Varla hefur farið framhjá lesendum að seint í desember var Atla Rafni Sigurðarsyni, einum af aðalleikurum Medeu , sagt fyrirvaralaust upp störfum hjá Borgarleikhúsinu.

Varla hefur farið framhjá lesendum að seint í desember var Atla Rafni Sigurðarsyni, einum af aðalleikurum Medeu , sagt fyrirvaralaust upp störfum hjá Borgarleikhúsinu. Var það vegna alvarlegra ásakana sem bornar höfðu verið á leikarann í tengslum við #MeToo-byltinguna.

Harpa segir fréttirnar af brottrekstri leikarans hafa komið henni í opna skjöldu. „Ég var boðuð á fund með leikhússtjóra kl. 16 á laugardegi og hélt að til stæði að ræða um sýninguna enda aðeins sjö vinnudagar eftir í frumsýningu. Fékk ég þá að vita að einum af aðalleikurunum hefði verið sagt upp og að hann kæmi ekki til vinnu á mánudaginn. Eins og við er að búast var þetta mikið áfall fyrir mig og alla aðstandendur sýningarinnar, enda Atli frábær leikari og búinn að skila sinni vinnu með sóma.“

Hópurinn var um það bil viku að ná áttum, og segir Harpa að um tíma hafi ekki verið ljóst hvort uppfærslunni yrði mögulega frestað fram á næsta leikár. „En það hvíldi á mér sem skipstjóra að koma áhöfninni aftur um borð, bretta upp ermarnar og koma okkur af strandstað þrátt fyrir að við værum lemstruð.“

Vildi svo heppilega til að Hjörtur Jóhann Jónsson gat tekið að sér hlutverk Jasonar með mjög stuttum fyrirvara. „Upphaflega átti Hjörtur að fara með hlutverkið en gat það ekki vegna þess að hann var bundinn við sýningar á Ellý . Hjörtur var kunnugur verkinu og hlutverk Jasonar hans óskahlutverk.“

Harpa og Hjörtur héldu sinn fyrsta fund 23. desember, og þann 27. kom Hjörtur klár á æfingu og hafði þá þegar lært allan sinn texta. „Og þetta er texti sem kallar á mikla nákvæmni í flutningi. Hjörtur kemur sterkur til leiks enda frábær leikari,“ bætir leikstjórinn við.

Harpa segist ekki sjá eftir því að hafa haldið verkefninu til streitu en Medea verður forsýnd 11. janúar og frumsýning 13. janúar. „Við vorum með rennsli á föstudaginn var og sýningin er komin. Póseidon var með okkur og við höfum fundið seiðmagnað land,“ segir hún glettin.