Lokað Sigurður Þorsteinsson minnkar útsýni Kristjáns Sverrissonar í gær.
Lokað Sigurður Þorsteinsson minnkar útsýni Kristjáns Sverrissonar í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í höllunum Kristján Jónsson Kristófer Kristjánsson Skúli B. Sigurðsson Íslands- og bikarmeistarar KR í körfuknattleik karla tefla nú fram sínu sterkasta liði, eða svo gott sem, eftir að Jón Arnór Stefánsson sneri aftur eftir aðgerð vegna nárameiðsla.

Í höllunum

Kristján Jónsson

Kristófer Kristjánsson

Skúli B. Sigurðsson

Íslands- og bikarmeistarar KR í körfuknattleik karla tefla nú fram sínu sterkasta liði, eða svo gott sem, eftir að Jón Arnór Stefánsson sneri aftur eftir aðgerð vegna nárameiðsla. KR lagði í gær Stjörnuna að velli, 85:70, í Dominos-deildinni.

Skemmtanagildi leiksins var ekki með mesta móti en fyrir síðasta leikhlutann virtist þó vera líklegt að lokakaflinn gæti orðið spennandi. KR var yfir 41:24 að loknum fyrri hálfleik og Pavel Ermolinskij hóf síðari hálfleikinn á því að setja niður þrist. Þá tók Stjarnan hins vegar við sér og hóf að naga forskotið niður. Munurinn á liðunum fór úr tuttugu niður í tvö stig í þriðja leikhlutanum.

Stjarnan fékk raunar tækifæri til að komast yfir en þriggja stiga skot Tómasar Þórðar Hilmarssonar snerist upp úr hringnum. Stjarnan náði aldrei að jafna og KR-ingar skoruðu fyrstu átta stigin í lokaleikhlutanum og náðu góðri stöðu á ný.

Kristófer Acox var nánast óstöðvandi hjá KR og skoraði 28 stig. Langflest nærri körfunni en hann tók auk þess 12 fráköst. Annars dreifðist stigaskorið vel hjá KR. Finnur Freyr Stefánsson sýndi líklega Darra Hilmarssyni gömul myndbönd af Guðna Guðnasyni fyrir leikinn því Darri notaði spjaldið óspart í skotunum með ágætum árangri. Anthony Pryor skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna en annars áttu Garðbæingar erfitt með að athafna sig í sókninni gegn öflugri vörn KR-inga.

KR er með 20 stig eins og Haukar og ÍR sem einnig unnu sína leiki og staðan á toppi deildarinnar breyttist því ekki. Stjarnan hefur unnið sex leiki en tapað sjö. Er liðið í 8. sæti en með fjögurra stiga forskot á næstu lið. Ekki eru nema tvö stig í liðin í 5.-7. sæti og Stjarnan gæti því lagað stöðu sína verulega ef liðið nær sér á strik. En í Garðabænum eru menn þó vafalaust ósáttir við að ná ekki 50% vinningshlutfalli á þessum tíma.

Fyrsti sigur Þórs í Keflavík

Þór frá Akureyri gerði sér huggulega ferð til Reykjanesbæjar í gær, nánar tiltekið til Keflavíkur þegar þeir heimsóttu heimamenn á Sunnubrautina. Fyrr í vetur höfðu Þórsarar unnið Keflavík á sínum heimavelli og þá munaði alls ekkert um það að endurtaka það í Keflavíkinni. 98:100 varð niðurstaða kvöldsins og Þórsarar fögnuðu ákaft sínum fyrsta sigri á útivelli í vetur og um leið sínum fyrsta deildarsigri í Keflavík frá upphafi.

Fyrir leik hefðu líklegast flestir tippað á nokkuð þægilegan heimasigur hjá Keflvíkingum. Þeir hafa verið að bæta við sig og þá ber helst að nefna Hörð Axel Vilhjálmsson sem spilaði sinn fyrsta heimaleik fyrir þá í vetur. Að auki var farið og nælt í fjórða erlenda leikmanninn þennan veturinn. Dominique Elliott er stór og stæðilegur miðherji sem skilaði svo sannarlega sínu í gærkvöldi, 29 stigum og 11 fráköstum. Þetta dugði hinsvegar skammt gegn baráttuglöðum Þórsurum sem gáfu ekki þumlung eftir allt kvöldið. Erfitt er að tína til einn leikmann sem vó þyngst á vogarskálum Þórsara þetta kvöldið. Liðsheildin var góð og þeir bognuðu aldrei, jafnvel þegar um 6 mínútur voru til loka leiks og erlendur leikmaður þeirra fékk sína 5. villu. Ingvi Rafn Ingvason tók þá við keflinu og skoraði 13 síðustu stig Þórsara og það dugði til sigurs. Það má segja að varnarleikur, eða kannski frekar lítill sem enginn varnarleikur, hafi orðið heimamönnum að falli þetta kvöldið. Þórsarar fengu hvað eftir annað galopin færi framan af leik og við hvert skot sem datt niður lögðu þeir inn á sjálfstrausts-reikninginn. Þeir tóku svo út af þeim reikningi á lokakaflanum. Af öðrum leikmönnum verður að minnast á hlutverk Hilmars Henningssonar sem stýrði leik Þórsara af festu. Hann kom til þeirra frá Haukum í vetur og þrátt fyrir ungan aldur sýndi hann fádæma öryggi og yfirvegun í sínum leik.

Áttundi sigur Hauka í röð

Ekkert virðist geta stöðvað Hauka í Dominos-deild karla í körfubolta en þeir unnu sinn áttunda leik í röð í gærkvöldi, 90:78, er Grindavík kom í heimsókn á Ásvelli. Eins og oft áður var það landsliðsmaðurinn Kári Jónsson sem stýrði leiknum fyrir Hauka og skoraði hann 30 stig á meðan Paul Anthony Jones sá um fráköstin.

Grindvíkingar fóru illa með nágranna sína í Þorlákshöfn á sunnudaginn var þar sem Bandaríkjamaðurinn J‘Nathan Bullock sneri aftur til félagsins og ljóst að ef Suðurnesingar ætluðu sér einhvern tímann að stöðva sigurgöngu Hauka, þá var það í gær. Það var nær ekkert skorað í fyrsta leikhlutanum en þó voru gestirnir aðeins skárri enda Bullock frekur í fráköstunum í vörninni og duglegur að leggja upp á liðsfélaga sína. Hvorugt lið náði hins vegar almennilega að hitta úr þriggja stiga skotum sínum; Haukar nýttu sjö af 30 í öllum leiknum og Grindvíkingar aðeins fjögur af 22. Það var svo undir lok fyrri hálfleiks að Haukar fóru að hitta úr skotunum sínum og sneru þeir þá taflinu við og héldu forystu sinni til loka. Grindvíkingar voru þó aldrei langt undan og gerðu loka-aðsúg undir lok fjórða leikhluta þegar þeir minnkuðu muninn niður í eitt stig. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka fékk Sigurður Gunnar Þorsteinsson sína fimmtu villu og við það datt botninn endanlega úr leik Grindvíkinga sem sjálfir höfðu unnið þrjá síðustu leiki sína fyrir gærdaginn.

Haukar eru til alls líklegir í vor en nú tekur við nýtt verkefni. Á miðvikudaginn kemur mæta þeir Tindastól í undanúrslitum Maltbikarsins og geta þeir þar komist í úrslitaleik bikarsins í fyrsta sinn síðan 1996 þegar liðið vann sinn þriðja bikarmeistaratitil í sögu félagsins.

Höttur enn án stiga

ÍR-ingar eru með 20 stig eins og Haukar og KR en Breiðhyltingar sóttu tvö stig á Egilsstaði í gær. ÍR sigraði 90:74 en ÍR-ingar létu ekki á sig fá þótt Höttur byrjaði betur í fyrri hálfleik. Staðan var raunar jöfnn 40:40 að loknum fyrri hálfleik en í þriðja leikhluta fór að slitna á milli liðanna.

Höttur er því áfram án stiga á botninum og er nú sex stigum frá næsta liði sem er Þór Akureyri. Kelvin Lewis skoraði 29 stig fyrir liðið í gær og Mirko Virijevic 17 en fleiri þurfa að láta til sín taka í stigaskorun. Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur hjá ÍR með 19 stig en hann er mjög stöðugur í leik sínum fyrir ÍR. Ryan Taylor gerði 17 og Sveinbjörn Claessen var með 15 stig.

Hester kominn í gang

Keppnistímabilið hefur verið nokkuð sveiflukennt hjá Skagfirðingum í vetur. Í fyrsta leik á nýju ári töpuðu þeir fyrir ÍR-ingum en tóku sig til í gær og burstuðu Valsmenn 103:67 en Valsliðið hefur ekki fengið marga skelli í vetur.

Ef til vill sýna þessi úrslit hvað býr í liði Tindastóls þegar leikmenn liðsins eru vel upplagðir. Miðherjinn sterki Antonio Hester skoraði 25 stig og er kominn á fulla ferð eftir meiðsli sem héldu honum frá um tíma. Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 15 stig og Pétur Rúnar Birgisson gaf 9 stoðsendingar.

Gunnar Ingi Harðarson var langstigahæstur hjá Val með 26 stig og setti niður öll fjögur þriggja stiga skot sín. Skotin rötuðu hins vegar ekki rétta leið hjá Urald King þetta kvöld en hann skoraði aðeins 7 stig. Hitti hann aðeins úr tveimur skotum af tíu. Austin Magnus Bracey skoraði aðeins 7 stig og Birgir Björn Pétursson skoraði ekki stig á níu mínútum. Valsmenn voru því greinilega í vandræðum.

Stólarnir eru þrátt fyrir sveiflukennda frammistöðu einungis tveimur stigum á eftir toppliðunum og til alls líklegir í úrslitakeppninni. Valur er með 8 stig eins og Þór Þorlákshöfn í 9. - 10. sæti. Valsmenn hafa sýnt tilburði sem benda til þess að liðið eigi heima í úrslitakeppninni en illa hefur gengið að verða ofan á í jöfnum leikjum.