taka þær í gagnið.

Hinn gallinn sem uppgötvast hefur og fengið hefur heitið „Spectre“, er hins vegar sagður svo alvarlegur, að ekki muni duga minna en að skipta alveg um örgjörva vilji menn komast fyrir þann skaða sem óprúttnir aðilar geti valdið með aðgangi að honum. Á móti komi að mun erfiðara sé fyrir tölvuþrjóta að færa sér þann galla í nyt.

Ef reynslan kennir eitthvað, sem engin ástæða er til að efast um í þessu tilviki, er ljóst að tölvuþrjótar munu nú reyna allt hvað þeir geta til þess að hagnýta sér þá öryggisgalla sem komu í ljós á dögunum. Það verður því enn brýnna en oft áður að þeir sem nota nettengdan tölvubúnað, sem eru nú orðið nánast allir, sýni fyllstu aðgætni á netinu.