— Ljósmynd/Anna María Sigurjónsdóttir
Hlutverk Hönnunarsafns Íslands er að safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu sem lýtur að hönnun, einkum frá aldamótunum 1900 til samtímans.

Hlutverk Hönnunarsafns Íslands er að safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu sem lýtur að hönnun, einkum frá aldamótunum 1900 til samtímans. Safnið á og geymir um 900 íslenska og erlenda muni, sem margir hafa mikla menningarsögulega þýðingu. Safnkosturinn fer sístækkandi, enda æ fleiri hönnuðir sem hasla sér völl og koma fram með vandaða gripi sem standast alþjóðlegan samanburð og eru hvort tveggja nytjamunir og/eða skrautmunir.

Í safnkostinum er kaffistell eftir Dieter Roth frá árinu 1960, skráð með eftirfarandi hætti:

Dieter Roth stell – Glit

Dieter Roth (1930-1998)

Kaffistell

Kaffibollar, undirskálar, kaffikanna, mjólkurkanna, sykurkar, kertastjaki

Signerað undir kaffikönnu D ´60 Glit Ísland

Glit

Gjöf / Auður Sveinsdóttir, 2017

Kaffistellið er glæsilegt dæmi um þá samvinnu sem listamennirnir Dieter Roth og Ragnar Kjartansson (1923-1989) áttu á þeim árum sem Glit var lítið verkstæði, starfrækt á Óðinsgötu í miðbæ Reykjavíkur. Gamla Glit, eins og sagt er um þennan tíma, laðaði að sér listamenn sem störfuðu við að renna og skreyta leirmuni undir styrkri handleiðslu Ragnars, sem sá um listræna stjórnun fyrirtækisins. Dieter vann með Ragnari í Glit á árunum 1960-1961, verk merkt honum eru eftirsótt enda mikil listaverk eins og kaffistellið í eigu safnsins ber vott um. Það samanstendur af sjö bollum og undirskálum auk annarra fylgihluta.