Árni Scheving Stefánsson fæddist á Seyðisfirði 21. desember 1928. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Fossahlíð Seyðisfirði 1. janúar 2018. Foreldrar hans voru Stefán Árnason Scheving, f. á Hrærekslæk í Hróarstungu 23. ágúst 1898, d. 1. nóvember 1963, og Sigríður Ragnhildur Haraldsdóttir, f. 3. desember 1900 á Seyðisfirði, d. 10. júní 1990. Systkini Árna eru: 1) Halldóra Jóna, f. 28. júlí 1926, d. 8. mars 2011. 2) Guðmundur, f. 28. júlí 1926, d. 30. júlí 1927. 3) Anna Guðmunda, f. 23. júlí 1927, d. 15. apríl 1945. 4) Haraldur, f. 19. apríl 1935, d. 6. júlí 1935. 5) Garðar f. 26. mars 1937, og 6) Georg, f. 26. mars 1937, d. 27. ágúst 2007.

Árni kvæntist 31. desember 1961 Ingibjörgu Rafnsdóttur frá Gröf í Eiðaþinghá, f. 2. apríl 1931. Börn þeirra eru: 1) Ásdís Benediktsdóttir, sem Árni gekk í föðurstað, f. 12. ágúst 1953, eiginmaður Bergur Tómasson, f. 9. júní 1947, þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 2) Anna Dóra , f. 7. mars 1955, eiginmaður Magnús Guðmundsson, f. 5. nóvember 1952, þau eiga tvö börn og átta barnabörn. 3) Guðrún Katrín, f. 27. júlí 1957, eiginmaður Sigurður Gunnarsson, f. 30. desember 1950. Guðrún á einn son og eitt barnabarn. 4) Stefán , f. 31. ágúst 1959, eiginkona Bryndís Egilson, f. 5. júlí 1961, þau eiga tvö börn og sjö barnabörn. 5) Rafn, f. 11. október 1961, sambýliskona Arndís Pálsdóttir, f. 10. október 1958, þau eiga tvær dætur og eitt barnabarn. 6) Ragnhildur Billa, f. 21. janúar 1968, eiginmaður Jóhann Jónsson, f. 25. apríl 1961, þau eiga þrjú börn. Fyrir átti Árni dótturina Rakel, f. 7. júní 1948, d. 8. nóvember 1973. Hún eignaðist tvö syni og fjögur barnabörn.

Árni ólst upp í Firði á Seyðisfirði og lauk þar grunnskólanámi. Hann fór ungur að vinna en svo lá leiðin suður til náms í múraraiðn. Hann bjó síðan alla sína tíð á Seyðisfirði þar sem hann vann við múrverk, verkstjórn, almenna verkamannavinnu og sjómennsku. Hann var virkur í ýmsu félagsstarfi, t.d. eldri borgara og mikill stuðningsmaður Íþróttafélagsins Hugins þar sem hann spilaði fótbolta á sínum yngri árum, og sinnti svo ungviðinu eftir það. Hann var fróður um örnefni í Seyðisfirði og mikið leitað til hans frá Örnefnastofnun.

Árni verður jarðsunginn frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 8. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi minn, ég veit þú ert hvíldinni feginn og ég samgleðst þér innilega. Samt sit ég hér með sorg í hjarta og minningarnar sækja á. Mér finnst ég vera heppin að hafa átt þig sem pabba. Þú kenndir mér svo margt og við erum svo lík að mörgu leyti. Mamma sagði alltaf þegar ég gerði eitthvað í fljótræði „þú ert alveg eins og hann pabbi þinn“. Elsku pabbi minn, það er sko ekki leiðum að líkjast.

Þú kenndir mér svo margt. Þú kenndir mér t.d. að standa alltaf með þeim sem minna mega sín, það gerðir þú jafnvel þó það væri þér ekki í hag. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa okkur börnunum þínum hvernig sem stóð á hjá þér sjálfum. Það eina sem gat komið í veg fyrir aðstoð þína var vinna. Þú varst mikill vinnuþjarkur og þurftir að vinna mikið enda með fullt hús af börnum. Æskuminningar mínar um þig að koma þreyttur heim úr vinnu í hádeginu ylja mér engu að síður um hjartrætur núna. Jafnvel þótt við þyrftum að þegja á meðan fréttatíminn var í útvarpinu. Eftir hádegismatinn lagðist þú yfirleitt á gólfið og hvíldir þig. Þú hvíldist jafnvel þó við börnin hnoðuðumst á þér og kepptumst um athygli þína.

Á laugardagskvöldum var dansað í stofunni í Firði við danslögin í útvarpinu eða við tókum í spil. Þetta voru góðir tímar. Jafnvel þó þú værir sífellt vinnandi varstu óspar á tímann þinn þegar frístund gafst. Sleðaferðir, íþróttaferðir, ferðir á brennuna undir fyrsta kletti eru enn í rósrauðum bjarma. Það voru margar fjallgöngurnar sem þú fórst með okkur krakkana í á sunnudagsmorgnum á meðan mamma eldaði lærið. Í þeim ferðum fræddir þú okkur um stokka og steina, sagðir okkur sögur og kenndir okkur á undur náttúrunnar. Á góðviðrisdögum léstu okkur leggjast í grasið í hlíðinni undir Bjólfi og skoða skýjamyndir.

Já, pabbi minn, við fengum gott uppeldi hjá ykkur mömmu, við vorum ríkulega nærð af andlegum gæðum þó fjárráð hafi verið af skornum skammti. Lífið var ljúft og í minningunni var það alltaf þannig í kringum þig.

Það var mikill gestagangur í Firði 1 og þú varst hrókur alls fagnaðar, söngst mikið, m.a.s. stundum of hátt fyrir minn smekk. En skemmtilegastur fannst mér þú vera þegar þú sagðir gamansögur af sjálfum þér. Þá var oft mikið hlegið og þú hlóst manna hæst.

Já, elsku pabbi minn, það væri hægt að skrifa heila bók um ævi þína og uppátæki. Barnabörnin þín og síðar barnabarnabörn fengu að kynnast hjálpfýsi, sögum og uppátækjum þínum og kannski í meira mæli en við börnin þín því þú hafðir meiri tíma en þegar við vorum ung.

Þú hvarfst smám saman á braut þegar þú greindist með Alzheimers-sjúkdóminn. Samt glitti oft í kímnina hjá þér og þú fékkst gleðiblik í augun. Þannig var síðasti afmælisdagurinn þinn 21. des. sl. þegar við fjölskyldan sátum með ykkur heimilisfólkinu á Fossahlíð og sungum uppáhaldslögin þín og þú reyndir að syngja með. Síðustu sólarhringar lífs þíns voru langir og erfiðir. Ég er því glöð að þú hafir loksins fengið hvíldina eilífu. Nú ertu kominn í ljósið bjarta, laus frá öllum þrautum.

Hvíldu í friði, elsku pabbi. Sjáumst síðar.

Þín dóttir,

Guðrún Katrín.

„Sæll og velkominn í bæinn,“ sagði hann um leið og hönd mín hvarf í hrammana á Adda í Firði. Hann var þá bæjarverkstjóri á Seyðisfirði. Síðan hélt hann áfram að skipa fyrir þar sem frá var horfið. Þegar frá leið urðum við Addi tengdafeðgar og vinir.

Þessi fyrstu kynni lýsa Adda vel. Hann var kappsamur, ákveðinn og með eindæmum vinnusamur, enda þurfti hann að hafa töluvert fyrir lífinu strax frá barnsaldri. Haraldur afi hans var með fé á húsum innan við Fjarðarsel, og þangað fór hann til gegninga áður en skólinn byrjaði á morgnana og aftur síðdegis.

Þarna var tónninn gefinn og meðan skrokkurinn leyfði vann hann eins og hamhleypa við hin ýmsu störf. Hann kunni líka margt fyrir sér og aðstoðaði mann og annan við alls konar verkefni. Það varð enginn svikinn af starfskröftum hans.

Addi var félagslyndur og hrókur alls fagnaðar á góðum stundum. Hann sagði sögur, dansaði eins og herforingi og hafði feikna söngrödd sem oft fékk að hljóma. Við réttar aðstæður hefði Addi sennilega slegið í gegn sem söngvari á stóra sviðinu.

Í allri umgengni var Addi heill og sannur og gott að hitta hann í góðu tómi. Af æðruleysi tókst hann á við það að verða óvinnufær upp úr miðjum aldri. Hann fann sér þó ýmislegt til að gera, enda ekki öðru vanur. Hann skar t.d. út og setti upp örnefnaskilti, sem sum standa enn. Sjálfur brölti hann með skiltin á réttan stað, jafnvel upp í miðjan Vestdal. Með tvær hækjur, járnkarl bundinn yfir axlir, og nægan vilja tókst honum ætlunarverk sitt. Til eru sögur af því að blásaklausum ferðamönnum hafi orðið um og ó að sjá mann svona útbúinn koma út úr þokunni í einni ferðinni.

Í tilraunaeldhúsi afa fengu barnabörnin svo alls konar mat, sem ekki bauðst annars staðar. Má þar nefna steikt cheerios á pönnu og kartöflu-eggjastöppu bakaða í vöfflujárni. Nokkuð sem í seinni tíð sést á fínni veitingahúsum.

Með sama hugarfari fór hann í gegnum baráttuna við Alzheimer eftir að hann fór að herja á okkar mann. Síðustu árin naut hann umönnunar á Fossahlíð, ásamt því að fá heimsóknir frá ættingjum og vinum. Okkar síðasti fundur var í sumar sem leið. Þegar ég heilsaði honum horfði hann á mig nokkra stund en sagði svo: „Nei, ert þetta þú!“ og brosti sínu blíðasta. Þetta var góð stund, sem gleymist ekki.

Ég kveð þig, Addi minn, annars vegar með þessum orðum:

Alltaf sterkur, alltaf stór.

Stundum feitur, annars mjór.

Stritað gat með stóra byrði.

Strákurinn, hann Addi í Firði.

Og hins vegar, þar sem þú ert fæddur 21. desember þegar sólin er lægst á lofti, og ekur nú á brott til móts við nýja tilveru:

Dýrðarinnar desember.

Daginn nú að lengja fer.

Áfram veginn ekur glaður.

Addi í Firði, okkar maður.

Þinn tengdasonur

Magnús Guðmundsson.

Addi í Firði kvaddi þessa jarðvist aðfaranótt 1. janúar sl. og náði því yfir á nítugasta aldursárið. Ég kom inn í fjölskylduna með síðustu tengdabörnunum. Var mér strax afar vel tekið. Árni hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum, hafði skýra pólitíska sýn og þótti rétt að veita mér rétta uppfræðslu í þeim efnum. Þar tókst hann hins vegar á við ómöguleikann og ekki líklegra en mér tækist það gagnstæða, en hann var Alþýðuflokksmaður alla leið. Þegar ég kom inn í fjölskylduna var hann orðinn öryrki, en lét það ekki aftra sér frá ýmsum hugðarefnum og ekki endilega þeim auðveldustu. Má nefna kartöfluræktun sem hann sinnti af alúð og réðst í það stórvirki að merkja staði með örnefnum, s.s. fossa með Fjarðará og úti á Vestdal.

Á haustin stundaði hann berjamó af ákafa. Hann reyndist börnum okkar hjóna góður afi og tók t.d. að sér að sjá um Evu á daginn áður en hún varð eins árs gömul meðan foreldrarnir unnu. Mætti hann þá á morgnana, löngu áður en hann átti að koma að passa og gaf henni gjarnan ekki það sem uppálagt var, heldur það sem hentaði honum best, vel sykraða þykkmjólk.

Börnin okkar héldu mikið upp á afa sinn og ömmu enda voru þau stór hluti í þeirra daglega lífi. Hann mátti þola ýmis uppátæki, t.d. þegar Guðmundur Jónsson hjá Tryggingastofnun ríksins hringdi eitt síðdegið og spurði eftir Árna Scheving Stefánssyni og tilkynnti honum að hann hefði misst ellilífeyrinn. Árni stóð upp, skipti litum og gleymdi hækjunum á hraðferð inn í herbergi að gá í möppurnar. Einhvern hlut átti Ingvar að málinu og komst upp að hann hafði hringt. Hló Árni mikið að uppátæki Ingvars enda þeir miklir vinir.

Árni hafði gaman af að spila og kenndi börnunum okkar að spila á spil. Síðari árin meðan heilsan leyfði ferðuðust þau hjónin hvert sumar með okkur Ragnhildi og börnunum bæði í útilegu-, sumarbústaða- og hótelferðir. Hann naut þessara ferða enda hafði hann unun af útiveru og að skoða landið. Til Benidorm fórum við fjölskyldan með Ingibjörgu og Árna um páskana 2007 ásamt Rafni og fjölskyldu. Pöntuðum við hjólastól og þurfti að beita hann fortölum til að setjast í stólinn, en eftir á kunni hann að meta að geta fylgt okkur í ferðum í nágrenni hótelsins. Árni var ekki matvandur en eitt kvöldið þegar við sátum að snæðingi á hótelinu gekk maturinn fram af honum. Hafði hann þá á orði við Ingvar, vel flámæltur, að það þyrfti að fá almennilegan Breta í eldhúsið. Margt ógleymanlegt gerðist í ferðinni, en við komu í Leifsstöð var ég að fylgjast með Árna við rúllustigann og meta hvernig væri best fyrir hann að komast niður er hann miðaði á stigann og stökk síðan út á hann og komst klakklaust niður. Framhjá gekk flugfreyja sem benti okkur á að þarna til hliðar væri lyfta. Árið 2013 byrjaði Árni í hvíldarinnlögnum á hjúkrunardeild HSA á Seyðisfirði. Árni var dyggur stuðningsmaður Hugins og ekki verra kominn á hjúkrunardeildina að geta þaðan fylgst með Huginsmönnum spila heimaleiki sína. Að leiðarlokum þakka ég Árna fyrir samfylgdina.

Jóhann Jónsson.

Elsku afi.

Nú hefur þú kvatt okkur og þín er sárt saknað. Það er erfitt að hugsa sér betri og skemmtilegri afa en þig og svo ótal margar skemmtilegar minningar koma upp þegar ég hugsa til þín. Það var alltaf svo gott að koma til ykkar ömmu í blokkina. Á seinni árum ykkar þar var merkilegt að þrátt fyrir að oftar en ekki væri sjónvarpið í gangi og eitt ef ekki tvö útvörp líka þá var alltaf notalegt og rólegt að koma til ykkar. Þú varst iðulega syngjandi kátur að leggja kapal eða spila og gleðin leyndi sér ekki. Jafnvel á síðustu árum þegar sjúkdómurinn sótti hart að þér gafstu ekki upp. Í þau allt of fáu skipti sem ég kom með fjölskylduna í heimsókn sá maður skína í gleði og hamingju sem var alltaf í kringum þig.

Mér er ofarlega í huga núna allur tíminn sem við vörðum saman á mínum uppvaxtarárum. Þegar við flugumst á og maður átti sér þann draum heitastan að ráða við járnkallinn afa sinn, það var ekki möguleiki.

Allar þær stundir sem við vorum að spila, þar náði maður stundum að hafa betur þó það væri nú ekki oft. Ferðirnar okkar úr áramótagleðinni hjá Ásdísi upp í blokk til að taka upp áramótaskaupið voru óborganlegar og oft komum við eiturhressir til baka flestum til mikillar gleði. Á mínu fyrsta ári sem leikmaður í Hugin þá varst þú heiðursgestur á herrakvöldi Hugins. Þar fór heiðursgesturinn ekki með langa ræðu en þú slóst eftirminnilega í gegn með gamansögum og vísum sem við skulum segja að hafi verið ákaflega viðeigandi á þeirri samkomu. Það var mikið hlegið og klappað.

Þú kenndir mér að keyra á Lödunni út um allan fjörð. Það voru góðir tímar sem við áttum saman og hjálpaði mér mikið í undirbúningi fyrir bílprófið. Þú komst einnig og rakst mig, latan strákinn, á fætur einn morguninn og við fórum út í skúr þar sem þú kenndir mér að beita sem varð svo mín atvinna á unglingsárum. Þar má segja að þú hafir kennt mér að maður þarf að hafa fyrir lífinu.

Í kringum þig var alltaf fjör, afi, hvort sem það var í fjölskylduboðum, ættarmótum, dansleikjum, í blokkinni eða hvar sem var. Þú varst einstaklega ljúfur, góður og sérstaklega barngóður maður. Sjá þig sitja með yngstu afabörnin og svo langafabörnin þegar þau komu og syngja fyrir þau var einstakt. Undantekningarlaust hlustuðu þau og tóku þátt í leiknum með þér og mjög fallegt að fylgjast með úr sófanum.

Elsku afi, ég sakna þín mikið. Hvíldu í friði.

Guðmundur

Magnússon.

Í dag kveðjum við Árna afa okkar. Afi var einstakur maður sem hafði meðal annars gaman af því að syngja, spila og segja sögur. Við systur nýttum oft páska-, sumar- og jólafrí til að heimsækja ömmu og afa og þar leiddist okkur aldrei. Við eigum margar minningar þar sem við sátum við eldhúsborðið í blokkinni, drukkum kakó með sykurpúðum, afi hitaði upp vöfflur sem amma hafði jafnvel bakað daginn áður og gripið var í spil. Afi var duglegur að segja okkur sögur þegar við fórum með honum í bíltúr en oftar en ekki endaði bíltúrinn á því að afi stoppaði bílinn og við löbbuðum upp á fjall eða fórum í göngutúra um Vestdalseyri. Afi gekk lengi með hækjur en lét það ekki stoppa sig þegar hann fór í göngutúra eða í berjamó, upp fór hann alltaf. Það stoppaði fátt afa en eitt sumarið fórum við systur með afa og ömmu að Gröf en þar ætluðu þau að sýna okkur gömlu sveitina hennar ömmu. Afi tók af skarið og við og amma fylgdum fast á eftir honum, það fór ekki betur en svo að amma rann til og fótbrotnaði. Hann kom ömmu og okkur í bílinn og brunaði á Seyðisfjörð þar sem amma var skoðuð og send í framhaldi til Reykjavíkur á spítala.

Afi var ávallt uppátækjasamur og hugmyndaríkur hvort sem það snéri að eldamennsku, gistingu í bílnum sínum eða einhverjum leikjum sem við fórum í með honum þegar við vorum yngri. Síðasta sumarið sem afi bjó í blokkinni með ömmu gat hann orðið lítið gert en samt var stutt í framkvæmdavitið og deildi hann því með okkur hvernig hann ætlaði að útbúa heitan pott á svölunum handa ömmu svo hún þyrfti ekki alltaf að fara í sundlaugina til að komast í heita pottinn sinn.

Við viljum þakka afa fyrir allar góðu stundirnar, minningarnar um hann munu alltaf lifa með okkur.

Ingibjörg og

Særún Rafnsdætur.

Elsku afi.

Nú er komið að kveðjustund hjá okkur. Það eru margar minningar sem hafa skotist upp undanfarna daga. Ég minnist þess hvað það var gott að koma til ykkar ömmu í blokkina. Þegar amma var ekki heima þá sást þú um eldamennskuna fyrir okkur barnabörnin. Að mínu mati varst þú mjög vanmetinn matreiðslumaður og ég skildi það aldrei. Til dæmis er mér minnisstætt þegar þú pönnusteiktir kjötafganga með kartöflum, cheerios og stráðir sykri yfir. En oftast var það samt samloka hituð á pönnu með smjöri, púðursykri, skinku og osti sem var í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef aldrei séð neinn matreiðslumann leika þetta eins vel eftir og þú gerðir.

Það var mikið brallað og t.d. spilaðir þú við okkur fótbolta þótt þú værir á hækjum. Við sigldum saman á gúmmíbát, fórum í berjamó og við tókum marga rúnta saman. Ég lærði að tefla hjá þér og við tefldum mikið en þegar ég var farinn að vinna þig reglulega þá einhverra hluta vegna hættir þú að nenna að tefla við mig. Síðustu árin áður en sjúkdómurinn náði tökum á þér bjuggum við fjölskyldan fyrir ofan ykkur ömmu í blokkinni. Það var yndislegur tími og ég er mjög glaður yfir því að synir mínir náðu þér og þá sérstaklega Aron Bergur. Þið voruð miklir vinir og sunguð mikið saman. Hann passaði sérstaklega upp á að þú hreyfðir þig reglulega, því hann átti það til að fikta í kristalnum hennar ömmu og þá hljópst þú af stað. En það er fyrst og fremst hlýjan og gleðin sem ég minnist helst frá þér. Það var alltaf hægt að koma til ykkar ömmu og móttökurnar voru alltaf yndislegar. En þangað til næst, bless bless afi.

Hjalti Þór

Bergsson.