Hermann Hreiðarsson
Hermann Hreiðarsson — Morgunblaðið/Golli
Hermann Hreiðarsson flaug um helgina til Indlands þar sem hann mun að öllum líkindum skrifa undir samning þess efnis að hann muni aðstoða David James, fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Portsmouth og ÍBV, við þjálfun indverska knattspyrnuliðsins Kerala...

Hermann Hreiðarsson flaug um helgina til Indlands þar sem hann mun að öllum líkindum skrifa undir samning þess efnis að hann muni aðstoða David James, fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Portsmouth og ÍBV, við þjálfun indverska knattspyrnuliðsins Kerala Blasters sem leikur í indversku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla. Hermann og James urðu meðal annars bikarmeistarar með Portsmouth vorið 2008.

James tók við stjórnartaumunum hjá Kerala Blasters í vikunni, en hann leysti af hólmi Rene Meulensteen, fyrrverandi þjálfara hjá Manchester United. Með liðinu leika meðal annars Dimitar Berbatov og Wes Brown. James lék 12 leiki með Kerala Blasters árið 2014. Kerala Blasters hefur farið brösuglega af stað í deildinni á yfirstandandi leiktíð, en liðið hefur átta stig eftir átta leiki og situr í áttunda sæti deildarinnar af tíu liðum

Hermann stýrði síðast kvennaliði Fylkis, en liðið féll úr Pepsi-deild kvenna síðasta haust og í kjölfarið hætti hann þjálfun liðsins. Þar áður stýrði Hermann karlaliði IBV árið 2013 og síðan karlaliði Fylkis frá 2015 til 2016.