Páll Gíslason
Páll Gíslason
Eftir Pál Gíslason: "Nýting jökuláa til framleiðslu rafmagns hefur ótvíræða kosti ef litið er til heildarhagsmuna umhverfisins og baráttunnar um að vernda jöklana."

Áhugaverður pistill var birtur á vef Orkustofnunar 15. desember sem nefnist Jólaerindi orkumálastjóra 2017 . Eitt af því sem vakti áhuga minn var umfjöllun um örlög jökla landsins, þar sem pistlahöfundur kemst þannig að orði:

„Mesta hættan sem steðjar að Hofsjökli er reyndar frá því góða fólki um allan heim sem sameinast í því að koma í veg fyrir nýtingu vistvænna orkulinda vegna þess að það telur að það sé verið að fórna með óafturkræfum hætti verðmætum, sem af ýmsum gildum ástæðum megi ekki snerta við. Vandinn er sá að eftir því sem þetta fólk eflist í baráttunni og nær betri árangri í að hindra vistvæna orkuframleiðslu þar sem hún er möguleg á jarðarkringlunni, eftir því vex kolefnismagnið í lofthjúpnum hraðar og Hofsjökull, eitt af höfuðdjásnum íslenska hálendisins, bráðnar og hverfur. Við ættum kannski að sýna jöklunum okkar svolítið meiri athygli og samúð.“

En hvað á orkumálastjóri við? Er hann þarna að vitna í andstæðinga þess að virkja jökulár og þá mótsögn sem í baráttu þeirra felst? Andstæðingum virkjana virðist hætta til að líta framhjá hjá þeirri staðreynd að jöklarnir eru auk fegurðar og tignar fyrst og fremst birgðir af ís og við þeim virðist lítið annað blasa en að þeir muni bráðna og vatnið renna til sjávar. Með vaxandi áhrifum gróðurhúsaloftegunda á loftslagið eykst hitinn og það mun óhjákvæmilega leiða til hraðari bráðnunar jökla.

En hvað getur mannkynið gert til að hægja á framleiðslu gróðurhúsalofttegunda? Það er auðvitað margt, en skilvirkasta framlag okkar Íslendinga er væntanlega að framleiða raforku með því að virkja þá orku sem til fellur í okkar fjölmörgu jökulám. Mér sýnist að orkumálastjóri sé einmitt að benda á þá áhugaverðu staðreynd að við getum nýtt afrennsli jökla til að hægja á myndun gróðurhúsalofttegunda.

Til að skýra þessa mynd enn betur má skoða hvernig við Íslendingar höfum nýtt þá raforku sem framleidd er hérlendis, en drjúgur hluti hennar er nýttur til að framleiða ál. Af þeim gögnum sem ég hef skoðað má lesa að kolefnisfótspor vegna framleiðslu eins tonns af áli sé nálægt því að vera um 1,6 tonn af kolefni ef það er unnið með raforku úr vatnsaflsvirkjun, en nær 17 tonn af kolefni fyrir hvert framleitt tonn af áli ef raforkan er framleidd með kolum. Þannig má halda því fram að það sparist nálægt 15 tonn af kolefni við hvert framleitt tonn af áli hérlendis samanborið við framleiðslu í Kína sem dæmi.

Álver á Íslandi framleiddu um 858.000 tonn af áli árið 2016. Ef við gefum okkur að íslenskar virkjanir hefðu ekki verið til staðar til að afhenda rafmagn til þessarar framleiðslu hefði álið væntanlega verið framleitt í öðrum löndun og að öllum líkindum með raforku frá kolaorkuverum. Íslenskt vatnsafl sem virkjað er til að framleiða rafmagn til álframleiðslu sparar því kolefnislosun sem nemur allt að 12,8 milljónum tonna.

Ef þessar stærðir eru settar í samhengi við raforkuvinnslu vegna álframleiðslu á heimsvísu, þá eru um það bil 53% allrar þeirrar raforku sem nýtt er til framleiðslu á áli framleidd í kolaorkuverum, en nálægt 27% með vatnsaflsvirkjunum.

Markmiðið með þessari grein er ekki að mæra ál og álframleiðslu, heldur að benda á gagnsemi þess fyrir náttúruna almennt að nýta íslenskar jökulár til að framleiða raforku. Kolefnismengun er hnattrænt vandamál, ekki staðbundið. Í þessu samhengi var sagt í frétt síðastliðið haust að við niðurdælingu á kolefni hérlendis væri hugsanlega verið að binda kolefni sem varð til í Singapúr.

Nýting íslenskra jökuláa til framleiðslu rafmagns vegna til dæmis álframleiðslu hefur ótvíræða kosti ef litið er til heildarhagsmuna umhverfisins varðandi kolefnismengun og þá um leið baráttunnar um að vernda jöklana. Á þetta var orkumálastjóri að benda í sinni ágætu jólakveðju.

Höfundur er verkfræðingur og formaður Verkfræðingafélags Íslands. pg@pg.is