Skúli Pálsson lét þess getið á Boðnarmiði 29.desember að Jósefína Meulengracht Dietrich ætti afmæli og orti: Hylla skulu hagyrðingar heillalæðu, rjóma, mjólk og mjá þeir bjóði, mæri hana vel í ljóði.

Skúli Pálsson lét þess getið á Boðnarmiði 29.desember að Jósefína Meulengracht Dietrich ætti afmæli og orti:

Hylla skulu hagyrðingar heillalæðu,

rjóma, mjólk og mjá þeir bjóði,

mæri hana vel í ljóði.

Fröken Dietrich, fimust er hún flugubani,

þekkt af lítillæti sínu,

lofa skal ég Jósefínu!

Pólitíska klæki kann og kisa gula;

lengi megi ljóðin gala,

lepja mjólk og náðug mala.

Limra fylgir nýárskveðjum Ólafs Stefánssonar á Leir, – sem vonandi er ekki sannspár!

Vor Leir er í ljósárafirrð,

frá lífi, ef dapur þú spyrð.

Var lengi svo sprækur,

lið- oftast tækur,

en lognast nú útaf í kyrrð.

Sigurlín Hermannsdóttir sendi kveðjur og þakkaði fyrir kveðskap á liðnu ári. Að baki jólum og áramótum skildist sér að margir væru farnir að undirbúa sig undir næstu törn. – „Á þorrablótinu“:

Jósafat hentist á hliðina

því hlaupin var illska í liðina

í rjúkandi rokki

og Ranka í sjokki

en hann bað hana að afsaka biðina.

Páll Imsland sendi nýárskveðjur og bætti við: „Vonandi verður líf í leirnum. Ég léttist um hátíðarnar og er því þegar farinn að huga að máltíðum framtíðarinnar.“

Davíð Hjálmar Haraldsson yrkir um vandræðagang við Sementsverksmiðjuna á Akranesi:

Svo ljótt er að lít´upp á Skagann

að langflestir fá þá í magann

því turninn svo hallast

að hörmung má kallast.

Þeir ætt´að fá ISIS að lag´ann.

Sigmundur Benediktsson fór í fyrstu gönguferð ársins á Langasand og segir að þar sé erfitt að komast hjá að gera vísu:

Undir ljúfum ölduklið,

eftir blessuð jólin.

Lognölduna leikur við

lárétt vetrarsólin.

Fyrir helgi hafði Sigmundur orð á því að máninn væri á fylliríi og sólin á norðurleið.

Ofurmána vegleg veisla

við er loðandi,

lárétt sólin lengir geisla,

lífsafl boðandi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simsnet.is